Hoppa yfir valmynd
2. júlí 2025 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 1/2024-Úrskurður

Mál nr. 1/2024

 

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Leo Seafood ehf.

 

Mismunun á grundvelli kyns. Ekki fallist á brot.

A, sem starfaði hjá fiskvinnslufyrirtækinu B ehf., hélt því fram að honum hefði verið mismunað á grund­velli kyns, annars vegar með því að B ehf. boðaði aðeins karlmenn til starfa þegar hráefnisskortur kæmi í veg fyrir fiskvinnslu og hins vegar með því að B ehf. greiddi A ekki laun í nokkur skipti þegar hann mætti ekki til starfa í vinnslustöðvun. Að mati kærunefndar var ekki talið að sýnt hefði verið fram á að A hefði verið mismunað á grundvelli kyns í málinu. Var því ekki fallist á að B ehf. hefði gerst brotlegt við lög nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 2. júlí 2025 er tekið fyrir mál nr. 1/2024 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dags. 9. janúar 2024, kærði A mismunun Leo Seafood ehf. á grundvelli kyns, annars vegar með fyrirkomulagi kærða á vinnu starfsfólks þegar hráefnisskortur kæmi í veg fyrir reglulega fiskvinnslu og hins vegar þar sem honum hafi ekki verið greidd laun í nokkur skipti þegar hann mætti ekki til starfa í vinnslustöðvun.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 22. febrúar 2024. Greinargerð kærða er dags. 18. mars 2024. Greinargerð kærða var send kæranda til athugasemda með bréfi kærunefndar, dags. 25. mars 2024. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda vegna málsins.

    MÁLAVEXTIR

     

  4. Kærði starfrækir fiskvinnslu þar sem 70 starfa við almenn fiskvinnslustörf. Kærandi starfaði hjá kærða á árabilinu [...] þegar hann sagði upp starfi sínu og lét af störfum í [...] .
  5. Grundvöllur málsins er sá að þegar hráefni skortir í vinnslu kærða stöðvast tímabundið hefðbundin vinnsla fisks á reglulegum vinnslutíma. Þá daga sem hráefni skortir til vinnslu þarf hluti starfsfólks ekki að mæta til starfa en það starfsfólk sem nýtur kauptryggingar fær greidd laun fyrir dagvinnu. Annar hluti starfsfólks mætir hins vegar til vinnu og sinnir störfum hjá kærða.
  6. Í kæru er á því byggt að á starfstíma kæranda hafi konur ekki þurft að mæta til starfa þegar hráefnisskortur hafi komið í veg fyrir fiskvinnslu en karlmenn hafi þurft að mæta til starfa. Mættu karlmenn ekki til starfa hafi þeir ekki fengið greidd laun. Kærði hafi í nokkur skipti ekki mætt til starfa í vinnslustöðvun og því ekki fengið greidd laun Auk þess eigi karlmenn sem ekki mæti á hættu að fá áminningu frá verkstjóra eða vera jafnvel sagt upp störfum af þeim sökum.
  7. Kærði hafnar því að skipulag vinnu í hráefnisskorti hafi verið eða sé byggt á kyni eða að karlmenn séu í öllum tilfellum þá einungis boðaðir til starfa. Þá sé hráefnisskortur ekki frí í skilningi kjarasamnings og starfsfólki beri að mæta til vinnu sé það boðað til starfa. Þá kannast kærði ekki við að starfsfólki hafi verið sagt upp störfum vegna óútskýrðrar fjarveru í vinnslustöðvun.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

     

  8. Kærandi byggir á því að þegar hráefnisskortur sé í starfsemi kærða séu konur sem starfi hjá kærða heima á venjulegu kaupi. Karlmenn þurfi aftur á móti að mæta til starfa klukku­stund síðar en venjulega til þess að mála veggi og sinna þrifum. Mæti þeir ekki til starfa fái þeir ekki greitt og eigi það jafnframt á hættu að fá áminningu frá yfirmanni eða vera sagt upp störfum.
  9. Kærandi byggir á því að það sé ekki jafnrétti í þessu fyrirkomulagi. Af málatilbúnaði kæranda má skilja að hann telji að konum og körlum sé mismunað hjá kærða með þessu.
  10. Kærandi bendir á að hann hafi starfað hjá kærða frá árinu [...] og fyrirkomulagið hafi alla tíð verið með þessum hætti. Kærandi hafi ekki mætt til vinnu í nokkur skipti þegar hráefni skorti til vinnu og hann hafi ekki fengið greidd laun þá sömu daga.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

     

  11. Kærði hafnar því að hann hafi mismunað kæranda á nokkurn hátt á grundvelli kyns. Hafnar kærði því að hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 150/2020.
  12. Kærði bendir á að konur séu í miklum meiri hluta starfsfólks hans, þ.e. um 65–70% af starfs­fólki. Kærði hafi fengið vottun jafnlaunakerfis í nóvember 2023, en í upphafi þess árs hafi Vinnslustöðin hf. keypt allt hlutafé í kærða og tekið yfir rekstur hans.
  13. Kærði bendir á að starfsemi hans sé háð því að nægt hráefni sé til vinnslu. Þá daga sem hráefni dugi ekki til vinnslu verði tímabundin vinnslustöðvun. Þegar vinnsla liggi niðri af þessum orsökum sé ýmist meiri hluta starfsfólks eða því öllu tilkynnt um að vinna falli niður þann dag eða þá daga sem vinnslustöðvun varir.
  14. Kærði bendir á að þeir dagar þegar vinnsla liggi niðri sökum hráefnisskorts séu alla jafna nýttir til pökkunar á afurðum eða til ýmissa verka sem annars sé ekki hægt að sinna á meðan vinnsla sé í gangi. Þar sem þetta sé ekki fyrirséð þurfi að skipuleggja með skömmum fyrirvara vinnu, t.d. við þrif, viðhald á húsnæði og búnaði eða við önnur störf tengd fisk­vinnslu. Þá vísar kærði til þess að þessa daga sé starfsfólk boðað til starfa klukkustund síðar en vanalega og það ljúki vinnu að jafnaði fyrr en hefðbundinni dagvinnu lýkur. Starfs­fólk með kauptryggingarrétt haldi föstum launum sínum fyrir dagvinnu samkvæmt ráðningar­samningi.
  15. Kærði vísar til þess að í 18. kafla kjarasamnings Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreina­sambandsins sé kveðið á um kjör fiskvinnslustarfsfólks þegar um vinnslustöðvun sé að ræða vegna hráefnisskorts. Þar sé fjallað um rétt starfsfólks sem er með kauptryggingarrétt til greiðslu launa fyrir dagvinnu þótt hráefnisskortur valdi vinnslustöðvun. Þá vísar kærði til þess að samkvæmt þágildandi lögum nr. 51/1995, um greiðslur Atvinnuleysis­trygginga­sjóðs vegna fiskvinnslufólks, geti atvinnurekandi sem greiðir starfsfólki föst laun fyrir dagvinnu í tímabundinni vinnslustöðvun sótt greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði af þeim sökum.
  16. Kærði vísar til þess að á árinu 2023 hafi 31 dagur verið hráefnislaus í starfsemi hans. Þessir dagar hafi ýmist verið nýttir til pökkunar á frystum afurðum, til viðhalds eða þrifa. Í ein­hverjum tilfellum hafi orðið algjör vinnslustöðvun vegna hráefnisleysis og þá hafi ekkert starfsfólk með kauptryggingarrétt verið boðað til starfa. Í fæstum tilfellum hafi starfsfólk með kauptryggingarrétt, bæði konur og karlar, verið boðað til starfa. Þá hafi verið tilvik þar sem aðeins hluti starfsfólks hafi verið boðaður til starfa. Í meiri hluta tilvika hafi hins vegar ýmist allir karlmenn eða tiltekinn hópur karlmanna með kauptryggingarrétt verið boðaðir til starfa.
  17. Kærði vísar til þess að skipulag verkefna sé ástæða þess að karlmenn séu einungis boðaðir til starfa þegar um vinnslustöðvun er að ræða. Þannig hátti til að konur vinni einungis við snyrtingu og pökkun á ferskum fiski hjá kærða en karlmenn starfi hins vegar við pökkun á frystum afurðum. Fólki sé ekki raðað í störf eftir kyni heldur séu starfsfólki fundin verkefni við líkamlegt og andlegt hæfi þannig að því líði sem best í starfsumhverfinu. Starfsfólk sé þjálfað í starfi sínu, þar með talið með því að það fái viðeigandi þjálfun á vélar og búnað í starfi. Þannig sé einungis það starfsfólk boðað til starfa í hráefnisleysi, þegar nýta eigi tíma til pökkunar á frystum afurðum, sem starfar við þau verkefni og hefur fengið viðeigandi þjálfun.
  18. Kærði hafnar þeirri staðhæfingu kæranda að þegar vinnsla stöðvist vegna hráefnisskorts séu karlmenn ávallt einir boðaðir til starfa. Konur hafi verið boðaðar til starfa í einhverjum tilvika þó að vissulega hafi það verið raunin í einhverjum og jafnvel meiri hluta tilfella að karlmenn væru einir boðaðir til starfa. Þá bendir kærði á að vinnslustöðvun vegna hráefnis­skorts sé ekki frídagur í skilningi kjarasamnings þótt kærða beri að greiða þeim laun sem hafi kauptryggingarrétt á laun samkvæmt kjarasamningi. Starfsfólki sem boðað sé til starfa beri að mæta og sinna þeim störfum sem sé til að dreifa. Kærða sé í sjálfsvald sett hvernig hann nýti hráefnislausan dag til annarra starfa tengdum fiskvinnslu og þá hvort einhver hluti starfsfólks, meiri hluti þess eða það allt sé boðað til starfa.
  19. Kærði bendir á að framangreint skipulag vinnu hafi verið með þessum hætti allt frá stofnun kærða og hafi tíðkast án teljandi vandkvæða. Kærði bendir á að hráefnisskortur sé ekki frí heldur óvænt og ófyrirséð vinnslustöðvun sem hafi áhrif á tekjur kærða og ekki síst á tekjur starfsfólks. Þá vísar kærði til þess að í lögum nr. 51/1995 sé gert ráð fyrir því að fyrirtæki geti sótt um greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði ef vinnslustöðvun tekur til meiri hluta starfsfólks. Að lögum sé því beinlínis gert ráð fyrir því að fyrirtæki skipuleggi vinnu sína þannig að ekki komi til vinnslustöðvunar vegna hráefnisleysis hjá öllu starfsfólki. Megi því álykta að gert sé ráð fyrir því að lögum að minni hluti starfsfólks sé að störfum í hráefnisleysi, til að mynda við pökkun og þrif, líkt og viðtekin venja hafi verið hjá kærða.
  20. Að síðustu vísar kærði til þess að stjórnendur kærða kannist ekki við að hafa vikið starfsfólki úr starfi vegna óútskýrðrar fjarveru frá vinnu í hráefnisskorti og staðhæfing kæranda um annað eigi því ekki við rök að styðjast.

     

    NIÐURSTAÐA

     

  21. Mál þetta snýr að því hvort kærði hafi mismunað kæranda á grundvelli kyns og þannig brotið gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna með því annars vegar að hafa einungis boðað karlmenn til starfa þegar fiskvinnsla stöðvast vegna hráefnisskorts og hins vegar að hafa ekki greitt kæranda laun í nokkur skipti þegar hann mætti ekki til starfa þegar svo háttaði til. Samkvæmt því beinist kæran að því hvort kærði hafi mismunað kæranda á grundvelli kyns vegna vinnuaðstæðna eða vinnuskilyrða, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020.
  22. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 150/2020 kemur fram að markmið laganna sé að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórn­sýslu jafn­réttismála, gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafn­réttismál tekur til, m.a. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kæru­nefnd jafnréttismála til meðferð­ar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framan­sögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
  23. Í 1. mgr. 16. gr. laga nr. 150/2020 er tekið fram að hvers kyns mismunun á grundvelli kyns, hvort heldur bein eða óbein, sé óheimil. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laganna er atvinnu­rekendum óheimilt að mismuna starfsfólki á grundvelli kyns varðandi vinnuaðstæður eða vinnuskilyrði. Samkvæmt sönnunarreglu í 4. mgr. 19. gr. kemur það í hlut þess sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað varðandi vinnuaðstæður eða vinnuskilyrði á grundvelli kyns. Takist sú sönnun skal atvinnurekandi sýna fram á, ef um mismunun er að ræða, að munur á vinnuaðstæðum eða vinnuskilyrðum skýrist af öðrum þáttum en kyni. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kyn hafi haft áhrif á ákvarðanir kærða um skipulag vinnu í vinnslustöðvun sökum hráefnisskorts og að greiða kæranda ekki laun í nokkur skipti.
  24. Svo sem að framan er rakið byggir kærandi kæru sína á því að í því felist mismunun að karlmenn hafi einungis verið boðaðir til starfa af kærða í hráefnisskorti á meðan konur hafi verið heima á launum. Þá hafi honum ekki verið greidd laun þegar hann mætti ekki til starfa í nokkur skipti þegar svo háttaði til.
  25. Kærði hafnar því að hann hafi í öllum tilfellum aðeins boðað karlmenn til starfa. Fyrir hafi komið að konur hafi verið boðaðar til starfa þótt karlmenn hafi í flestum tilfellum verið einir kallaðir til starfa. Þá hafnar kærði því að ákvörðun og skipulag um það hvaða starfsfólk sé boðað til starfa byggi á kyni. Það byggi fyrst og fremst á því hvaða starfi starfsfólk sinni, hvaða verkefnum þurfi að sinna og að síðustu þjálfun starfsfólks.
  26. Fyrir liggur í máli þessu að þá daga þegar vinnsla stöðvast sökum hráefnisleysis nýtur starfsfólk með kauptryggingarrétt fastra launa fyrir dagvinnu. Kærði hefur hvað það varðar vísað til 18. kafla aðalkjarasamnings Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins, þar sem fjallað er sérstaklega um kjör fiskvinnslufólks. Í gr. 18.4 í kjarasamningnum er mælt fyrir um rétt starfsfólks sem nýtur kauptryggingarréttar til daglauna. Í ákvæði gr. 18.4.7 í fyrrgreindum kjarasamningi er mælt fyrir um að ef hlé verði á venjubundinni vinnslu skuli starfsfólk vinna önnur störf innan fyrirtækis. Ávallt skuli þó gæta fyllsta öryggis og taka tillit til getu starfsfólks. Í ákvæði gr. 18.4.9.1 er fjallað um uppsögn kauptryggingar ef starfsfólk neitar vinnu eða mætir ítrekað ekki til vinnu, án þess að lögmæt forföll hamli. Við þær aðstæður geti atvinnurekandi rift kauptryggingu án sérstaks fyrirvara í samræmi við almennar reglur um slit vinnusamninga.
  27. Með vísan til framangreinds og svara kærða í málinu verður ekki annað ráðið en að skipulag vinnu í hráefnisskorti sem slíkt í starfsemi kærða og þá hverjir boðaðir séu til starfa byggi á málefnalegum sjónarmiðum og sé innan þess svigrúms sem vinnuveitandi hefur til skipu­lagningar vinnu við þær aðstæður. Í þessu sambandi tekur kærunefndin fram að það er ekki hennar að byggja á öðrum sjónarmiðum en kærði leggur til grundvallar, eða endurmeta þau sömu, svo lengi sem þau eru málefnaleg og byggð á forsvaranlegu mati.
  28. Í kæru er rakið að kærandi hafi í nokkur skipti ekki mætt til vinnu þegar vinnslustöðvun hafi orðið vegna hráefnisskorts og hafi hann ekki fengið greitt fyrir þá daga. Með vísan til þess sem rakið hefur verið að framan, um ákvæði 18. kafla áðurrakins kjarasamnings sem gilti um starf kæranda, verður að telja að kærði hafi haft rétt á grundvelli kjarasamningsins og almennra meginreglna vinnuréttar til þess að greiða kæranda ekki laun þegar hann mætti ekki til starfa.
  29. Að öllu framangreindu virtu verður því hvorki talið að sýnt hafi verið fram á að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns annars vegar þegar hann var boðaður til starfa hjá kærða þegar vinnslustöðvun var sökum hráefnisskorts og hins vegar þegar honum voru ekki greidd laun fyrir daga sem hann mætti ekki til starfa. Samkvæmt því verður ekki fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 150/2020.
  30. Uppkvaðning úrskurðar í málinu hefur tafist umfram þann tveggja mánaða frest sem nefndin hefur til að úrskurða í máli eftir að gagnaöflun í því er lokið samkvæmt 5. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála. Er ástæða þess einkum mikill fjöldi mála sem er til meðferðar hjá nefndinni auk breytinga á skipan og vistun hennar.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Leo Seafood ehf., braut ekki gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, gegn kæranda með annars vegar skipulagi starfa þegar hráefnisskortur kom í veg fyrir reglulega fiskvinnslu og hins vegar með því að greiða honum ekki laun í nokkur skipti þegar hann mætti ekki til starfa í vinnslustöðvun.

 

Ari Karlsson

Andri Árnason

Maren Albertsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta