Hoppa yfir valmynd
7. febrúar 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Reglum um fæðingarorlofsgreiðslur breytt

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra hefur afnumið þá framkvæmd að fyrri fæðingarorlofsgreiðslur séu lagðar til grundvallar í tekjuviðmiði þegar annað barn fæðist.

Félagsmálaráðherra tilkynnti þetta í svari við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur alþingismanns í dag.

Svarið var svohljóðandi:

„Hæstvirtur forseti.

Háttvirtur fyrirspyrjandi spyr hvort ég hyggist beita mér fyrir breytingu á þeirri framkvæmd fæðingarorlofslaga er lýtur að tekjuviðmiði sem lagt er til grundvallar fæðingarorlofsgreiðslum. Sérstaklega er spurt um þá framkvæmd að fyrri fæðingarorlofsgreiðslur eru lagðar til grundvallar í tekjuviðmiði og álit umboðsmanns Alþingis þar að lútandi.

Ég svara spurningu háttvirts þingmanns með mikill ánægju játandi. Ég vil upplýsa háttvirtan þingmann og þingheim fyrst um það að ég hef þegar afnumið þá framkvæmd að fyrri fæðingarorlofsgreiðslur séu lagðar til grundvallar í tekjuviðmiði þegar annað barn fæðist. Ég hef þegar undirritað breytingu á reglugerð nr. 1056 frá árinu 2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks og sent hana til birtingar í Stjórnartíðindum.

Ég hef skoðað þetta álitaefni og fleiri atriði sem hafa komið upp í umfjöllun um fæðingarorlofslöggjöfina og falið sérstökum vinnuhópi að fara yfir þau mál. Sá vinnuhópur var sammála áliti umboðsmanns Alþingis sem háttvirtur þingmaður vísar til og styður þá breytingu sem ég hef nú gert. Hópurinn fer nú yfir ýmis önnur atriði sem upp hafa komið í umræðu um framkvæmd.

Þá liggur fyrir að úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála mun nú fara yfir þau mál sem þegar hafa verið úrskurðuð í málum þegar tvö börn hafa fæðst með stuttu millibili, sem eru um það bil fimm talsins, og jafnframt þarf að fara ítarlega yfir önnur tilvik sem hér falla undir en ekki hafa verið kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Jafnframt eru sérfræðingar nú að fara yfir hvort og þá hvernig megi styrkja með jákvæðum hætti í lögunum þessa breytingu þannig að skilningur löggjafans komi skýrt fram í lögunum.

Ég vil að lokum geta þess að þær breytingar sem Alþingi hefur samþykkt á fæðingarorlofslögunum, bæði að því er varðar tekjutengdar greiðslur og sjálfstæðan rétt feðra til fæðingarorlofs, eru afar vel heppnaðar. Að minni hyggju er hér dæmi um afar vel heppnaða löggjöf sem okkur ber vissulega að tryggja að sé vel framkvæmd. Löggjöfin hefur vakið athygli víða erlendis og mér er kunnugt um að hún hafi þegar haft áhrif á mótun löggjafar í öðrum löndum. Þetta er því fyrirmyndarlöggjöf í bókstaflegri merkingu þess orðs. Þetta vil ég leyfa mér að minna háttvirta þingmenn á.

Þá vil ég að lokum segja við háttvirta þingmenn, í gamni en þó í nokkurri alvöru, að mér hefur verið sagt að ég stýri barneignum hér á landi með því að styðja þá framkvæmd sem hefur verið við lýði og ég er nú að breyta. Ég hef nú ekki viljað taka undir þau orð en mikil er ábyrgð okkar ráðherranna.

Ég vænti þess þá að með þessari breytingu hafi ég stuðlað að auknum barneignum hér á landi og fátt er mikilvægara þegar við lítum til uppbyggingar þjóðfélaga og samfélaga. Um það getum við öll verið sammála. Þjóðfélög um allan heim leita allra leiða til að snúa við þróun í fækkun barneigna. Við Íslendingar höfum hins vegar getað snúið þróuninni við og ýmislegt bendir til þess að ný löggjöf um fæðingarorlof hafi haft hér jákvæð áhrif. Sé svo er það ánægjuleg staðreynd fyrir alla háttvirta þingmenn sem samþykktu gildandi löggjöf á þessu sviði.“



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum