Hoppa yfir valmynd
7. júlí 2007 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Hefur stundað Grænlandsflug í áratugi

Flugfélag Íslands á áratuga langa sögu um flug milli Íslands og Grænlands. Á það bæði við núverandi og fyrrverandi Flugfélag Íslands, svo og Flugfélag Norðurlands. Félagið flýgur í sumar 19 ferðir í viku milli landanna.

Flugfélagsmenn í Nuuk.
Flugfélagsmenn í Nuuk. Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri FÍ, til vinstri, og Ingi Þór Guðmundsson, sölu- og markaðsstjóri.

,,Á árum áður var einkum um leiguflug að ræða fyrir dönsk eða grænlensk stjórnvöld, vísindamenn og kannski einstaka ferðahópa en á síðari árum er orðið meira um reglubundið áætlunarflug, aðallega á sumrin en þó höldum við uppi flugi milli Reykjavíkur og Kulusuk árið um kring,? segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands. Félagið hefur einnig sinnt áfram margs konar leiguflugi.

Fyrstu árin var meðal annars flogið á DC-3 flugvélum, síðan á Fokker og Twin Otter og nú síðast hafa Dash 8 vélarnar komið til og segir Árni þær mjög hentugar í Grænlandsverkefni og hafi verið horft mjög til verkefna þar þegar kaupin voru afráðin. Hann segir Grænlandsflugið skipta félagið miklu máli. ,,Lauslega áætlað er velta félagsins vegna Grænlandsflugsins kannski kringum 8% og ef við getum haldið áfram á þessari braut sé ekki annað en hlutdeildin fari frekar vaxandi en hitt.?

Nýjungin í ár er áherslan á flugið til vesturstrandarinnar bæði til höfuðborgarinnar, Nuuk, og til Narsarsuaq. Flugfélagið leigir BAe 146 þotu frá færeyska flugfélaginu Atlantic Airways og segir Árni þá vél henta vel á þeirri leið. ,,Við fljúgum þessa leið tvisvar í viku í júlí og ágúst og ég hef fulla trú á að við getum byggt upp góða nýtingu á henni. Frá Narsarsuaq er hægt að fara margs konar styttri og lengri ferðir, að Görðum, í Brattahlíð, sigla, stunda veiði og gönguferðir upp að jökli og svo framvegis.?

Væntir fleiri Íslendinga

Flugið milli Keflavíkur og Nuuk er þrisvar í viku, hófst 15. júní og stendur einnig út ágúst. Flogið er með Dash 8 flugvélum Flugfélagsins sem henta vel fyrir stutta flugbrautina í Nuuk. ,,Útlendingar eru í meirihluta farþega okkar til Nuuk og þess vegna er fluginu sinnt frá Keflavík. Nú þegar Icelandair hefur tekið upp morgunflug frá Kaupmannahöfn, Osló og Stokkhólmi til Keflavíkur bjóðum við þessar ferðir til Nuuk í beinu framhaldi. Farþegar eru komnir til Keflavíkur um klukkan 9 að morgni og geta haldið áfram til Grænlands tæpum klukkutíma síðar. Við ákváðum að prófa þetta í ár og höfum þegar fengið góðar undirtektir og það er greinilega áhugi á því að hafa góðar tengingar milli Íslands og höfuðstaðarins og ég sé fyrir mér að hlutdeild Íslendinga í þessum ferðum verður vaxandi.?

Segja má að Flugfélagið sé með auknu flugi milli Íslands og Grænlands að byggja upp nýja hugmyndafræði í markaðssetningunni. ,,Hugmyndin er sú að á Íslandi verði eins konar miðstöð fyrir flug til Grænlands. Flugfélagið býðir ferðir milli Íslands og nokkurra staða í Grænlandi og þannig geta bæði Grænlendingar flogið til allra heimshorna frá Íslandi og við getum boðið ferðamönnum frá öllum heimshornum að koma til Íslnads og bæta Grænlandsferð við. Við sjáum fyrir okkur að með því að byggja upp þetta kerfi muni það geta nýst mjög vel og þannig getum við náð að þjóna bæði ferðamönnum og þeim sem ferðast milli landanna vegna vinnu sinnar og viðskipta sem eru sífellt vaxandi.Við Þjóðhildarkirkju í Brattahlíð.

Kristján L. Möller samgönguráðherra hlýðir á fróðleik hjá íslensku leiðsögumönnunum Ingibjörgu Gísladóttur (í miðið) og Eddu Lyberth við Þjóðhildarkirkju í Brattahlíð.

Flugið frá Nuuk til Íslands tilbúið til brottfarar.
Tilbúin til brottfarar frá Nuuk. Frá vinstri Jóhann Skírnisson flugstjóri, Bryndís Harðadróttir flugfreyja, Kristján L. Möller samgönguráðherra og Hjalti Már Baldursson flugmaður.
Í Brattahlíð á Grænlandi.
Hér er hópurinn við minnismerki um Eirik rauða í Brattahlíð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira