Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

23. - 29. september


Fréttapistill vikunnar
23. - 29. september

Tuttugu og tvö ný hjúkrunarrými fyrir aldraða á Landspítala.
Ný hjúkrunardeild fyrir aldraða var opnuð á Landspítala - háskólasjúkrahúsi í vikunni. Mikill skortur er á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða á höfuðborgarsvæðinu. Til að létta á þeim vanda óskaði heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið eftir því að sjúkrahúsið tæki að sér rekstur hjúkrunardeildar þar til nýtt hjúkrunarheimili við Sóltún verður opnað í árslok 2001. Deildin verður rekin í húsnæði geðdeildar Landspítalans við Hringbraut, deild 32-A. Sjúkrahúsið leggur til húsnæðið ásamt búnaði en verktakar eru ábyrgir fyrir rekstri og skipulagi hjúkrunarþjónustunnar. Verktakar eru hjúkrunarfræðingarnir Anna Soffía Guðmundsdóttir og Gerður Baldursdóttir. Deildin er ætluð öldruðum sem bíða eftir langtímavistun á hjúkrunardeild samkvæmt vistunarmati.

Samningur um árangursstjórnun við sjö heilbrigðisstofnanir.
Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, undirritaði í vikunni samning um árangursstjórnun við stjórnendur sjö heilbrigðisstofnana víða um land. Markmið samninganna er margþætt og felur í sér auknar gagnkvæmar skyldur heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og þeirra stofnana sem samið er við. Áhersla er lögð á að efla áætlanagerð og eftirlitsþátt ráðuneytisins en auka jafnframt sjálfstæði og ábyrgð stofnananna á rekstri sínum og þjónustu. Samkvæmt samningi skal hver stofnun meta þörf fyrir heilbrigðisþjónustu á starfssvæði sínu og hvernig henni verði best mætt. Í því skyni skal stofnunin setja fram í áætlunum sínum til ráðuneytisins skýr markmið, m.a. töluleg, um leiðir að settu marki, árangur og mat á árangri. Með þessu móti verður eftirlit með rekstri stofnana og mat á árangri skilvirkara, bæðin innan þeirra sjálfra og af hálfu ráðuneytisins.
Sjá fréttatilkynningu >

Davíð Á Gunnarsson hættir setu í fastanefnd Evrópuskrifstofu WHO.
Davíð Á Gunnarsson, ráðuneytisstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, hefur látið af setu í fastanefnd Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar eftir að hafa átt þar sæti í þrjú ár. Davíð er eini Íslendingurinn sem setið hefur í fastanefndinni. Arftaki hans er ráðuneytisstjóri finnska heilbrigðisráðuneytisins dr. Jarkko Eskola. Af hálfu Norðurlandaþjóðanna er það talið mjög þýðingarmikið að einhver þeirra eigi fulltrúa í fastanefndinni svo viðhorf þeirra og áherslur, sem oft fara saman, fái notið sín. Fulltrúar í fastanefnd Evrópuskrifstofu WHO eru tíu. Fimmtugasti fundur Evrópuskrifstofunnar var haldinn í Kaupmannahöfn dagana 11. - 14. september. Upplýsingar um fundinn er að finna á heimsíðu Evrópuskrifstofu WHO.

Yfirlýsing vegna salmonellufaraldurs.
Enn er unnið að rannsókn á upptökum hópsýkingar af völdum salmónellu að undanförnu. Þótt ekki hafi tekist að sanna svo ótvírætt sé að mengað ísbergssalat sé sökudólgurinn er það engu að síður talið líklegasta orsök faraldursins. Ástæðan er sú að þeir sem sýktust áttu það flestir sameiginlegt að hafa borðað salat. Salmónella af sömu tegund og olli faraldrinum hér á landi hefur gert vart við sig víðar og eru vonir bundnar við að alþjóðleg samvinna varpi ljósi á málið. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Haraldur Briem, sóttvarnarlæknir, Grímur Ólafsson, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og Sjöfn Sigurgísladóttir, Hollustuvernd ríkisins hafa gefið út vegna málsins.
Sjá yfirlýsingu >

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
29. september 2000


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira