1264/2025. Úrskurður frá 27. mars 2025
Hinn 27. mars 2025 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1264/2025 í máli ÚNU 25030017.
Beiðni um endurupptöku
Með erindi, dags. 18. mars 2025, fór […], fréttamaður á Ríkisútvarpinu, fram á að úrskurðarnefnd um upplýsingamál tæki upp að nýju mál ÚNU 24050021 sem lauk með úrskurði nefndarinnar nr. 1236/2024, dags. 19. desember 2024.
Með umræddum úrskurði staðfesti úrskurðarnefndin ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 29. apríl 2024, um synjun á afhendingu tiltekinna upplýsinga um hlutafélögin HS Orku hf., Icelandair Group hf. og Samherja hf. Nánar tiltekið fól úrskurðurinn í sér að fallist var á synjun ríkisskattstjóra á afhendingu upplýsinga um hlutafjáreign sem fram koma í fylgiskjölum með ársreikningum þessara fyrirtækja fyrir árið 2021 og afhent voru til ársreikningaskrár á grundvelli laga um ársreikninga, nr. 3/2006.
Endurupptökubeiðnin er rökstudd með vísan til þess að úrskurðarnefndin hafi ekki rannsakað nægjanlega lögskýringargögn og tilurð þeirra lagaákvæða sem byggt var á í málinu, og þannig ekki gætt að sjónarmiðum sem verulega þýðingu kunni að hafa við túlkun á ákvæðum laga um ársreikninga. Er meðal annars rakið að af lögskýringargögnum verði ráðið að einungis hagkvæmnissjónarmið hafi ráðið því að Alþingi hafi ákveðið að hluthafalista yfir alla hluthafa skyldi skilað með ársreikningi fremur en að hann kæmi fram í ársreikningum sjálfum. Vilji löggjafans hafi samt sem áður staðið til aukins gegnsæis, og ekki verði séð að nefndin hafi rannsakað og kynnt sér með fullnægjandi hætti eða fjallað efnislega um þau sjónarmið sem búi að baki þeim ákvæðum laga um ársreikninga sem á hafi reynt í málinu. Endurupptökubeiðnin er einnig rökstudd með vísan til þess að upplýsingar um hlutafjáreign verði ekki taldar til viðkvæmra upplýsinga í skilningi 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, og þá að úrskurðarnefndin hafi í úrskurði sínum ekki tekið tillit til þess að við rekstur fyrirtækjaskrár, og undirskráa hennar, sé ríkisskattstjóri í tilteknu hlutverki sem umsjónarmaður skrár, sem sé í eðli sínu gegnsæistæki.
Niðurstaða
Hér að framan var í meginatriðum lýst niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál í úrskurði nr. 1236/2024. Kemur þá til úrlausnar hvort fallist verði á endurupptöku málsins.
Í 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er mælt fyrir um endurupptöku stjórnsýslumáls:
Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:
- ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
- íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.
Ekkert bendir til að úrskurður nefndarinnar hafi byggst á röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik hafi breyst frá því að ákvörðun var tekin. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál eru skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga fyrir endurupptöku máls því ekki uppfyllt.
Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir atvikum að vera rétt og heimilt að endurupptaka mál á ólögfestum grundvelli. Í því tilviki sem hér um ræðir veltur skylda til slíkrar endurupptöku, að mati nefndarinnar, á því að rökstuddar vísbendingar séu um að á úrskurði hennar séu verulegir annmarkar að lögum. Úrskurðarnefndin telur röksemdir kæranda ekki leiða í ljós slíkar vísbendingar. Lögskýringargögn sem kærandi vísar til lágu eðli málsins samkvæmt öll fyrir þegar úrskurðurinn var unninn enda þótt þeirra sé ekki allra getið í rökstuðningi. Þótt rökstuðningur nefndarinnar í úrskurði nr. 1236/2024 sé stuttur þá er hann fram settur í samræmi við lög og að mati nefndarinnar ekki háður annmörkum. Eru þar með ekki heldur skilyrði til endurupptöku málsins á ólögfestum grundvelli.
Með vísan til framangreinds er hafnað beiðni um endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 1236/2024 frá 19. desember 2024.
Úrskurðarorð
Beiðni […], dags. 18. mars 2025, um endurupptöku máls ÚNU 24050021 sem lauk með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 1236/2024, frá 19. desember 2024, er hafnað.
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir