Hoppa yfir valmynd
7. febrúar 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Svar við fyrirspurn um stuðningsfjölskyldur

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra hefur svarað fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur alþingismanns um stuðningsforeldra.

Svarið var svohljóðandi:

„Hæstvirtur forseti.

Í lögum um málefni fatlaðra er ákvæði þess efnis að fjölskyldur fatlaðra skuli eiga kost á þjónustu stuðningsfjölskyldu eftir því sem þörf krefur. Um stuðningsfjölskyldur er jafnframt fjallað í reglugerð um þjónustu við fötluð börn og fjölskyldur fatlaðra, nr. 155 frá 1995.

Hlutverk stuðningsfjölskyldu er samkvæmt reglugerðinni að taka fatlað barn í sólarhringsvistun í skamman tíma og er miðað við einn til fimm sólarhringa í mánuði.

Starfsfólk svæðisskrifstofa málefna fatlaðra sér um að útvega stuðningsfjölskyldur í samvinnu við foreldra fatlaðra barna. Oft er um að ræða ættingja, vandamenn eða vini sem taka að sér að vera stuðningsfjölskyldur, en í öðrum tilvikum getur verið um vandalausar fjölskyldur að ræða. Svæðisskrifstofur sjá um að gera skriflega samninga við hlutaðeigandi aðila.

Við val á stuðningsfjölskyldu skal svæðisskrifstofa kanna vandlega heimilishagi og aðstæður stuðningsfjölskyldna í þeim tilgangi að meta hæfni og möguleika viðkomandi til að sinna hlutverki sínu, enda er gerð krafa um að aðstæður stuðningsfjölskyldunnar hæfi hinu fatlaða barni. Við valið getur svæðisskrifstofa óskað eftir því að stuðningsforeldrar framvísi læknisvottorði og sakavottorði. Svæðisskrifstofu er enn fremur heimilt að fara fram á að eldvarnareftirlit sveitarfélags athugi ástand rafmagns og útgönguleiðir á heimili stuðningsfjölskyldunnar.

Svör þjónustuveitenda sem leitað var til, það er svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra og þeirra sveitarfélaga sem hafa tekið að sér málefni fatlaðra á sínu starfssvæði samkvæmt þjónustusamningi, bera með sér að því sé fylgt vel eftir að öllum ofangreindum skilyrðum sé fullnægt og aðgengi sé kannað ef um hreyfihamlað barn er að ræða.

Samkvæmt áðurnefndri reglugerð er svæðisskrifstofum falið að veita stuðningsfjölskyldum fræðslu, ráðgjöf og stuðning og hafa eftirlit með starfsemi þeirra. Framkvæmdastjórar svæðisskrifstofa málefna fatlaðra hafa sett sér vinnureglur í þessu sambandi og í svörum þeirra sem annast þjónustuna kom eftirfarandi fram:

Algengast er að gerður sé tímabundinn samningur til þriggja mánaða við stuðningsfjölskyldur og hann síðan framlengdur um sex til tólf mánuði í senn ef allt gengur að óskum. Eftirlit er því meðal annars fólgið í því hvernig til tekst á þriggja mánaða reynslutímanum.

Það er misjafnt hve oft þjónustuaðili heimsækir stuðningsfjölskyldu  eða á sameiginlega fundi með stuðningsfjölskyldu og foreldrum. Algengast er að það sé gert á sex til tólf mánaða fresti eftir að reynslutímabili lýkur. Í raun eru samskiptin mun tíðari með sambandi sem haft er símleiðis, t.d. þegar stuðningsfjölskyldan óskar faglegrar ráðgjafar eða upplýsinga.

Umtalsverður hluti eftirlitsins felst í því að foreldrar fylgjast með því hvernig barninu líður hjá stuðningsfjölskyldunni, það er hvernig það bregst við því að fara þangað og hvernig því líður þegar það kemur aftur heim. Samskipti eru umtalsverð á þeim tíma sem barnið dvelur hjá stuðningsfjölskyldunni. Foreldrar eru að jafnaði í reglulegu sambandi við þjónustuaðila varðandi ráðgjöf og stuðning og eiga þannig auðvelt með að koma að athugasemdum eða ábendingum ef einhverjar eru.

Varðandi greiðslur skal upplýst að ríkissjóður greiðir verktakagreiðslur til stuðningsfjölskyldna og er þjónustan foreldrum hins fatlaða að kostnaðarlausu. Greiðslur til stuðningsfjölskyldu eru stigskiptar eftir fötlun og umönnunarþörf barnsins. Greiðslur fyrir börn í fyrsta flokki, sem eru algerlega háð öðrum við athafnir daglegs lífs, eru 12.600 kr. fyrir sólarhringsþjónustu.

Greiðslur fyrir börn í öðrum flokki, sem þurfa verulega aðstoð við athafnir daglegs lífs og gæslu, eru 9.700 kr. fyrir sólarhringsþjónustu. Greiðslur fyrir börn í þriðja flokki, sem þurfa minni aðstoð en samkvæmt fyrrnefndum flokkum en þurfa eftirlit við athafnir daglegs lífs, eru 7.400 kr. fyrir sólarhringsþjónustu. Heimilt er í undantekningatilvikum að semja um dvöl hjá stuðningsfjölskyldu hluta úr sólarhring. Um greiðslu fyrir þjónustuna er greitt tímakaup, 780 kr. fyrir hverja klukkustund. Fjárhæðir þessar koma til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa.

Greiðslurnar eiga fyrst og fremst að koma til móts við beinan og óbeinan kostnað stuðningsfjölskyldunnar við að taka fatlað barn í sólarhringsvistun í skamman tíma. Að einhverju leyti er þó um greiðslu vegna umönnunar- og gæsluþarfar barnsins að ræða. Litið er á hluta greiðslurnar sem greiðslu vegna kostnaðar við að taka fatlað barn í sólarhringsvistun eins og fram kemur við skoðun á skattalegri meðferð greiðslnanna.

Sérreglur gilda um skattlagningu greiðslna til stuðningsfjölskyldna. Samkvæmt leiðbeiningum ríkisskattstjóra með skattframtali einstaklinga vegna síðasta skattframtals kemur fram að greiðslur til stuðningsfjölskyldna fatlaðra barna teljast að fullu til skattskyldra tekna en á móti má færa til frádráttar beinan kostnað vegna umönnunar og dvalar barnanna, enda sé lögð fram sundurliðun um sannanlegan kostnað.“



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum