Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Framkvæmdir við Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi hafnar

Framkvæmdir eru hafnar við þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi.  - mynd

Fyrsti áfangi framkvæmda við Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi er hafinn en byggingin mun hýsa sýningar, skrifstofur og aðra aðstöðu Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra var viðstaddur þegar formlega var hafist handa við jarðvegsvinnu vegna miðstöðvarinnar s.l. föstudag.

Verið er að leggja lokahönd á sjálft byggingaútboðið og verður það auglýst á næstunni. Húsið verður um 700 m² að flatarmáli og gert er ráð fyrir að það verði tilbúið til notkunar eftir tvö til þrjú ár.

Brýn þörf er fyrir uppbyggingu þar sem gestum í Snæfellsnesþjóðgarði hefur fjölgað ört á síðastliðnum árum. Á síðasta ári voru þeir tæplega hálf milljón samkvæmt umferðarmælingum og hefur gestum í gestastofunni á Malarrifi fjölgað um 20 – 30% milli ára.

„Það er mikilvægur áfangi að loksins séu framkvæmdir við þjóðgarðsmiðstöðina farnar af stað,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Eftir þeim hefur verið beðið í mörg ár og nú er loks kominn skriður á málið. Nokkur uppbygging hefur átt sér stað innan þjóðgarðsins á undanförnum árum og búið að tryggja fjármagn til fjölmargra verkefna á næstu árum. Það er mikilvægt að verja fjármagni í innviði, aðbúnað og landvörslu í þjóðgarðinum sem skilar sér margfalt tilbaka bæði til þjóðarbúsins og nærsamfélagsins eins og nýleg rannsókn sýnir.“

Í verkefnaáætlun 2019-2021 fyrir Landsáætlun um uppbyggingu innviða, sem umhverfis- og auðlindaráðherra kynnti nýverið, er gert ráð fyrir margvíslegum framkvæmdum innan þjóðgarðsins næstu þrjú árin. Þar má nefna úrbætur á göngustígum við Öndverðarnes, stækkun og malbikun bílastæðis við Skarðsvík, gerð hreinlætisaðstöðu við Djúpalónssand og smíði útsýnispalla við Saxhól og Svalþúfu. Samtals nema framkvæmdirnar í verkefnaáætluninni um 235 milljónum króna.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum