Hoppa yfir valmynd
13. mars 2009 Innviðaráðuneytið

Fjallað verði um sameiningu sveitarfélaga á Alþingi

Efling sveitarfélaga var meðal umfjöllunarefna Kristjáns L. Möller samgönguráðherra þegar hann flutti ávarp við setningu landsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga í dag. Ráðherrann setti fram þá hugmynd að Alþingi myndi ákveða sameiningarkosti með samráði við sveitarfélög að fengnum tillögum starfshóps fulltrúa stjórnvalda og sveitarfélaga.

Frá landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga
Frá landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Halldór Halldórsson og Kristján L. Möller.

Ráðherra sveitarstjórnarmála fór yfir ýmis málefni sem unnið er að í samgönguráðuneytinu. Nefndi hann skipan nefndar fulltrúa allra stjórnmálaflokka á Alþingi, Sambands ísl. sveitarfélaga og samgönguráðuneytis sem leggja ætti fram tillögur um tekjutilfærslu til sveitarfélaga í tengslum við flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Flosi Eiríksson, bæjarfulltrúi í Kópavogi, stýrir þeirri nefnd. Einnig gat ráðherra um skipan starfshóps um það verkefni að leggja fram tillögur um aðgerðir stjórnvalda til að jafna betur stöðu kynjanna í sveitarstjórnum. Kvaðst hann telja það æskilegt markmið að hlutfall kvenna og karla í sveitarstjórnum verði sem næst 50% á landsvísu við sveitarstjórnarkosningar á næsta ári.

Frumvarp um Bjargráðasjóð á Alþingi

Þá sagði ráðherra að lagafrumvarp um Bjargráðasjóð væri komið til afgreiðslu á Alþingi. Þar er lagt til að sveitarfélögin hætti aðkomu sinni að sjóðnum og fái greiddan út eignarhluta sinn, sem er allt að 250 milljónir króna. Jafnframt fellur niður skylda sveitarfélaga til að borga til sjóðsins frá og með þessu ári, sem er allt að 50 milljónir króna á ári.

Undir lok ræðunnar ræddi samgönguráðherra um eflingu sveitarfélaga og sagði meðal annars:

,,Á aðalfundum landshlutasamtaka sveitarfélaga á liðnu hausti og víðar hef ég talað fyrir því að brýnt sé að hækka lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga. Hef ég sett fram íbúafjöldann eitt þúsund í stað 50 eins og nú er enda sér það hvert mannsbarn að rekstrareining með 50 íbúum er ekki burðug.

Frumvarp var lagt fyrir þingflokkanna í október eða nóvember og átti síðan að fara sína leið á Alþingi en málið hafði ekki verið afgreitt þegar skipt var um ríkisstjórn. Kemst það ekki á dagskrá nú þegar önnur mál er varða efnahag og aðgerðir hafa forgang. En ég fagna þeim sameiningarviðræðum sem nú eru hafnar, meðal annars milli Grímseyjar og Akureyrar, Djúpavogs og Fljótsdalshéraðs og ánægjulegt var að heyra áðan af áhuga á sameiningu Bolungarvíkur, Ísafjarðarbæjar og Súðavíkur.

Það er bjargföst skoðun mín, að ef ætlunin er að efla sveitarstjórnarstigið með auknum verkefnum og breytingum á tekjustofnum verður ekki hjá því komist að huga að stærð sveitarfélaganna. Núverandi sveitarstjórnarskipan er alvarleg hindrun fyrir því að við getum náð markmiðum um að efla sveitarstjórnarstigið, sem við erum öll sammála um og þið sveitarstjórnarmenn hafið margsinnis ályktað um.

Það er eins með þetta eins og Evrópumálin, við getum ekki haldið áfram að ræða hvað sé mikilvægt að gera eitthvað, en láta svo þar við sitja. Við verðum að taka ákveðin skref í sameiningarmálum. Leið frjálsra sameininga er ekki fær eða í besta falli of seinfær, það höfum við fengið að sjá, aðrar leiðir verður að fara.

Mig langar til þess að nota tækifærið hér, kæru sveitarstjórnarmenn, og bera undir ykkur þann valkost, að í stað þess að reynt verði að ná fram sameiningu með hækkun lágmarksíbúafjölda verði farin sú leið að skoða hvert landsvæði fyrir sig og meta þá sameiningarkosti sem þar koma til greina.

Til þessa verkefnis yrði settur starfshópur skipaður fulltrúum Sambandsins og ríkis sem auk sérfræðinga myndi þannig skoða hvern landshluta fyrir sig, setja fram tillögur um raunhæfa sameiningarkosti sem ná markmiði um heildstætt atvinnu- og þjónustusvæði, og eru jafnframt liður í að styrkja og efla sveitarstjórnarstigið. Jafnframt yrði metið hvort og þá hvaða aðrar aðgerðir þyrftu að eiga sér stað sem stuðlað gætu enn frekar að samþættingu og eflingu viðkomandi byggðarlags, svo sem á sviði samgangna, fjarskipta eða í byggðalegu tilliti. Íbúafjöldinn sem slíkur verður þá í öðru sæti eða með öðrum orðum við hengjum okkur ekki í þúsund eða 500 íbúa lágmark heldur horfum til áðurnefndra atriða fyrst og fremst.”

Sama verkefnið – önnur aðferð

,,Þegar tillögur liggja fyrir myndi ég leggja málið fyrir Alþingi til frekari afgreiðslu. Þar koma til greina tvær leiðir. Annars vegar að leggja fram tillögu til þingsályktunar sem byggð verður á tillögum starfshópsins. Með samþykkt hennar yrði samgönguráðuneytinu falið að leggja fram frumvarp um ákveðnar sameiningar eða stækkanir sveitarfélaga og næsta þing myndi síðan fjalla um frumvarpið sjálft. Við meðferð Alþingis yrði síðan leitað álits sveitarfélaga.

Hin leiðin væri sú að leggja strax fram frumvarp um sameiningartillögur og að afgreiðsla þess á Alþingi yrði tekin í einu skrefi. Þar með væri settur fram vilji stjórnvalda um eins konar sameiningaráætlun með tímasetningu og fjárhagsáætlun.

Báðar snúast þessar hugmyndir um það að hið æðsta lýðræðislega kjörna vald ákveði hvernig háttað yrði stækkun og eflingu sveitarfélaga landsins, sem ég sé fyrir mér að geti gerst frá og með almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2014.

Þessi leið til sameiningar hefur verið farin m.a. á Norðurlöndum, nú síðast í Grænlandi þar sem sveitarfélögum er fækkað úr 18 í 4.

Ég leyfi mér að slá þessu fram hér – þetta er í rauninni sama verkefnið, stækkun og efling sveitarfélaga en aðferðafræðin er önnur.”

Ávarp samgönguráðherra í heild.


 Frá landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga      
Kristján L. Möller samgönguráðherra flutti ávarp við setningu landsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga.      

 Frá landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga      
       

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum