Hoppa yfir valmynd
7. september 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félags- og barnamálaráðherra ræðir um þátttöku barna í stefnumótun stjórnvalda á LÝSU – rokkhátíð samtalsins

Ásmundur Einar sagðist vilja raunverulegt samstarf við börn og ungmenni þegar kemur að því að taka ákvarðanir. - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags – og barnamálaráðherra, tók þátt í LÝSU, rokkhátíð samtalsins, sem nú fram fer í Hofi á Akureyri. LÝSA er lýðræðishátíð sem ætlað er að skapa vettvang fyrir vandaða umræðu um öll möguleg málefni samfélagsins og virkja samtal milli almennings og stjórnmálamanna.

Ásmundur Einar tók, ásamt því að kynna sér starfsemi ýmissa félagasamtaka, þátt í málstofu sérstaklega tileinkaðri því hvernig auka megi þátttöku barna í stefnumótun og ákvarðanatöku í samfélaginu. Er það í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 1. mars síðastliðinn, þar sem fallist var á tillögur félags- og barnamálaráðherra um það sem og að allar stórar ákvarðanir og lagafrumvörp skuli rýnd út frá áhrifum á stöðu og réttindi barna.

Embætti umboðsmanns barna hóf í framhaldi þeirrar samþykktar, með samkomulagi við félags- og barnamálaráðherra, að móta tillögur um breytt verklag með aukinni áherslu á börn og eflingu samráðs við þau og var málstofan í dag mikilvægur liður í því. Þátttakendur í málstofunni voru auk Ásmundar Einars og Salvarar Nordal, umboðsmanns barna á Íslandi, sem auk þess skipulagði málstofuna, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna og talsmaður barna á Alþingi, Brynjólfur Skúlason og Hildur Lilja Jónsdóttir, fulltrúar ungmennaráðs Akureyrar.

„Ef við teljum að besta fjárfesting landsins séu börnin okkar, sem ég er sannfærður um, er mikilvægt að allar helstu aðgerðir séu metnar út frá hagsmunum þeirra og að börn og ungmenni hafi rödd í starfi sem tengist ákvarðanatöku og stefnumótun. Við þurfum í raun að ganga enn lengra og færa okkur frá því að tala um þátttöku barna og ungmenna í ákvarðanatöku okkar fullorðna fólksins og tala um raunverulegt samstarf þar sem allir sitja við sama borð,“ segir Ásmundur Einar.

  • Félags- og barnamálaráðherra ræðir um þátttöku barna í stefnumótun stjórnvalda á LÝSU – rokkhátíð samtalsins - mynd úr myndasafni númer 1
  • Félags- og barnamálaráðherra ræðir um þátttöku barna í stefnumótun stjórnvalda á LÝSU – rokkhátíð samtalsins - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum