Hoppa yfir valmynd
8. júní 2017 Utanríkisráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Alþjóðavæðing helsta umræðuefni tveggja daga ráðherrafundar OECD

Ráðherrafundur OECD - mynd
Tveggja daga ráðherrafundi Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) lauk í París í dag. Yfirskrift fundarins að þessu sinni, og jafnframt helsta umræðuefni, var alþjóðavæðingin og hvernig færa mætti ávinning hennar betur til almennings. Á fundinum var einnig fjallað um ástand og horfur í alþjóðlegum efnahagsmálum og kynnti Angel Gurría, framkvæmdastjóri OECD m.a. nýja efnahagsspá stofnunarinnar. Jafnframt var fjallað um þær áskoranir sem tengjast rafrænum viðskiptum og hvernig alþjóðaviðskipti og fjárfestingar geti bætt hag almennings. 

Að þessu sinni sat Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra fundinn. Hann var einn af aðalræðumönnum um hvernig hægt væri að bæta alþjóðavæðingu með jákvæðum reglugerðarbreytingum varðandi samkeppni og fjármagnsflæði. Samhliða ráðherrafundinum var undirritaður alþjóðlegur samningur  sem miðar að því að stemma stigu við skattaundandrætti og skattsvikum með misnotkun tvísköttunarsamninga og skrifaði fjármálaráðherra undir fyrir Íslands hönd. 

Innri málefni OECD voru einnig á dagskrá, einkum fjölgun aðildarríkja, en á ráðherrafundinum í fyrra var því beint til ráðs OECD, þar sem fastafulltrúarnir sitja, að undirbúa stefnumótun um stækkun stofnunarinnar. Á fundinum í ár var því haldinn sérstakur morgunverðarfundur um stækkunarmál og í innleggi sínu þar lagði Kristján Andri Stefánsson, sendiherra gagnvart Frakklandi og fastafulltrúi Íslands við OECD, áherslu á að stækkun OECD megi ekki verði til að draga úr þeim gæðum sem stofnunin stendur fyrir og miða að því að halda við opnu og gegnsæju markaðshagkerfi. 

Aðildarríki OECD eru nú 35 talsins. Lettland gerðist aðili að OECD á síðasta ári, og aðildarviðræður standa yfir við Kosta Ríka, Kólumbíu og Lettland. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum