Hoppa yfir valmynd
23. apríl 2002 Utanríkisráðuneytið

Opnun menningarhátíðar í Berlín í tilefni af aldarafmæli Halldórs Laxness

Nr. 33

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Forsætisráðherra Íslands, Davíð Oddsson, og kanslari Þýskalands, Gerhard Schröder munu opna menningarhátíðina "Island Hoch" í Berlín við hátíðlega athöfn í dag, þriðjudaginn 23. apríl. Við opnunina mun einnig Halldór Guðmundsson, bókmenntafræðingur, halda erindi um störf Laxness og Gunnar Guðbjörnsson, tenórsöngvari, syngur íslensk lög.

"Island Hoch" verður haldin í Berlín 23. - 26. apríl. Um er ræða íslenska menningarhátíð þar sem kynntar verða bókmenntir, kvikmyndir og tónlist af ýmsu tagi og með ýmsum hætti. Að hátíðinni standa aðallega Steidl forlagið, Sendiráð Íslands í Berlín, Berliner Festspiele, Kvikmyndasjóður Íslands, kvikmyndadreifingarfyrirtækið Amuse, Bókmenntakynningarsjóður, Literarisches Colloquium og Arena sýningarhúsið. Hauptstadt-Kulturfond ásamt þýska utanríkisráðuneytinu styrkja hátíðina fjárhagslega.

Helstu tilefni hátíðarinnar "Island Hoch" eru í fyrsta lagi 50 ára stjórnmálaafmæli Íslands og Þýskalands. Þessara tímamóta verður minnst með ýmsum hætti bæði í Þýskalandi og á Íslandi, en "Island Hoch" hátíðin er einn stærsti viðburðurinn sem haldinn er af þessu tilefni. Í öðru lagi er þess minnst að á árinu 2002 er fagnað 100 ára ártíð Halldórs Kiljan Laxness, en bækur hans hafa verið þýddar á þýsku á vegum Steidl forlagsins. Þessara tímamóta verður einnig minnst með sérstakri sýningu um ævi og störf skáldsins í sameiginlega húsi Norrænu sendiráðanna. Að lokum er hátíðin einnig opnuð á árlegum degi bókarinnar þ. 23. apríl, en Sameinuðu þjóðirnar ákváðu árið 1995 að þessi dagur skyldi á hverju ári vera tileinkaður bókum.

Margir íslenskir listamenn taka þátt í "Island Hoch", en hátíðin fer fram víða í Berlín.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 23. apríl 2002.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum