Hoppa yfir valmynd
27. október 2000 Heilbrigðisráðuneytið

21. - 27. október


Fréttapistill vikunnar
21. - 27. október

Ráðherra boðar stórherta sókn gegn reykingum með lagafrumvarpi
Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra kynnti ríkisstjórninni í morgun nýtt frumvarp til breytinga á tóbaksvarnalögum og verður það lagt fram á Alþingi á næstunni. Markmið frumvarpsins er að tryggja enn betur rétt þeirra sem ekki reykja og er réttur barna tryggður sérstaklega í því sambandi. Samkvæmt frumvarpinu fækkar umtalsvert stöðum þar sem reykingar verða leyfðar og strangari skilyrði verða sett um sölu tóbaks. Verði frumvarpið að lögum munu framlög til tóbaksvarna aukast um 12 milljónir króna í samtals um 50 milljónir króna á ári.
Sjá nánar um markmið og nýmæli frumvarpsins >

Deilt um hvort skjóta megi ákvörðun um daggjöld til gerðardóms
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur höfðað mál gegn Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund vegna ágreinings um ákvörðun daggjalda til stofnunarinnar fyrir árið 2000. Tekið skal fram að deilan snýst um ákvörðunarvald í þessu máli en ekki um fjárhæð daggjalda. Málavextir eru þeir að Grund vísaði ákvörðun um daggjöld stofnunarinnar til sérstaks gerðardóms sem kveðið er á um í almannatryggingalögunum og fjalla á um samninga við Tryggingastofnun ríkisins. Að mati ráðuneytisins hefur gerðardómur ekki vald til að ákveða daggjöld til stofnana, heldur ber heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra taka þá ákvörðun samkvæmt lögum, sbr. 39. gr. almannatryggingalaga. Í ljósi þess fór ráðuneytið fram á að málinu yrði vísað frá gerðardóminum, en því var hafnað. Ráðuneytið átti því einungis um það að velja að fallast á að gerðardómur gæti ákveðið daggjöld stofnana og þá ekki aðeins Grundar heldur allra daggjaldastofnana, eða vísa málinu til dómstóla. Þar sem málið hefur mikilvægt fordæmisgildi taldi ráðuneytið óhjákvæmilegt að fá úr því skorið fyrir dómi hvort Alþingi og ráðherra eða gerðardómur eigi að ákveða fjárframlög til stofnana sem ekki eru á föstum fjárlögum.
Sjá nánar fréttatilkynningu >


Notkun sýklalyfja vegna vægrar eyrnabólgu í börnum á undanhaldi
Sýklalyfjakúrum fyrir börn með eyrnabólgu fækkaði um þriðjung á fimm ára tímabili, 1993 - 1998, samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem kynnt var á nýafstöðnu vísindaþingi Félags íslenskra heimilislækna. Á tímabilinu fækkaði sýklalyfjakúrun 1 - 6 ára barna úr 1,6 að meðaltali árið 1993 í 1,2 árið 1998. Um 57% af heildarnoktun sýklalyfjanna var við eyrnabólgu. Í úrtaki rannsóknarinnar voru rúmlega 800 börn búsett í Hafnarfirði, Vestmannaeyjum, Bolungarvík og á Egilsstöðum. Ónæmi sýkla fyrir sýklalyfjum er vaxandi vandamál og hafa læknar verið hvattir til að draga úr notkun sýklalyfja vegna þess. Auk þess hefur gagnsemi sýklalyfjameðferðar við vægri eyrnabólgu verið dregin í efa. Þess má geta að nýlega skipaði heilbrigðisráðherra nefnd sem m.a. er ætlað að veita ráðgjöf um aðgerðir til að sporna við ofnotkun sýklalyfja og annað sem að gagni má koma til að hindra ónæmismyndun.


Námskeið fyrir kennara og heilbrigðisstéttir um ýmis geðheilbrigðisvandamál barna
Skörun námsvanda við erfiðleika í hegðun og athygli og önnur geðheilbrigðisvandamál barna er yfirskrift námskeiðs sem fram fer í Tónlistarhúsi Kópavogs 10. og 11. nóvember nk. Að námskeiðinu standa Barnageðlæknafélag Íslands og Fræðslustofnun lækna, í samvinnu við landlæknisembættið, Sálfræðingafélag Íslands, Foreldrafélag misþroska barna og Foreldrafélag geðsjúkra barna og unglinga. Námskeiðið er sérstaklega ætlað kennurum, skólastjórnendum, sálfræðingum, heilsugæslulæknum og skólahjúkrunarfræðingum. Einnig verður boðið upp á sérstaka fræðsludagskrá fyrir foreldra í tengslum við ráðstefnuna, laugardaginn 11. nóvember.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
27. október 2000














Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum