Hoppa yfir valmynd
30. október 2014 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Ný reglugerð um stjórn fjarskiptasjóðs og verkefnisstjórn

Reglugerð um stjórn fjarskiptasjóðs og verkefnisstjórn um framkvæmd fjarskiptaáætlunar hefur tekið gildi og kemur í stað eldri reglugerðar um sama efni. Ástæða þessarar breytingar er sú að tilfærsla hefur orðið á verkefnum með sameiningu ráðuneyta, uppfæra þurfti lagatilvísanir í reglugerðinni og um leið var breytt nokkrum öðrum efnisatriðum.

Meðal breytinganna er að kveðið er skýrar á um hvernig fara skuli að þegar mál sem er til meðferðar getur varðað viðskipti stjórnarmanna eða lögaðila sem þeir eiga hlut í þar sem ákvarðanir stjórnar geta varðað verulega fjárhagslega hagsmuni. Þá er breytt orðalagi varðandi útboð og segir í nýju reglugerðinni varðandi framlög úr sjóðnum að það skuli að jafnaði gert að undangengnu útboði. Einnig er gerð sú breyting að verkefnisstjórn skal gera tillögu að forgangsröðun verkefna en í fyrri reglugerð var tilskilið að verkefnisstjórn ákvæði forgangsröðun og þykir breytingin í meira samræmi við ráðgefandi hlutverk verkefnisstjórnarinnar. Þá var gerð sú breyting að verkefnisstjórnin skal undirbúa skýrslu til innanríkisráðherra um framgang fjarskiptaáætlunar og leggja hana fyrir Alþingi.

Drög að breytingu reglugerðarinnar voru send stjórn fjarskiptasjóðs til umsagnar en ekki þótti ástæða til að kynna breytinguna að öðru leyti þar sem þær snerust einkum um að uppfæra hana í takt við raunveruleikann.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira