Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2022 Utanríkisráðuneytið

Íslensk stjórnvöld lögðu til fraktflug til aðstoðar Úkraínu

Fraktflutningavél á vegum íslenskra stjórnvalda flutti búnað til notkunar í Úkraínu í nótt. Flogið var frá Slóveníu í samvinnu við þarlend yfirvöld til áfangastaðar nálægt landamærum Úkraínu.

Á síðustu dögum hefur borist ákall um aðstoð frá Úkraínu vegna neyðarástands í landinu í kjölfar innrásar rússneska hersins. Beiðni frá úkraínskum stjórnvöldum barst til vina- og bandalagsþjóða þar á meðal Íslands. Var þar óskað eftir ýmis konar aðstoð, hergögnum, hlífðarbúnaði, hjúkrunarvörum og fleiru. Vilji íslenskra stjórnvalda hefur staðið mjög eindregið til þess að leggja úkraínsku þjóðinni lið, en eðli máls samkvæmt hefur Ísland ekki yfir að ráða hergögnum eða sérhæfðum búnaði sem mest þörf er talin á við þær aðstæður sem þar eru uppi nú.

Tekin var ákvörðun um að leggja til not af fraktflugvél sem tekin var á leigu af flugfélaginu Atlanta, en ákaflega brýn þörf er á slíku liðsinni. Heppnaðist framkvæmdin í alla staði vel og verður búnaðinum sem var um borð komið í dreifingu til þeirra sem á þurfa að halda.

Þá hefur Ísland svarað kalli Úkraínu um mannúðaraðstoð með því að heita einnar milljón evra framlagi til alþjóðlegs mannúðarstarfs.

"Íslensk stjórnvöld munu halda áfram að leita leiða til þess að koma úkraínsku þjóðinni til aðstoðar með þeim hætti sem er á okkar færi og í samræmi við þeirra óskir og þarfir," segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum