Hoppa yfir valmynd
6. október 2000 Heilbrigðisráðuneytið

30. sept. - 06. október


Fréttapistill vikunnar
30. sept. - 06. október


Kynntar leiðir til að draga úr hárri tíðni fóstureyðinga á Íslandi.
Um 900 fóstureyðingar voru framkvæmdar á Íslandi á síðasta ári. Fóstureyðingum hér á landi hefur fjölgað á síðustu áratugum. Fjölgunin er mest meðal stúlkna undir tvítugu og er tíðni fóstureyðinga í þeim aldurshópi hærri en hjá nokkurri hinna Norðurlandaþjóðanna. Á sama tíma og fóstureyðingum fjölgar hér hefur dregið úr tíðni þeirra víðast annars staðar í hinum vestræna heimi. Þetta kemur fram í skýrslu starfshóps sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipaði til að kanna stöðu þessara mála hér á landi og gera tillögur til úrbóta. Tillögur nefndarinnar eru fjölþættar og byggjast einkum á aukinni fræðslu og ráðgjöf og lækkun verðs á getnaðarvörnum og heilbrigðisþjónustu á þessum vettvangi. Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, kynnti skýrslu nefndarinnar á ríkisstjórnarfundi í dag [6. október].

Innkaupavefur heilbrigðisstofnana - samræmd innkaup á Netinu.
Stefnt er að því að opna innkaupavef fyrir allar heilbrigðisstofnanir í landinu í lok nóvember. Innkaupavefurinn var stofnaður af heilbrigðisráðuneytinu á síðasta ári í þeim tilgangi að hagræða í innkaupum heilbrigðisstofnana, m.a. með sameiginlegum samningum við birgja. Á vefinn er safnað upplýsingum um allar vörur úr öllum útboðum á einn stað og geta stofnanirnar keypt vörur samkvæmt hagstæðustu tilboðum á hverjum tíma. Áhersla er lögð á að hafa innkaupavefinn einfaldan í notkun þannig að hann feli bæði í sér hagræði vegna hagstæðra innkaupa og tímasparnaðar. Nokkur reynsla er þegar komin á innkaupavefinn því í maí s.l. var hann opnaður fyrir nokkrum heilbrigðisstofnunum í tilraunaskyni. Þar hafa þær getað keypt hjúkrunar- lækninga- og rannsóknarvörur. Verið er að ljúka samningum við Ríkiskaup um fyrirkomulag á útboðs- og innkaupamálum heilbrigðisstofnana og unnið er að gerð samninga við birgja sem allar heilbrigðisstofnanir munu hafa aðgang að. Stefnt er að því að í framtíðinni geti allar heilbrigðisstofnanir sinnt öllum innkaupum sínum á Innkaupavefnum. Áætlað er að strax á næsta ári sparist a.m.k. 50 milljónir kr. með þessu fyrirkomulagi.
Sjá forsíðu Innkaupavefs heilbrigðisstofnana>

Landsþing um slysavarnir.
Föstudaginn 13. október næstkomandi verður haldið landsþing um slysavarnir á vegum Slysavarnarráðs undir heitinu: Eru slys óheppnin ein?Fjallað verður um slysaskráningu, umferðarslys og slys sem fólk verður fyrir í frímtíma sínum. Þingið verður haldið á Radisson SAS - Hótel sögu. Þátttaka er öllum heimil og þátttökugjald er 1.000 kr.

Norrænn embættismannafundur í Reykjavík,
Dagana 4. - 6. október var haldinn fundur Norrænu embættismannanefndarinnar á sviði heilbrigðis- og félagsmála (Nordiska socialpolitiska kommittén). Meðal fjölmargra mála á dagskrá fundarins voru hugmyndir um að breyta fjármögnun og skipulagi norrænna stofnana á sviði heilbrigðis- og félagsmála þannig að þær yrðu að hluta til gerðar að stofnunum þess lands þar sem þær eru staðsettar í eða leitast væri við að gera þær að evrópskum stofnunum. Embættismannanefndin var sammála um að flestar þessar stofnanir hefðu reynst vel og komið Norðurlöndunum að góðum notum. Það væri því ástæðulaust að gera umfangsmiklar breytingar á starfsemi þeirra en hins vegar þyrfti að tryggja að þær væru ávallt í fararbroddi á sínu sviði. Embættismennirnir lögðu jafnframt til að á árlegum fundi heilbrigðis- og félagsmálaráðherra yrðu veitt sérstök norræn heilbrigðisverðlaun og verður það gert í samvinnu við Norræna heilbrigðisfræðaháskólann í Gautaborg.

Evrópuvika gegn krabbameini 9. - 14. október.
Lífgaðu upp á lífið - Heilsubót með grænmeti og ávöxtum. Þetta er yfirskrift átaksins Evrópa gegn krabbameini sem 16 lönd í Evrópu standa fyrir vikuna 9. - 14. október. Markmiðið er að auka grænmetis- og ávaxtaneyslu Evrópubúa en rannsóknir sýna að neysla þessarar fæðu getur dregið úr líkum á ýmsum sjúkdómum, þar á meðal krabbameini. Að átakinu hér á landi standa heilbrigðisráðuneytið, Krabbameinsfélagið og Manneldisráð en einnig koma að því Hjartavernd og ýmsir framleiðendur og innflytjendur ávaxta og grænmetis.

Ráðstefna um mismunandi heilsufar þjóðfélagshópa (Social Inequalities in Health)
Dagana 27. - 29. september sl. var haldin í Kaupmannahöfn alþjóðleg ráðstefna á vegum danska heilbrigðisráðuneytisins um aðgerðir til þess að draga úr þeim mismun sem áberandi er á heilsufari þjóðfélagshópa. Þessi ráðstefna var sérstakt verkefni á formennskuáætlun Dana en á þessu ári gegna þeir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Athygli vakti hvað Danir leggja nú mikla áherslu á margþættar aðgerðir til að bæta stöðu þeirra þjóðfélagshópa sem verst eru settir. Jafnframt er sérstaklega unnið að því að bæta gæði heilbrigðisþjónustunnar innan sem utan stofnana. Á ráðstefnunni kom fram að víðast í Evrópu er lögð vaxandi áhersla á forvarnir og þverfaglegt samstarf um að bæta heilsufar fólks í löndum álfunnar.

Tilmæli um bólusetningar í haust.
Sóttvarnarlæknir hefur sent út tilmæli um bólusetningar í haust gegn inflúensu og pneumókokkasýkingum. Samkvæmt þeim á að bólusetja gegn inflúensu alla eldri en 60 ára, öll börn og fullorðna sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum, starfsfólk heilbrigðisþjónustu og aðra sem daglega annast fólk með aukna áhættu. Brýnt er að bólusetningu ljúki eigi síðar en í nóvember. Sóttvarnalæknir minnir einnig á bólusetningar gegn pneumókokkasýkingum á 10 ára fresti fyrir alla eldri en 60 ára og á 5 ára fresti fyrir einstaklinga sem eru í sérstökum áhættuhópum.
Sjá tilmæli sóttvarnarlæknis >

Astmi - orsakir, meðferð og hvernig má lifa með sjúkdómnum.
Um 4 - 5% Íslendinga eru með astma. Hlutfallið er hins vegar mun hærra meðal barna eða 18 - 28% eftir aldri. Landlæknisembættið helgar októbermánuð umfjöllun um astma, s.s. hvaða þættir í umhverfinu geta valdið astmaköstum og hvað fólk getur gert til að halda sjúkdómnum í skefjum.
Sjá nánar>

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
06. október 2000
           



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum