Hoppa yfir valmynd
6. október 2016 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Drög að áætlun um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum til umsagnar

Frá blaðamannafundi í dag. - mynd

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar, í samvinnu við forsætisráðuneytið, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga, eftir umsögnum um drög að áætlun um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum, um land allt, til verndar náttúru og menningarminjum. Í áætluninni er sett fram forgangsröðun verkefna sem lagt er til að ráðist verði í á árinu 2017, í samræmi við bráðabirgðaákvæði laga sem Alþingi samþykkti fyrr á árinu.

Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra, kynnti drögin á blaðamannafundi í dag. Áætlunin er undanfari 12 ára stefnumarkandi langtímaáætlunar og þriggja ára verkefnaáætlunar um sama efni sem leggja á fyrir Alþingi í formi þingsályktunar á næsta ári.

Fjölmörg verkefni víða um land eru á áætlun ársins 2017 og má sjá yfirlit þeirra í viðaukum áðurnefndra skýrsludraga. Stærri verkefni eru Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi, Gestastofa á Kirkjubæjarklaustri og frekari uppbygging á Hakinu á Þingvöllum. Smærri og millistór verkefni, svo sem göngupallar, bílastæði og bætt salernisaðstaða, dreifast um allt land og í samræmi við álag á fjölsótta staði. Einnig er stefnt að aukningu í landvörslu.

Ljóst er að uppsöfnuð þörf fyrir bætta aðstöðu á fjölsóttum stöðum og aukna landvörslu er mikil og halda þarf áfram á sömu braut með verkefnaáætlunum til þriggja ára í senn eins og kveðið er á um í lögum um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

Viðamikil gagnaöflun og gagnavinnsla fór fram í sumar vegna áætlunarinnar af hálfu verkefnisstjórnar sem í sitja fulltrúar ráðuneytanna og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Aflað var gagna frá viðkomandi fagstofnunum, þ.e. Umhverfisstofnun, Þjóðgarðinum á Þingvöllum, Vatnajökulsþjóðgarði, Landgræðslu ríkisins, Skógræktinni, Minjastofnun, Þjóðminjasafni Íslands og forsætisráðuneytinu (þjóðlendur), auk allra sveitarfélaga landsins.

Umsögnum um drögin að skammtímaáætluninni skal skilað fyrir 2. nóvember nk. á netfangið [email protected] eða í bréfpósti, á umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík.

Náttúra, menningarminjar og ferðamenn – drög að áætlun vegna verkefna ársins 2017 (pdf)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira