Hoppa yfir valmynd
8. mars 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 594/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 594/2022

Miðvikudaginn 8. mars 2023

A

v/B

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 15. desember 2022, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 7. desember 2022 þar sem sonur kæranda, B, var í umönnunarmati metinn til 4. flokks, 25% greiðslur, fyrir tímabilið 1. október 2022 til 30. september 2025.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um umönnunarmat, dags. 7. desember 2022, var umönnun sonar kæranda felld undir 4. flokk, 25% greiðslur, fyrir tímabilið 1. október 2022 til 30. september 2025.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. desember 2022. Með bréfi, dags. 20. desember 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 9. janúar 2023, barst greinargerð Tryggingastofnunar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. janúar 2023. Athugasemdir bárust frá kæranda, dags. 16. janúar 2023, og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi samdægurs. Viðbótargreinargerð barst með bréfi, dags. 3. febrúar 2023, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 6. febrúar 2023. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

 

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að Tryggingastofnun ríkisins hafi í umönnunarmati metið son kæranda til 4. flokks, með 25% hlutfall. Þeir sem komi að máli sonar hennar séu sammála um að erfiðleikar drengsins séu meiri en sem því nemi og því ætti hann að vera metinn með hærra hlutfall. Mælitala vitsmunastarfs hans sé 62. Almennt þurfi tveir aðilar að sjá um drenginn. Kærandi fari fram á að sonur hennar verði metinn með hærra hlutfall.

Í athugasemd kæranda, dags. 16. janúar 2023, komi fram að kærandi geri alvarlegar athugasemdir við greinargerð Tryggingastofnunar. Ljóst sé að stofnunin hafi ekki lesið gögn málsins. Drengurinn þurfi stöðuga gæslu í daglegu lífi.

Forsaga málsins sé sú að kærandi hafi skilað inn umsókn um umönnunarmat í lok ágúst 2022. Skömmu eftir það hafi henni borist bráðabirgðaniðurstöður úr endurmati á greiningu frá Þjónustumiðstöð Suður, vottað af C, yfirsálfræðingi á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Kærandi hafi þurft að bíða eftir endanlegri niðurstöðu. Því hafi hún hringt og beðið um að umsóknin yrði felld niður svo að hún gæti sent inn nýja. Þess í stað hafi henni verið ráðlagt að uppfæra umsóknina á netinu. Þegar kærandi hafi reynt að uppfæra umsóknina hafi komið í ljós að hún hafi ekki getað ekki uppfært greinargerð á netinu heldur þurft að senda inn nýja umsókn með þeirri gömlu. Í kjölfarið hafi kærandi sent inn nýja umsókn með þeirri gömlu og hafi starfsfólk Tryggingastofnunar verið upplýst um það.

Í greinargerð Tryggingastofnunar komi fram að stofnunin hafi farið yfir læknisvottorð, vottað af D barnageðlækni, dags. 23. ágúst 2022. Tryggingastofnun hafi ekki farið yfir meðfylgjandi skýrslur C, dags. 22. júní 2022, um sálfræðiathugun þótt hún hafi fylgt með gögnum máls. Í sálfræðiathuguninni komi fram að mælitala vitsmunastarfs drengsins sé 62, 100 sé eðlilegt, 85 teljist lágt, 115 teljist hátt og almennt viðmið fyrir grunnskóla sé 70. Þar að auki sé vísað í umsókn foreldris, dags. 30. ágúst 2022, en ekki uppfærða umsókn, dags. 29. nóvember 2022. Jafnframt vísi stofnunin í greinargerð móður, dags. 30. ágúst 2022, en ekki uppfærða greinargerð, dags. 29. nóvember 2022.

Starfsfólk Tryggingastofnunar hafi ráðlagt kæranda hvernig uppfæra skyldi umsóknina og hafi verið meðvitað um ný gögn í málinu. Kærandi óski eftir endurmati á innsendri umsókn, dags. 29. nóvember 2022, ásamt innsendum gögnum.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar um umönnunarmat.

Ágreiningur málsins lúti að þeim flokki sem ákveðinn sé í umönnunarmatinu. Sonur kæranda hafi verið metinn til 4. flokks, sem sé 25% hlutfall, fyrir tímabilið 1. október 2022 til 10. september 2025. Kærandi fari fram á hærra hlutfall.

Umönnunargreiðslur séu fjárhagsleg aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna sem byggist á heimild í 4. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007. Nánar sé rætt um heimildir og skilyrði greiðslna í reglugerð nr. 504/1997 um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna, með síðari breytingum.

Í lagaákvæðinu og í 1. gr. reglugerðarinnar sé það gert að skilyrði fyrir fjárhagslegri aðstoð frá Tryggingastofnun að barn sé haldið sjúkdómi eða andlegri eða líkamlegri hömlun og að sjúkdómur eða andleg eða líkamleg hömlun hafi í för með sér sannanleg, tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu.

Í 5. gr. reglugerðarinnar sé skilgreining á fötlunar- og sjúkdómsstigum. Þar sé tilgreint að fara skuli fram flokkun á erfiðleikum barna út frá umönnun, gæslu og útgjöldum, annars vegar vegna barna með fötlun og þroska- og atferlisraskanir, tafla I, og hins vegar vegna sjúkra barna með langvinn veikindi.

Í máli kæranda sé um að ræða umönnun, gæslu og útgjöld vegna fatlaðra barna og barna með þroska- og atferlisraskanir. Til 4. flokks séu þau börn metin sem séu með alvarlegar þroskaraskanir og/eða atferlisraskanir, sem jafna megi við fötlun eða geðræna sjúkdóma og krefjist þjálfunar eftirlits sérfræðinga og aðstoðar í skóla og á heimili og meðal jafnaldra. Til 3. flokks séu þau börn metin sem vegna fötlunar þurfi aðstoð og gæslu í daglegu lífi, til dæmis vegna vægrar þroskahömlunar, hreyfihömlunar, sem krefjist notkunar spelka og/eða hækja við ferli, heyrnarskerðingar, sem krefjist notkunar heyrnattækja í bæði eyru, og verulegar sjónskerðingar á báðum augum. Þessi flokkun reglugerðarinnar, ásamt fyrirliggjandi gögnum, sé notuð þegar umönnunarmat sé ákvarðað af sérfræðingum Tryggingastofnunar.

Í umsókn kæranda, dags. 30. ágúst 2022, komi fram að drengurinn þurfi stöðuga athygli fullorðins aðila og heima fyrir þurfi foreldri sífellt að vera til staðar svo að hann finni fyrir öryggi. Hann eigi erfitt með að treysta fullorðnum en þurfi stöðuga athygli. Í greinargerð kæranda, dags. 30. ágúst 2022, komi fram að drengnum hafi verið seinkað í skóla um eitt ár vegna skorts á félagsþroska og að skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hafi samþykkt að farteymi sé varanlega í teymi drengsins. Auk þess sé búið að sækja um fyrir hann á barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Fram komi að hann hafi verið sendur heim úr sumarvistun á frístundaheimili og óvíst sé hvort hann verði samþykktur þar inn vegna manneklu.

Þau gögn, sem hafi legið til grundvallar umönnunarmati og hafi verið skoðuðu af sérfræðingum Tryggingastofnunar áður en ákvörðun hafi verið tekin og yfirfarin, séu læknisvottorð, umsókn foreldris og greinargerð foreldris.

Í samræmi við áðurnefnda lagagrein og reglugerð hafi þótt viðeigandi að fella umönnun, gæslu og útgjöld vegna barnsins undir mat samkvæmt 4. flokki, 25% greiðslur, enda falli þar undir börn sem séu með alvarlegar þroskaraskanir og/eða atferlisraskanir sem jafna megi við fötlun eða geðræna sjúkdóma og krefjist þjálfunar, meðferðar í heimahúsi, eftirlits sérfræðinga, aðstoðar í skóla, á heimili og meðal jafnaldra.

Ljóst sé að drengurinn glími við mikla hegðunarerfiðleika, en að hann falli engu að síður ekki undir mat samkvæmt hærri umönnunarflokki. Vandi hans sé þannig að hann þurfi meiri umönnun foreldra en eðlilegt geti talist, meðferð, þjálfun og aðkomu sérfræðinga, en litið sé svo á að með umönnunarmati samkvæmt 4. flokki sé komið til móts við aukna umönnun og kostnað vegna meðferðar sem sonur kæranda þurfi á að halda. Rétt sé að benda á að greiðslur til kæranda samkvæmt 4. flokki hafi verið veittar frá 1. desember 2019.

Tryggingastofnun leggi áherslu á að mál séu metin af sérfræðingum stofnunarinnar sem skoði þau og meti út frá fyrirliggjandi gögnum í samræmi við áðurnefnd lög og reglugerð. Stofnunin árétti að í samræmi við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, beri Tryggingastofnun skylda til að gæta þess að sambærileg mál njóti sambærilegrar meðferðar. Því líti sérfræðingar stofnunarinnar í hvívetna til úrlausnar í fyrri málum af sama toga til þess að jafnræðis og sanngirnis sé gætt.

Niðurstaða Tryggingastofnunar sé sú að afgreiðsla á umsókn kæranda sé rétt. Sú niðurstaða sé byggð á faglegum sjónarmiðum sem eigi stoð í gildandi lögum og reglum. Stofnunin fari fram á staðfestingu á umönnunarmatinu frá 7. desember 2022.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar, dags. 3. febrúar 2023, kemur fram að stofnunin biðjist velvirðingar á því að hafa vísað til fyrri umsóknar kæranda frá 30. ágúst 2022 í stað þess að vísa í nýjustu umsókn kæranda frá 29. nóvember 2022. Ástæðu þess megi rekja til þess að viss skjöl í málinu hafi verið skráð á kennitölu foreldris í kerfi Tryggingastofnunar í stað þess að vera skráð á kennitölu barnsins. Í kjölfar þessara mistaka hafi kerfisskráning verið yfirfarin.

Sérfræðingar Tryggingastofnunar hafi af þessu tilefni farið yfir öll gögn málsins að nýju með sérstakri áherslu á skýrslu C, dags. 22. júní 2022, um sálfræðiathugun og greinargerð móður sem hafi fylgt umsókninni frá 29. nóvember 2022. Niðurstaða athugunar sérfræðinga á færnisviði stofnunarinnar, meðal annars læknis og iðjuþjálfara, sé sú að gögn málsins gefi ekki tilefni til breytinga á fyrra mati.

Sérfæðingar Tryggingastofnunar telji að einungis sé heimilt að gera mat samkvæmt hærri umönnunarflokki þegar fyrir liggi að fram hafi farið þverfagleg athugun með viðurkenndum prófum og að slík athugun leiði í ljós með óyggjandi hætti að skilyrði fyrir hærri umönnunarflokki séu uppfyllt.

Tryggingastofnun telji ekki útilokað að frekara mat fagaðila innan heilbrigðiskerfisins leiði til þess að skilyrði 35% hlutfalls 3. flokks umönnunarmats teljist vera fyrir hendi, þannig að umönnunargreiðslur hækki. Stofnunin bendi á að kærandi geti sótt um að nýju þegar frekari gagna hafi verið aflað sem styðji það að kærandi falli undir hærra greiðslustig í umönnunarmati.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 7. desember 2022 þar sem umönnun sonar kæranda var metin til 4. flokks, 25% greiðslur, fyrir tímabilið 1. október 2022 til 30. september 2025.

Ákvæði um umönnunargreiðslur er að finna í 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Segir í 1. mgr. þeirrar lagagreinar að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hafi í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Þá sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda barna með alvarleg þroskafrávik, sem jafna megi við fötlun, og barna með alvarleg hegðunarvandamál sem jafna megi við geðræna sjúkdóma.

Í 3. mgr. 4. gr. laga um félagslega aðstoð segir að Tryggingastofnun ríkisins meti þörf samkvæmt ákvæðinu og í 4. mgr. sömu greinar segir að ráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar. Gildandi reglugerð um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna er nr. 504/1997, ásamt síðari breytingum.

Í 5. gr. reglugerðarinnar er mælt fyrir um fimm mismunandi flokka vegna langveikra barna og fimm flokka vegna fatlaðra barna og barna með þroska- og atferlisraskanir. Alvarlegustu tilvikin falla í 1. flokk en þau vægustu í 5. flokk. Vegna þeirra barna sem falla í 5. flokk eru gefin út skírteini til lækkunar lyfja- og lækniskostnaðar en ekki eru greiddar sérstakar mánaðarlegar greiðslur, en það er gert vegna annarra flokka og fara þær greiðslur stighækkandi.

Í reglugerðinni er um að ræða tvenns konar flokkanir, annars vegar vegna umönnunar, gæslu og útgjalda vegna fatlaðra barna og barna með þroska- og atferlisraskanir, tafla I, og hins vegar vegna umönnunar, gæslu og útgjalda vegna langveikra barna, tafla II.

Um fyrri tegund flokkunar, þ.e. vegna umönnunar, gæslu og útgjalda vegna fatlaðra barna og barna með þroska- og atferlisraskanir, segir um 3. og 4. flokk:

„fl. 3.     Börn, sem vegna fötlunar þurfa aðstoð og gæslu í daglegu lífi t.d. vegna vægrar þroskahömlunar, hreyfihömlunar, sem krefst notkunar spelka og/eða hækja við ferli, heyrnarskerðingar, sem krefst notkunar heyrnartækja í bæði eyru, og verulegrar sjónskerðingar á báðum augum.

fl. 4.     Börn með alvarlegar þroskaraskanir og/eða atferlisraskanir, sem jafna má við fötlun eða geðræna sjúkdóma og krefjast þjálfunar og eftirlits sérfræðinga og aðstoðar í skóla og á heimili og meðal jafnaldra.“

Í umsókn kæranda um umönnunarmat frá 29. nóvember 2022, kemur fram í lýsingu á sérstakri umönnun eða gæslu að drengurinn þurfi stöðuga athygli fullorðins einstaklings. Reykjavíkurborg hafi samþykkt vorið 2022 að ráða inn tvo stuðningsfulltrúa fyrir hann í skóla og tvo starfsmenn í frístundaheimilið, eingöngu fyrir hann. Drengurinn geti með engu móti verið einn í skóla eða á frístundaheimili. Frístundaheimilið glími við manneklu svo að hann fái ekki þar inn og óvíst sé hvort það verði veturinn 2022. Heima fyrir þurfi foreldri sífellt að vera til staðar svo að drengurinn finni fyrir öryggi. Sé hann ekki undir stöðugu eftirliti, verði hann óöruggur og beiti börn og fullorðna ofbeldi eða komi sér í hættu með því að stinga af og fara sér að voða. Drengurinn fari til dæmis inn í ólæsta bíla, fari inn í bakgarða og inn í hús hjá ókunnugu fólki. Hann eigi mjög erfitt með að treysta fullorðnum og það hafi reynst kæranda erfitt að finna barnapíu sem hann sætti sig við. Drengurinn reyni á barnapíurnar með öllum ráðum og flestar hafi gefist upp. Bakland kæranda og sonar hennar sé ekki stórt og ættingjar vilji fæstir taka drenginn til sín, til dæmis yfir nótt, til að létta á kæranda. Hún eigi tvö önnur börn, sem þurfi einnig mikla athygli, svo að álagið sé mikið.

Einnig liggur fyrir greinargerð með umsókn kæranda, 29. nóvember 2022.

Í fyrirliggjandi læknisvottorði D, dags. 23. ágúst 2022, eru eftirfarandi sjúkdómsgreiningar drengsins tilgreindar:

„Disinhibited attachment disorder of childhood

Disturbance of activity and attention

Oppositional defiant disorder

Adjustment disorder“

Sjúkrasögu drengsins er lýst svo í vottorðinu:

„B er ættleiddur frá E. Kom til foreldra sinna 3,5 ára að aldri. Hafði verið áður á barnaheimili fram að ættleiðingu og hefur hugsanlega glímt við vanrækslu og vanörvun þar sem allir þroska áfangar komu seint og hann sýndi einnig talsverða sjálfsörvandi hegðun. Hefur verið seinn til máls og lengi glímt við tjáningaerfiðleika. Er tvítyngdur en íslenska er fyrsta mál. Hreyfiþroski hefur einnig verið seinkaður. Tengslaröskunareinkenni komu fram snemma á leikskólaaldri. Þverfagleg athugun fór fram hjá G í febrúar 2020, með vitsmunaþroskamat, spurningalista, greinngarviðtöl og læknisskoðun, sem sýndi seinkun í þroska, ADHD og tengslaröskun.“

Um núverandi stöðu segir í vottorðinu:

„Greiningarviðtal fór fram í desember 2020. Hans erfiðleikar uppfylltu greiningarviðmið fyrir tengslaröskun, ofvirknisröskun, mótþróaþrjóskuröskun og einnig streituröskun. Drengurinn glímir við hamlandi skap og hegðunarerfiðleika og einnig hamlandi langvarandi kvíða og streitueinkenni. Nokkur alvarleg hegðunareinkenni til staðar, ásamt hamlandi ADHD einkennum, bæði heima og í skólanum. Ákveðið var að hefja lyfjameðferð með methylphenidate í eftirliti undirritaðs, en hann fékk miklar aukaverkanir. Strattera reynist ófullnægjandi. Ákveðið núna er að hefja lyfjameðferð með Intuniv.

Í sumar 2021 skildu foreldrar; mjög erfiður skilnaður sem er viðbótar áfall fyrir strákana. Móðir orðin einstæð, sinnir ein strákunum. Mikil umönnunarþörf. Óskað er eftir umönnunarbætur fyrir þessa fjölskyldu með 3 erfiðum ættleiddum strákum.“

Fyrir liggur sálfræðiathugun C sálfræðings, dags. 22. júní 2022. Um samantekt á niðurstöðu segir:

„B er tæplega X ára drengur sem vísað er í endurmat á vitsmunaþroska á Þjónustumiðstöð Suður hjá Reykjavíkurborg. Áhyggjur skóla hverfast í kringum það að B nær ekki að tileinka sér aðstæður eins og að vera með skólafélögum í skólastofu, matsal og í frímínútum án þess að missa stjórn á hegðun sinni. Þegar hann missir stjórn á hegðun sinni þá ógnar hann samnemendum og/eða beitir ofbeldi.

Frammistaða B hjá WISC þroskamati var slök og átti hann erfitt með að vinna verkefnin, hann var mikið á iði og hafði lítið úthald.

Frammistaða B var slök á Málstarfi (72 stig), mjög slök á Skynhugsun (64 stig) og var Vinnsluhraði hægur (70 stig). Ekki var hægt að búa til undirþáttinn Vinnsluminni þar sem að B kláraði bara undirprófið Talnaraðir (1 stig). Ekki er mælt með að nota Heildartölu greindar þar sem að ekki náðist að reikna út frammistöðu á undirþættinum Vinnsluminni. Þess í stað er notast við Mælitölu vitsmunastarfs sem er 62 og með 95% vissu er Mælitala vitsmunastarfs á bilinu 58-73. Miðað við jafnaldra er Mælitala vitsmunastarfs mjög slök og er um 1% barna á sama aldri með sömu Mælitölu vistmunastarfs og B. Samkvæmt svörum móður á Vineland aðlögunarfærniviðtali þá koma fram miklir erfiðleikar hjá B er lúta að Boðskiptum (72 stig), Athöfnum daglegs lífs (75 stig), Félagsaðlögun (70 stig) og Heildaraðlögunarfærni (71 stig).

Samkvæmt svörum móður og kennara á hegðunarmatslistum koma fram miklir erfiðleikar er lúta að virkni og athygli, tilfinningareinkennum, reiðivanda og félagslegu samspili.

Samkvæmt niðurstöðum K-SADS greiningarviðtals sem tekið var á G í upphafi árs 2020 þá uppfyllir B eftirfarandi greiningar:

F94.2 Afhömluð tengslaröskun

F90.8 ADHD með ríkjandi ofvirkni/hvatvísi

F81.9 Seinþroski.

B glímir við flókinn samsettan vanda og hefur fjölskyldan notið þjónustu Barnaverndar og er B á lyfjameðferð sem að D barna- og unglingageðlækni heldur utan um og er móðir í viðtölum hjá F sálfræðingi hjá G og áætlað er að B fari líka í viðtöl hjá F. Barnavernd Reykjavíkur (BV) hefur einnig verið inni í málum B og nýlega tilkynnti móðir sig sjálf til BV.

Þrátt fyrir þessi inngrip þá er mikill vandi enn til staðar hjá B og er mælt með tilvísun á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL).“

Af kæru fær úrskurðarnefnd ráðið að ágreiningur varði greiðsluflokk og greiðslustig. Í gildandi umönnunarmati var umönnun drengsins felld undir 4. flokk, 25% greiðslur. Í matinu segir að um sé að ræða barn sem þurfi umtalsverðan stuðning, þjálfun, lyfjameðferð og þétt eftirlit sérfræðinga. Til þess að falla undir mat samkvæmt 3. flokki, töflu I, þarf að vera um að ræða börn, sem vegna fötlunar þurfa aðstoð og gæslu í daglegu lífi, til dæmis vegna vægrar þroskahömlunar, hreyfihömlunar, sem krefst notkunar spelka og/eða hækja við ferli, heyrnarskerðingar, sem krefst notkunar heyrnartækja í bæði eyru, og verulegrar sjónskerðingar á báðum augum. Aftur á móti falla börn með alvarlegar þroskaraskanir og/eða atferlisraskanir, sem jafna má við fötlun eða geðræna sjúkdóma og krefjast þjálfunar og eftirlits sérfræðinga og aðstoðar í skóla og á heimili og meðal jafnaldra, undir 4. flokk í töflu I.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, horfir til þess að sonur kæranda hefur verið greindur með afhamlaða tengslaröskun í bernsku, truflun á virkni og athygli, mótþróaþrjóskuröskun og aðlögunarröskun. Með hliðsjón af framangreindu og heildstæðu mati á vandamálum sonar kæranda telur úrskurðarnefndin að umönnun drengsins hafi réttilega verið felld undir 4. flokk. Þá eru umönnunargreiðslur samkvæmt 4. flokki 25%.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 7. desember 2022, þar sem umönnun sonar kæranda var felld undir 4. flokk, 25% greiðslur.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins í máli A, um að fella umönnun vegna sonar hennar, B, undir 4. flokk, 25% greiðslur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum