Hoppa yfir valmynd
16. janúar 2018 Utanríkisráðuneytið

Samstarfsverkefni með Matvælaáætlun SÞ í Malaví og Mósambík

Samið hefur verið við Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) um þátttöku Íslands í tveimur verkefnum á vegum WFP sem bæði eru liður í baráttunni gegn hungri og vannæringu. Annars vegar er um að ræða stuðning við skólamáltíðir í Malaví en WFP og sendiráð Íslands í Malaví hafa frá árinu 2012 haft með sér samstarf um heimaræktaðar skólamáltíðir í nokkrum grunnskólum í einu héraði í landinu, Mangochi. Fleiri skólar eru að bætast í hópinn og nemendur allra þeirra tólf grunnskóla sem utanríkisráðuneytið styður í gegnum þróunaráætlun með héraðsstjórnvöldum fá nú mat í skólanum. Rúmlega fimm milljónum ísl. króna verður varið í verkefnið.

Að sögn Þórdísar Sigurðardóttur sendiráðunautar á þróunarsamvinnuskrifstofu ráðuneytisins skipta skólamáltíðir gríðarlegu máli fyrir nemendur í landi eins og Malaví þar sem fátækt er útbreidd og djúpstæð og matarskortur á mörgum heimilum.  

Í Mósambík er WFP að setja á laggirnar kerfi í tilraunaskyni í sex mánuði sem gerir viðtakendum aðstoðar frá stofnuninni kleift að láta vita hvernig til tekst og senda inn tillögur um úrbætur. "Þetta er hugsað til að tryggja að fólk sem njóti matvælaaðstoðar lendi ekki í vandræðum eða sæti árásum og ofbeldi af þeim sökum. Sambærilegt kerfi hefur verið notað í Malaví með góðum árangri," segir Þórdís.

Utanríkisráðuneytið hefur samþykkt að taka þátt í fjármögnun þessa verkefnis og verður tæpum tveimur milljónum ísl. króna varið til þess. Að sögn Þórdísar er Mósambík eitt af þeim löndum þar sem iðulega skapast neyðarástand, oftast ýmist vegna þurrka eða flóða, sem aftur leiðir til uppskerubrests og matarskorts. Gert er ráð fyrir að yfir hálf milljón manna þurfi matvælaaðstoð í Mósambík á næstu mánuðum.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum