Hoppa yfir valmynd
19. apríl 2002 Utanríkisráðuneytið

Opinber heimsókn forseta Íslands til Rússlands

Nr. 029

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson og utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, áttu í dag, á fyrsta degi opinberrar heimsóknar forseta Íslands til Rússlands, fundi með Vladimir Putin, forseta Rússlands og Mikhail Kasyanov, forsætisráðherra Rússlands. Þá átti utanríkisráðherra sérstaka fundi med Igor Ivanov, utanríkisráðherra Rússlands og Ivan Materov, varaefnahags- og viðskiptaráðherra Rússlands.

Á fundi forsetanna og utanríkisráðherranna voru tvíhliða samskipti ríkjanna efst á baugi, jafnt á svið stjórnmála og viðskipta og áréttuðu þeir mikilvægi þess að efla samskiptin enn frekar. Forseti Rússlands sagði að Rússar legðu nú aukna áherslu á að bæta efnahagsumhverfi Rússlands og móta sem skýrast lagaumhverfi á sviði viðskiptamála til hagsbóta fyrir fyrirtæki í viðskiptum við Rússland og að unnið væri að því að ryðja úr vegi hindrunum á því sviði. Forseti Rússlands sagði mikilvægt að auka viðskipti landanna, sérstaklega er að því varðar útflutning á íslenskri framleiðslu og kom með tillögur í því sambandi. Forsetinn fagnaði fjárfestingum Íslendinga í Rússlandi, meðal annars í sjávarútvegi og kvaðst eindregið styðja frekari útrás íslenskra fyrirtækja í Rússlandi. Mikilvægt væri að efla viðskiptaumhverfið og í því sambandi kom fram að síðar á þessu ári er stefnt að undirritun samninga um tvísköttun og vernd fjárfestinga á milli Íslands og Rússlands.

Forsetar Íslands og Rússlands voru einnig sammála um mikilvægi þess að efla samskipti á sviði menningarmála og að byggja í því skyni á sameiginlegum menningararfi ríkjanna. Síðar í heimsókninni mun forseti Íslands meðal annars heimsækja Novgorod, (Hólmgarð), þekktan verslunarstað sem á rætur að rekja til umsvifa norrænna manna í vesturhluta Rússlands fyrir meira en þúsund árum.

Samstarf ríkjanna á norðurslóðum bar einnig a góma og undirstrikaði utanríkisráðherra að miklir möguleikar fælust í því að efla það enn frekar, en Ísland tekur sem kunnugt er við formennsku í Norðurskautsráðinu síðar á þessu ári.

Undirbúningur utanríkisráðherrafundar Atlantshafsbandalagsins á Íslandi í næsta mánuði var helsta umræðuefni á fundi Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, með Igor Ivanov, utanríkisráðherra Rússlands. Ráðherrarnir ræddu einkum stofnun nýs samstarfsvettvangs Atlantshafsbandalagsins og Rússlands þar sem Rússland yrði jafngildur aðili að tuttugu ríkja samstarfi bandalagsríkja og Rússlands. Ráðherrarnir voru sammála um nauðsyn þess að gengið yrði frá samkomulaginu í Reykjavík sem staðfest verði endanlega á sérstökum leiðatogafundi Atlantshafsbandalagsins og Rússlands í Róm 28. maí næstkomandi. Ráðherrarnir ræddu einnig alvarlega stöðu mála í Miðausturlöndum og voru sammála um að illa horfi um lausn deilunnar sem gæti haft alvarlegar afleiðingar ekki bara fyrir öryggismál á svæðinu heldur einnig í víðara samhengi.

Á fundi ráðherranna var einnig rætt um samstarf á sviði viðskipta, sérstaklega að því er varðar sjávarútvegsmál. Í því samhengi var ákveðið að koma á laggirnar sameiginlegri skilanefnd vegna skuldar ákveðins sjávarútvegsfyrirtækis í Karelíu við Útflutningslánasjóð. Báðir ráðherrarnir áréttuðu mikilvægi þess að sem fyrst yrði gengið frá lausn málsins.

Loks átti Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, fund með Ivan Materov, varaefnahags- og viðskiptaráðherra Rússlands. Ræddu ráðherrarnir væntanlega aðild Rússlands að alþjóðaviðskiptastofnuninni, WTO. Ráðherrarnir lýstu ánægju með þróun tvíhliða viðræðna ríkjanna í tengslum við aðild Rússlands að WTO og lagði utanríkisráðherra sérstaka áherslu á mikilvægi verulegra tollalækkana eða afnám tolla á sjávarafurðum. Ráðherra lagði ríka áherslu á að tvísköttunarsamningur ríkjanna yrði fullgiltur af hálfu Rússlands, en sá samningur hefur beðið endanlegrar afgreiðslu í Dúmunni um nokkurt skeið. Ivan Materov fullvissaði utanríkisráðherra um að umræddur samningur yrði fullgiltur af Rússlands hálfu á næstu mánuðum. Jafnframt sagði hann að þess mætti vænta að drög að fjárfestingarsamningi Íslands og Rússlands yrði afgreiddur á haustmánuðum. Loks ræddu ráðherrarnir möguleika á ákveðnum samstarfsverkefnum á sviði áliðnaðar, jarðvarmanýtingar, ferðaþjónustu, lyfjaframleiðslu og fiskvinnslu.

Auk þess áttu forseti Íslands og utanríkisráðherra fund með Mikhail Kasyanov, forsætisráðherra Rússlands. Áréttuðu þeir möguleika viðskiptasamvinnu á ýmsum sviðum á sömu nótum og áður höfðu komið fram af hálfu forseta Rússlands. Orkumálaráðherra Rússlands tók þátt í fundinum og var tekin ákvörðun um að flýta stofnun samstarfshóps á sviði orkumála. Orkumálaráðherrann sagði slíka samvinnu afar mikilvæga þar sem Ísland væri að mati Rússlands leiðandi aðili á ýmsum sviðum orkunýtingar, sérstaklega að því er varðar nýtingu jarðvarma. Ákveðið var að orkumálaráðherrar Íslands og Rússlands myndu hittast á næstunni til að taka frekari ákvarðanir um nánara samstarf á þessu sviði. Einnig var ákveðið að efla samráð á sviði sjávarútvegsmála, þar sem Íslendingar væru einnig í fararbroddi.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 19. apríl 2002.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum