Hoppa yfir valmynd
11. október 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 421/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 11. október 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 421/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18090021

 

Beiðni […] um endurupptöku

 

I.             Málsatvik

Þann 12. júlí 2018 felldi kærunefnd útlendingamála úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar frá 12. apríl 2018 um brottvísun og endurkomubann […], fd. […], ríkisborgari Hollands (hér eftir nefnd kærandi).

Þann 13. september 2018 barst kærunefnd beiðni frá kæranda um endurupptöku málsins, ásamt greinargerð og fylgigögnum.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Með dómi Hæstaréttar Íslands frá […] í máli nr. […], var kærandi dæmd til átta ára fangelsisvistar vegna fíkniefnabrots. Þann 29. september 2016 tók Útlendingastofnun ákvörðun um að vísa kæranda brott frá Íslandi og gera henni endurkomubann til 20 ára. Með greinargerð, dags. 30. ágúst 2016, mótmælti kærandi fyrirhuguðu endurkomubanni. Ákvörðun Útlendingastofnunar var felld úr gildi með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 321/2017 frá 22. júní 2017 og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

Þann 16. mars 2018 tilkynnti Útlendingastofnun kæranda öðru sinni um hugsanlega brottvísun og endurkomubann til Íslands. Kærandi lagði fram greinargerð þann 29. mars sl. þar sem hugsanlegri brottvísun og endurkomubanni var mótmælt. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. apríl 2018, var kæranda vísað brott frá Íslandi og bönnuð endurkoma í 20 ár, sbr. 1. og 2. mgr. 95. gr. og 1. mgr. 96. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 248/2018 frá 12. júlí 2018 var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi.

Í ljósi upplýsinga um að kærunefnd útlendingamála hafi fellt úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann og að brottvísunin muni þannig ekki koma til framkvæmda ákvað Fangelsismálastofnun ríkisins að afturkalla heimild kæranda til afplánunar undir rafrænu eftirliti, líkt og rakið er í bréfi stofnunarinnar frá 7. ágúst sl. Stofnunin hafi ekki lengur talið sér heimilt að veita kæranda reynslulausn þegar helmingur refsitímans var liðinn vegna skilyrða í ákvæðum laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016. Kærandi þurfti því að hefja afplánun að nýju í fangelsi. Fangelsismálastofnun stefni að því að veita kæranda reynslulausn þegar afplánun á tveimur þriðju hluta refsitímans er lokið, þ.e. þann 5. september 2020.

Kærandi byggir á því að hún hafi aldrei haft í hyggju að kæra ákvörðun um brottvísun frá Íslandi. Hún hafi eingöngu haft athugasemdir við endurkomubannið. Á milli kæranda og fyrrum lögmanns hennar hafi verið tungumálaörðugleikar og kærandi hafi ekki gert sér grein fyrir því að fyrir hennar hönd hafi brottvísun frá Íslandi verið mótmælt. Þvert á móti hafi kærandi verið sátt við að fara frá landinu en hafi aftur á móti talið mjög íþyngjandi að fá ekki að koma til baka fyrr en eftir 20-30 ár. Það varði kæranda miklu að allar hennar áætlanir standist til framtíðar. Hún sé með hjartasjúkdóm, sé einkabarn eldri hjóna og þá hafi dóttir hennar ráðgert að ganga í hjónaband þegar kærandi kæmi til síns heima.

Þá liggi fyrir að Útlendingastofnun hafi í hyggju að breyta verklagsreglum sínum og gera einstaklingum sem séu í sömu stöðu og kærandi grein fyrir því hvað það geti varðað ef mál þeirra sé tekið upp og breytt þar sem miklir hagsmunir gætu verið undir. Bendir kærandi á að hún hafi aldrei mótmælt brottvísuninni af landinu og hafi fullan skilning á þeirri afstöðu sem Útlendingastofnun hafi tekið í málinu. Því óski kærandi eftir að kærunefnd taki einungis afstöðu til kæru hennar er varðar endurkomubannið en láti ógert að fjalla um brottvísunina.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um endurupptöku máls. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. ákvæðisins á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum kemur m.a. fram að um verði að vera að ræða upplýsingar sem byggt var á við ákvörðun málsins en ekki rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um atvik sem mjög litla þýðingu höfðu við úrlausn þess.

Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls einnig rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef íþyngjandi ákvörðun um viðvarandi boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því ákvörðun var tekin. Í fyrrnefndum athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tekið fram að ef þau atvik, sem talin voru réttlæta slíka ákvörðun, hafi breyst verulega sé eðlilegt að aðili eigi rétt á því að málið sé tekið til meðferðar á ný og athugað hvort skilyrði séu fyrir því að fella ákvörðunina niður eða milda hana. Segir ennfremur að ákvæðið hafi náin tengsl við meðalhófsregluna í 12. gr. laganna.

Þann 12. júlí sl. kvað kærunefnd útlendingamála upp úrskurð nr. 248/2018 í máli kæranda. Með þeim úrskurði felldi nefndin úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar frá 12. apríl sl. um brottvísun kæranda frá Íslandi og endurkomubann til 20 ára. Í úrskurðinum komst nefndin að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að kærandi hafi með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. […] verið dæmd fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot sem varðað gæti almannaöryggi í skilningi 1. mgr. 95. gr. laga um útlendinga þá stæði 2. mgr. ákvæðisins brottvísun kæranda í vegi. Taldi nefndin að háttsemi kæranda gæfi ekki til kynna að hún myndi fremja refsivert brot á ný og því fæli framferði hennar ekki í sér raunverulega og yfirvofandi hættu gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins.

Eins og að framan greinir hefur kærandi óskað eftir endurupptöku á því máli sem lauk með síðastnefndum úrskurði kærunefndar á þeirri forsendu að hún hafi ekki ætlað sér að kæra ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun. Þvert á móti hafi kærandi viljað una ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun en haft athugasemdir við lengd endurkomubanns sem stofnunin hafi ákvarðað. Kærandi vilji að kærunefndin endurskoði einungis ákvörðun Útlendingastofnunar hvað varðar endurkomubannið en láti ógert að fjalla um brottvísunina. 

Við meðferð málsins sem lauk með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 248/2018 krafðist kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun yrði felld úr gildi. Þar byggði kærandi m.a. á því að hún óttaðist einstaklinga í heimaríki og að brottvísun hennar þangað yrði hættuleg heilsu hennar. Þá byggði kærandi á því að brottvísun yrði verulega íþyngjandi henni og eiginmanni hennar þar sem fjölskylda hennar yrði aðskilin. Kærandi byggði á sömu málsástæðum við meðferð þess máls hjá Útlendingastofnun. Af framansögðu er ljóst að kærandi færði með skýrum hætti á tveimur stjórnsýslustigum fram kröfur og málsástæður sem vörðuðu brottvísun skv. 95. gr. laga um útlendinga. Að mati kærunefndar verður ekki fallist á að frásögn kæranda um misskilning milli hennar og lögmanns geti talist ófullnægjandi eða rangar upplýsingar um málsatvik eða að atvik hafi breyst verulega frá því kærunefnd úrskurðaði í máli kæranda, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Þá telur kærunefnd að það eitt að kærandi telji sig hafa hagsmuni af því að fá aðra niðurstöðu í mál sitt, eða byggja á öðrum málsástæðum hjá stjórnvöldum, geti ekki verið grundvöllur endurupptöku eins og atvikum er háttað.

Kröfu kæranda um endurupptöku máls hennar er því hafnað.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda er hafnað.

 

The request of the appellant is denied.

 

 

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

 

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                    Anna Valbjörg Ólafsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum