Hoppa yfir valmynd
22. september 2004 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 5/2004

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 5/2004:

A

gegn

Norðurljósum hf.

vegna Íslenska útvarpsfélagsins hf.

 

--------------------------------------------------------------

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 22. september 2004 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I

Inngangur

Með kæru, dagsettri 17. febrúar 2004, óskaði A eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort uppsögn hennar úr starfi sem fréttamaður hjá Íslenska útvarpsfélaginu hf. bryti í bága við ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Kæran var kynnt Íslenska útvarpsfélaginu hf. með bréfi dagsettu 27. febrúar 2004. Með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000 var óskað upplýsinga um það hversu mörgum starfsmönnum hafi verið sagt upp þegar kæranda var sagt upp, fjölda og kyn fréttamanna hjá Íslenska útvarpsfélaginu hf. á þeim tíma sem kæranda var sagt upp og starfsaldur fréttamanna hjá félaginu á uppsagnartíma, bæði þeirra sem sagt var upp og annarra. Þá var óskað eftir afstöðu félagsins til erindis kæranda og félaginu loks gefinn kostur á að koma þeim upplýsingum á framfæri sem það teldi til upplýsinga fyrir málið.

Svar barst með bréfi B, útvarpsstjóra, dags. 19. mars 2004, sem ritað var fyrir hönd Norðurljósa hf. án þess þó að svör bærust við fyrirspurnum um fjölda og kyn fréttamanna hjá Íslenska útvarpsfélaginu hf. á þeim tíma sem kæranda var sagt upp eða starfsaldur fréttamanna hjá félaginu á sama tíma. Kæranda var kynnt bréf útvarpsstjórans með bréfi kærunefndar, dags. 23. mars 2004, og henni gefinn kostur á að koma frekari athugasemdum á framfæri. Athugasemdir bárust í bréfi, dags. 20. apríl 2004, og var það bréf sent til Íslenska útvarpsfélagsins hf. með bréfi, dags. 3. maí 2004, og því gefinn kostur á að tjá sig um efni bréfsins fyrir 17. maí 2004. Svar barst að liðnum þeim fresti eða 2. júní síðastliðinn og var kynnt kæranda sem brást við með bréfi, dags. 8. júní 2004, sem í kjölfarið var kynnt Íslenska útvarpsfélaginu hf.

Þar sem upplýsingar um kynjahlutföll og starfsaldur fréttamanna þegar uppsagnirnar fóru fram höfðu ekki verið veittar þrátt fyrir ítrekun, sbr. bréf dags. 24. júní 2004, var útvarpsstjóri Íslenska útvarpsfélagsins hf. kallaður á fund kærunefndar jafnréttismála þann 24. ágúst 2004, sbr. bréf dags. 3. ágúst 2004, en hann mætti ekki. Var fyrirtækinu í kjölfarið enn á ný ritað bréf og innt eftir þessum upplýsingum og barst svar með bréfi, dags. 6. september 2004, ásamt lista þar sem fram komu nöfn og starfsaldur þeirra sem störfuðu sem fréttamenn í júní 2003. Kæranda voru send þessi gögn með bréfi kærunefndar, dags. 8. september 2004, og bárust athugasemdir kæranda með bréfi til kærunefndar, dags. 13. september 2004. Íslenska útvarpsfélaginu hf. var sent það bréf með bréfi kærunefndar, dags. 16. september 2004.

 

II

Málavextir

Málsatvik eru þau að í september 1989 hóf kærandi störf hjá Íslenska útvarpsfélaginu hf. við fréttaöflun og dagskrárgerð, en félagið rak þá útvarpsstöðina Bylgjuna. Eftir sameiningu Íslenska útvarpsfélagsins hf. og Stöðvar 2 árið 1990 vann hún bæði við fréttaöflun fyrir útvarp og sjónvarp. Kæranda var sagt upp störfum með bréfi dags. 27. júní 2003. Ástæður uppsagnarinnar voru tilgreindar sem skipulagsbreytingar og hagræðing hjá félaginu. Þá liggur fyrir í gögnum málsins að á þessu ári hafi umtalsverður fjöldi starfsmanna hjá félaginu látið af störfum meðal annars af þessum ástæðum.

Í gögnum málsins kemur jafnframt fram að þremur öðrum fréttakonum hafi verið sagt upp hjá Íslenska útvarpsfélaginu hf. með bréfum dagsettum sama dag og uppsagnarbréfið til kæranda en engum karlmanni. Á þeim tíma sem uppsögn kæranda átti sér stað störfuðu samtals 17 fréttamenn hjá kærða, þar af 10 karlmenn og 7 konur og voru sjö karlmannanna með skemmri starfsaldur en kærandi.

 

Starfsaldur fréttamanna hjá kærða eftir kynferði á þeim tíma sem kæranda var sagt upp störfum var eftirfarandi:

Kyn Hóf störf hjá félaginu Starfsaldur 1. júlí 2003
karl 14. mars 1996 7 ár, 3 og hálfur mánuður
kona 14. mars 1997 6 ár, 3 og hálfur mánuður
kona 15. ágúst 2001 1 ár og 10 mánuðir
kona 1. júní 1999 4 ár
karl 1. júní 1997 6 ár og 1 mánuður
karl 1. júní 1989 14 ár og 1 mánuður
karl 1. mars 2003 4 mánuðir
karl 1. maí 2000 3 ár og 2 mánuðir
karl 1. júní 1986 17 ár og 1 mánuður
karl 1. janúar 1988 15 ár og 6 mánuðir
karl 10. janúar 1991 12 ár og 6 mánuðir
karl 1. júní 1998 5 ár og 1 mánuður
karl 1. júní 1991 12 ár og 1 mánuður

     

Starfsaldur þeirra fréttamanna hjá kærða sem var sagt upp störfum á sama tíma og kæranda ásamt henni:

Kyn Hóf störf hjá félaginu Starfsaldur 1. júlí 2003
kærandi 1. september 1989 13 ár og 9 mánuðir
kona 1. júlí 1997 6 ár
kona 7. janúar 2000 3 ár og 6 mánuðir
kona 1. júní 1998 5 ár og 1 mánuður
 

Samkvæmt upplýsingum kærða hefur síðan verið ráðinn kvenkyns fréttastjóri til félagsins auk fréttamanna af báðum kynjum.

 

III

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er á því byggt að með uppsögninni hafi henni verið mismunað vegna kynferðis síns þannig að brjóti í bága við ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000. Ástæður uppsagnarinnar hafi verið tilgreindar skipulagsbreytingar og hagræðing hjá Íslenska útvarpsfélaginu hf. Í viðtölum hennar við forsvarsmenn kærða í lok júní 2003 hafi engar frekari skýringar verið gefnar á nefndum skipulagsbreytingum og hagræðingu. Ekki hafi heldur verið upplýst hvers vegna konum hafi eingöngu verið sagt upp fréttamannsstarfi en ekki körlum þó svo að þeir hefðu styttri starfstíma að baki hjá kærða og einnig almennt minni starfsreynslu sem blaðamenn við fjölmiðla. Kærandi telji einnig að menntun karlanna kunni að vera minni og að þeir standi henni einnig að baki um fleiri málefnalega þætti.

Kærandi hóf störf hjá Íslenska útvarpsfélaginu hf. í september árið 1989 við fréttaöflun og dagskrárgerð, en félagið rak þá útvarpsstöðina Bylgjuna. Árið 1990 sameinaðist Íslenska útvarpsfélagið Stöð 2 og upp frá því vann kærandi bæði við fréttaöflun fyrir útvarp og sjónvarp, allt þar til henni var sagt upp störfum með bréfi dags. 27. júní 2003.

Kærandi telur að sér hafi með uppsögninni verið mismunað eftir kynferði þar sem engar málefnalegar skýringar hafi komið fram fyrir henni. Uppsögnin brjóti í bága við ákvæði laga nr. 96/2000, einkum IV. kafla laganna, þar sem einvörðungu konum sem störfuðu sem fréttamenn var sagt upp störfum en ekki karlmönnum í sama starfi með styttri starfstíma að baki hjá kærða og jafnframt almennt minni starfsreynslu í starfi sem blaðamenn við fjölmiðla. Telur kærandi að líkur hafi verið leiddar að kynferðislegri mismunun og kærði hafi hvorki sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans né rökstutt hvers vegna uppsagnir bitnuðu eingöngu á konum.


IV

Sjónarmið kærða

Fram kemur í greinargerð útvarpsstjóra kærða, dagsettri 19. mars 2004, að uppsögn kæranda hafi ekki falið í sér neina kynferðislega mismunun frekar en aðrar uppsagnir sem gripið hafi verið til hjá Norðurljósum hf., sem kærði er hluti af, til að tryggja stærri hóp fólks vinnu. Það hafi verið mat fréttastjórans og framkvæmdastjórnar félagsins að til uppsagna hafi þurft að grípa og hafi kæranda ásamt fleirum verið sagt upp. Við uppsögnina hafi starfsaldur haft áhrif en ekki ráðið úrslitum.

Áður en kæranda var sagt upp störfum hafði verið unnið um samtals 18 mánaða skeið að hagræðingu og skipulagsbreytingum innan félagsins, sem hafi leitt til uppsagna liðlega 70 starfsmanna, kvenna og karla úr ýmsum deildum. Megi til dæmis nefna að hjá frétta- og dagskrárdeild hafi fjórum karlmönnum verið sagt upp sem búi að mikilli reynslu í íslenskum fjölmiðlum og þar af hafi einn verið framkvæmdastjóri sjónvarpssviðs og starfað tæp tíu ár hjá félaginu. Þá bendir kærði á að á útvarpssviði hafi karli og konu verið sagt upp störfum ásamt dagskrárstjóra og tölvumanni, sem báðir eru karlkyns. Umsjónarmanni fasteigna félagsins hafi verið sagt upp störfum, starfsmanni á kvikmyndasviði og yfirmanni tölvudeildar. Þá hafi yfirmaður tónlistardeildar látið af störfum, og yfirmaður verslana- og auglýsingadeildar, án þess að ráðið væri í þeirra störf. Allar uppsagnir og aðhald í mannaráðningum hafi verið til þess eins gerðar að draga úr launakostnaði og hafi þær komið nokkuð jafnt niður á báðum kynjum í öllum deildum félagsins. Kærði tekur fram að nú hafi það gerst að konum hafi fjölgað í stjórnunarstöðum og á fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar.

Greinargerð kærða fylgdi listi með samantekt á uppsögnum á fréttadeild, dagskrárdeild, íþróttadeild og framleiðsludeild frá vordögum 2003. Í greinargerðinni kemur fram að skoða verði þessar uppsagnir í heild sinni þar sem fréttastofa Stöðvar 2 og Bylgjunnar sé ekki einangrað fyrirbæri heldur hluti af stóru fyrirtæki sem hafi orðið að leita allra leiða til að draga úr kostnaði. Einnig fylgir greinargerðinni heildarlisti yfir starfsmenn sem hættu störfum hjá Norðurljósum hf. árin 2002 og 2003, flestir vegna uppsagna að sögn kærða. Fram kemur að listinn sé ekki tæmandi þar sem sumir hafi verið á launum fram yfir áramótin 2003–2004.

  

V

Niðurstaða

Kærandi hefur óskað eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við uppsögn kæranda úr starfi sem fréttamanns hjá Íslenska útvarpsfélaginu hf.

Markmið jafnréttislaga er að koma á og viðhalda jafnrétti. Með hliðsjón af því skal stuðlað að því að jafna tækifæri kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins, sbr. 1. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Atvinnurekendur gegna afar þýðingarmiklu hlutverki í því að ná fram markmiði laganna. Ýmsar skyldur eru lagðar þeim á herðar í þessu skyni og skorður settar við ákvörðunum þeirra. Þeir skulu vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði, einnig skulu þeir vinna sérstaklega að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækja sinna og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf, sbr. 13. gr. laga nr. 96/2000.

Í málinu hefur kærandi byggt á því að uppsögn hennar úr starfi sem fréttamaður hjá kærða hafi verið brot á jafnréttislögum þar sem henni og þremur öðrum kvenkyns fréttamönnum hafi jafnhliða verið sagt upp störfum en engum karlmanni sem gegndi sambærilegu starfi. Því hefur kærði mótmælt og hefur byggt á því að skoða þurfi allar uppsagnir sem fram hafi farið á þeim misserum sem kæranda var sagt upp sem eina heild. Fréttastofa kærða sé ekki einangrað fyrirbæri heldur hluti af stóru fyrirtæki sem hafi orðið að leita allra leiða til að draga úr kostnaði á löngu tímabili.

Þegar lagt er mat á réttarstöðu kæranda, með tilliti til ákvæða laga nr. 96/2000, er það álit kærunefndar jafnréttismála að leysa verði úr málinu á grundvelli mats á atvikum á þeim tíma þegar uppsögn kæranda fór fram. Einnig verði að hafa hliðsjón af þeim hópi starfsmanna kærða sem gegndu sambærilegu starfi og kærandi, en það eru fréttamenn á fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Fyrir liggur að uppsagnir fréttamanna á þeim tíma þegar kæranda var sagt upp störfum bitnuðu eingöngu á kvenkyns fréttamönnum. Það er jafnframt álit kærunefndar jafnréttismála að þótt hlutur kvenna sem gegna starfi fréttamanna hjá kærða hafi síðar rést réttlæti ekki hvernig gengið var fram á þeim tíma sem uppsögn kæranda var afráðin.

Upplýst er að meðal starfandi fréttamanna hafi verið 7 konur og 10 karlar á þeim tíma sem kæranda var sagt upp störfum. Ef samanburður hefði átt sér stað á milli starfandi fréttamanna hjá kærða þegar ákvarðanir um uppsagnirnar voru teknar er ljóst að hallað hefði á konur. Í ljósi þeirrar staðreyndar hefði þurft veigamikil rök fyrir því að segja fjórum af þessum konum upp en engum karlmanni þannig að hlutur kvenna rýrnaði enn og það verulega. Engin tilraun hefur hins vegar verið gerð til þess af hálfu kærða að færa rök fyrir því að fremur hefði átt að segja nefndum fjórum konum upp heldur en körlum vegna endurskipulagningar og hagræðingar félagsins. Kærði hefur þó nefnt að við val milli starfsmanna hafi starfsaldur ráðið nokkru um uppsagnirnar en þó ekki úrslitum. Aðrar ástæður hafa ekki verið reifaðar. Af málatilbúnaði kærða og öðrum gögnum málsins verður helst ráðið að kærði hafi ekkert hugað að ákvæðum laga nr. 96/2000 við uppsagnir fréttamannanna, svo sem kærða bar að gera samkvæmt ákvæðum þeirra laga.

Þegar annars vegar er litið til ofanritaðs og þess að kærði hefur ekki fært fram önnur rök fyrir uppsögn kæranda en almenn rök um hagræðingu og skipulagsbreytingar sem ekki verður séð að réttlæti ein og sér það að konum sé eingöngu sagt upp störfum og hins vegar þess að kærandi hafði lengri starfsaldur en að minnsta kosti sjö af þeim körlum sem héldu starfi sínu verður ekki talið að kærði hafi fært fram málefnanleg rök fyrir því að kæranda hafi verið sagt upp, sbr. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 er óheimilt að mismuna starfsmönnum við uppsagnir á grundvelli kynferðis. Ef máli er vísað til kærunefndar og leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis við uppsögn úr starfi, skal atvinnurekandi sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðuninni. Þykir kærða ekki hafa tekist á málefnalegan hátt að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að með uppsögn kæranda úr starfi fréttamanns hafi kærði, Íslenska útvarpsfélagið hf. brotið gegn 1. mgr. 24. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Kærunefnd beinir þeim tilmælum til Íslenska útvarpsfélagsins hf. að fundin verði viðunandi lausn á málinu.

 

 

Björn L. Bergsson

Ragna Árnadóttir

Ása Ólafsdóttir

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira