Hoppa yfir valmynd
12. janúar 2012 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Breytingar á lögum um fjarskiptasjóð

Um áramótin tóku gildi ný lög nr. 179/2011 um breytingu á lögum um fjarskiptasjóð. Þar er gildistími sjóðsins framlengdur um fimm ár, til ársloka árið 2016. Markmið breytingarinnar er fyrst og fremst að tryggja að fjarskiptasjóður nái að fylgja eftir þeim verkefnum sem eru á lokastigum vegna fyrri fjarskiptaáætlunar, þ.e. háhraðanetsverkefni fjarskiptasjóðs.

Þá er í lögunum kveðið á um að fjarskiptasjóður verði fjármagnaður af tekjum sem til eru komnar vegna úthlutana á tíðnum vegna fjarskipta, sem kveðið er á um í fjarskiptalögum nr. 81/2003. Auk þess er stjórnarmönnum fækkað úr fimm í þrjá í samræmi við minnkað umfang starfsemi sjóðsins.

Fjarskiptasjóður hefur verið starfræktur frá árinu 2005. Sjóðurinn var stofnaður í kjölfarið á sölu á eignarhlut ríkissjóðs í Landssíma Íslands, en hluti af söluandvirðinu var látinn renna í sjóðinn til uppbyggingar á sviði fjarskiptamála. Meginhlutverk sjóðsins er að stuðla að uppbyggingu á sviði fjarskiptamála á grundvelli fjarskiptaáætlunar hverju sinni, með því að úthluta fjármagni til verkefna sem miða að uppbyggingu stofnkerfa fjarskipta, verkefna sem stuðla að öryggi og samkeppnishæfni þjóðfélagsins á sviði fjarskipta og annarra verkefna sem kveðið er á um í fjarskiptaáætlun, og ætla má að ekki verði ráðist í á markaðsforsendum. Það á fyrst og fremst við um uppbyggingu á strjálbýlli svæðum landsins, en að jafnaði er til staðar virk samkeppni á fjarskiptamarkaði á þéttbýlli svæðum.

Til stendur að leggja fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um nýja fjarskiptaáætlun sem ætlað er að gilda til næstu tólf ára. Mikilvægt er að tryggja áframhaldandi framþróun á sviði fjarskipta og styðja við uppbyggingu þar sem slíkt er ekki mögulegt á markaðslegum forsendum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum