Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 2000 Heilbrigðisráðuneytið

4. - 10. nóvember


Fréttapistill vikunnar
4. - 10 nóvember


Heilbrigðisáætlun til ársins 2010 lögð fyrir Alþingi á næstu dögum
Drög að heilbrigðisáætlun til ársins 2010 liggja nú fyrir og verða lögð fram á Alþingi á næstunni. Um er að ræða endurskoðun þeirrar heilbrigðisáætlunar sem gilt hefur frá árinu 1991 og nefnd á vegum heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur unnið að undanfarin 3 - 4 ár. Í vinnu nefndarinnar var aðaláhersla lögð á langtímamarkmið sem miða að því að bæta heilsufar þjóðarinnar. Í skýrslu nefndarinnar eru sett fram ákveðin markmið m.a. á sviði áfengis- vímuefna- og tóbaksvarna, slysavarna, krabbameinsvarna og hjarta og heilaverndar. Einnig eru þar sett fram markmið sem snúa sérstaklega að börnum og ungmennum og öldruðum og áhersla er lögð á geðheilbrigðismál. Þá er í skýrslunni leitast við að leggja hagrænt mat á hve mikið kostnaður samfélagsins minnki náist markmið heilbrigðisáætlunarinnar. Þess er að vænta að skýrsla nefndarinnar, Heilbrigðisáætlun til ársins 2010 - langtímamarkmið í heilbrigðismálum, verði birt í heild sinni á heimasíðu ráðuneytisins fyrir lok mánaðarins.


Könnun á stöðu gæðamála innan heilbrigðisstofnana
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið stendur nú fyrir könnun á stöðu gæðamála á stofnunum sem sinna heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt gæðaáætlun ráðuneytisins sem samþykkt var haustið 1999 skulu allar heilbrigðisstofnanir tileinka sér aðferðir gæðaþróunar og er miðað við að þær hafi allar komið á formlegu gæðaþróunarstarfi fyrir lok ársins 2002. Samstarfsráð heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins um gæðamál hefur m.a. það hlutverk að sinna eftirliti með gæðaáætluninni og endurskoða hana eftir þörfum og verða niðurstöður könnunarinnar nýttar í því skyni. Spurningalisti vegna könnunarinnar hefur verið sendur um sjötíu heilbrigðisstofnunum. Fyrstu svör úr könnuninni hafa þegar borist ráðuneytinu en óskað er eftir að stofnanir skili svörum sínum í síðasta lagi fyrir 30. nóvember.


Félag íslenskra læknaritara 30 ára
Félag íslenskra læknaritara stendur á tímamótum en haldið var upp á 30 ára afmæli þess í dag. Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra gerði menntunarmál læknaritara að umtalsefni í ávarpi sem hún flutti á afmælishátíðinni. Meðal annars ræddi hún um hvernig ör tækniþróun innan heilbrigðiskerfisins snertir dagleg störf læknaritara og mikilvægi þess að þeirri þróun sé fylgt eftir með viðeigandi menntun. Í lok ávarpsins þakkaði ráðherra læknariturum gott samstarf á liðnum árum og óskaði þess að svo yrði áfram í framtíðinni.


Málþing um siðfræði og gjörgæslu - 11. nóvember
Svæfinga- og gjörgæslulæknafélag Íslands stendur fyrir málþingi um siðfræði og gjörgæslu í Borgarleikhúsinu, laugardaginn 11. nóvember kl. 13:00 - 16:00. Yfirskrif málþingsins er Hver á mitt líf? en sú spurning vaknar oft þegar einstaklingur liggur meðvitundarlaus í öndunarvél og fær engu ráðið um hvaða meðferð hann fær og hve lengi henni er haldið áfram. Með aukinni tækni og þekkingu er nú mögulegt að meðhöndla fleiri alvarlega veika og slasaða einstaklinga. Þetta vekur ýmsar áleitnar spurningar t.d. um meðferð, hvar mörk eru dregin og hve miklum fjármunum er veitt til gjörgæsluþjónustu. Dagskráin byggist m.a. á pallborðsumræðum fagfólks, aðstandenda og sjúklinga og einnig á persónulegum viðtölum sem tekin hafa verið við starfsfólk gjörgæsludeilda. Einnig verður sýndur nýr leikþáttur eftir Felix Bergsson, sem sérstaklega var saminn fyrir þetta þing. Stjórnandi pallborðsumræðna er Dr. Sigrún Stefánsdóttir.
Sjá dagskrá>

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
10. nóvember 2000


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum