Hoppa yfir valmynd
6. nóvember 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Stjórnsýslukæra - ákvörðun ríkisskattstjóra um útgreiðslu séreignarsparnaðar.

Lögmál ehf.
Sunna Magnúsdóttir
Skólavörðustíg 12
101 Reykjavík

Reykjavík 6. nóvember 2017
Tilv.: FJR17020018/16.2.1

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru yðar frá 1. febrúar sl., f.h. [A], þar sem kærð er ákvörðun ríkisskattstjóra frá 12. desember 2016, um að hafna umbjóðanda yðar um útgreiðslu séreignarsparnaðar frá júlí 2014 til maí 2016, til kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota.

Málavextir og málsástæður
Ákvörðun ríkisskattstjóra frá 12. desember 2016
Í ákvörðun ríkisskattstjóra greinir að ákvæði b-liðar 1. gr. laga nr. 40/2014, um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar, heimili úttekt á viðbótariðgjaldi vegna launagreiðslna sem greiddar hafa verið á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2017 og ráðstöfun til öflunar á íbúðarhúsnæði hafi rétthafi, eða aðili sem rétthafi uppfyllir skilyrði til samsköttunar með, ekki verið eigandi að íbúðarhúsnæði á því tímabili þegar heimildin er nýtt.

Fram kemur að samkvæmt skráningu í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands var fyrrverandi sambýlismaður kæranda eigandi að íbúðarhúsnæði á því tímabili sem um getur. Þá greinir að íbúðarhúsnæðið hafi verið nýtt til eigin nota fyrir kæranda og sambýlismann hennar og að kærandi hafi flutt lögheimili sitt þaðan hinn 16. maí 2016.

Af þeim sökum var fallist á útgreiðslu séreignarsparnaðar á tímabilinu maí til október 2016 en frá 31. október 2016 hafi kærandi verið skráður eigandi að íbúðarhúsnæði að [X].

Stjórnsýslukæra, dags. 1. febrúar 2017

Í kærunni er niðurstöðu ríkisskattstjóra mótmælt og hafnar kærandi því að hafa verið eigandi íbúðarhúsnæðis í skilningi 2. málsl. 1. mgr. b-liðar 1. gr. laga nr. 40/2014.

Fram kemur að kærandi hafi verið í sambúð sem hófst 6. febrúar 2009 en lauk 19. maí 2016. Sambýlismaður hennar hafi verið eigandi að íbúð að [X] en kærandi hafi aldrei verið eigandi að þeirri íbúð. Þá greinir að kærandi og sambýlismaður hennar hafi aldrei sótt um að vera samsköttuð skv. 3. mgr. 62. gr laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Í kærunni greinir að í lögum nr. 40/2014 komi hvergi fram að rétthafa sé ekki heimilt að nýta séreignarsparnað sem hann hefur áunnið sér meðan hann hefur verið í sambúð með maka sem á fasteign. Kærandi telji því túlkun ríkisskattstjóra ekki samrýmast beinni orðskýringu ákvæðisins.

Umsögn ríkisskattstjóra, dags. 9. ágúst 2017
Með bréfi, dags. 6. febrúar sl., óskaði ráðuneytið eftir umsögn ríkisskattstjóra um framkomna stjórnsýslukæru ásamt því að þau gögn sem málið kynnu að varða yrðu send ráðuneytinu. Umsögn barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 9. ágúst sl.

Í umsögn ríkisskattstjóra greinir að hinn 21. nóvember 2016 hafi kærandi sótt um útgreiðslu séreignarsparnaðar skv. b-lið 1. gr. laga nr. 40/2014, vegna kaupa á fasteign sem hún hafði fest kaup á 31. október 2016. Hinn 12. desember sl hafi ríkisskattstjóri fallist á útgreiðslu iðgjalda fyrir tímabilið maí 2016 til október 2016.

Fram kemur að lögheimili kæranda hafi verið skráð að [Y] frá 5. febrúar 2009 til 19. maí 2016, samkvæmt skráningu í Þjóðskrá Íslands. Þá greinir að kærandi hafi verði skráð í sambúð frá 6. febrúar 2009 til 19. maí 2016, með [B] sem var skráður eigandi íbúðarinnar að [Y]. Kærandi hafi því uppfyllt skilyrði til samsköttunar með þáverandi sambýlismanni sínum á tímabilinu 1. júlí 2014 til 19. maí 2016.

Að lokum vísar ríkisskattstjóri til þess að skv. a-lið 1. gr. laga nr. 40/2014 sé heimild til ráðstöfunar séreignarsparnaðar samanlagt að hámarki 750 þúsund krónur hjá einstaklingum sem uppfylla skilyrði samsköttunar skv. 3. mgr. 62. gr. tekjuskattslaga. Á þeim grundvelli sé aðilum sem uppfylla skilyrði samsköttunar heimilt að ráðstafa viðbótariðgjöldum sínum inn á lán á nafni sambýlisaðila óháð því hvort einstaklingurinn er skráður eigandi fasteignarinnar eður ei. Möguleiki aðila til að ráðstafa inn á lán sambýlisaðila girði því fyrir möguleika hans til að geta á sama tíma tekið út iðgjöld vegna kaupa á sínu nafni.

Umsögn kæranda, dags. 29. ágúst 2017
Með bréfi ráðuneytisins, dags. 25. ágúst 2017, var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um umsögn ríkisskattstjóra. Athugasemdir kæranda bárust ráðuneytinu með bréfi hinn 29. ágúst sl.

Í umsögninni er kemur fram að engar útskýringar séu að finna í umsögn ríkisskattstjóra um það hvernig það samræmist orðskýringu á ákvæðum 1. mgr. og 2. mgr. b-liðar 1. gr. laga nr. 40/2014, að hafna kæranda um útgreiðslu séreignasparnaðar á tímabilinu júlí 2014 til maí 2016. Kærandi hafi ekki verið eigandi að húsnæði á umræddu tímabili, hún hafi ekki verið samsköttuð með þáverandi sambýlismanni sínum og að hún hafi aldrei greitt af séreignarsparnaði sínum til húsnæðislána.

Forsendur og niðurstaða
Í máli þessu er deilt um hvort kærandi eigi rétt á að nýta uppsöfnuð viðbótariðgjöld á tímabilinu 1. júlí 2014 til maí 2016, í samræmi við ákvæði til bráðabirgða XVII í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sbr. b-lið 1. gr. laga nr. 40/2014, um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar, til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota.

Með lögum nr. 40/2014, sem fela í sér tímabundin skattfrjáls úrræði, er rétthöfum séreignarsparnaðar annars vegar heimiluð nýting á viðbótariðgjöldum til greiðslu inn á höfuðstól lána sem tekið eru vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota, sbr. 1. mgr. a-liðar 1. gr. laganna, og hins vegar er rétthöfum heimiluð úttekt á viðbótariðgjöldum, sem safnast hafa upp yfir tiltekið tímabil, til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota hafi rétthafi ekki verið skráður eigandi að íbúðarhúsnæði á því tímabili sem lögin mæla fyrir um, sbr. 1. mgr. b-liðar 1. gr. laganna.

Í máli því sem hér um ræðir var kærandi skráður í sambúð og með skráð lögheimili hjá þáverandi sambýlismanni sínum á því tímabili sem um ræðir. Fram hefur komið að þáverandi sambýlismaður kæranda hafi verið skráður eigandi íbúðarhúsnæðisins og að eingöngu hann hafi nýtt sér úrræði laga nr. 40/2014 á tímabilinu. Það sé því mat kæranda að þar sem hún hafi ekki ráðstafað viðbótariðgjöldum sínum, til greiðslu inn á höfuðstól lána sem hvíldu á íbúðarhúsnæðinu, eigi hún lögbundinn rétt á útgreiðslu uppsafnaðra iðgjalda vegna fasteignakaupa til eigin nota.

Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XVI í lögum nr. 129/1997, með síðari breytingum, er rétthöfum séreignarsparnaðar heimilt að nýta viðbótariðgjald, vegna launagreiðslna á tímabilinu 1. júlí 2014 til 30. júní 2019, til greiðslu inn á höfuðstól lána sem tekin eru vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Í 2. mgr. sömu greinar kemur fram að heimild til nýtingar á viðbótariðgjöldum á almanaksári sé mismunandi eftir því hvort um er að ræða einstakling, hjón eða einstaklinga, sem uppfylla skilyrði til samsköttunar. Þannig er í 1. máls. 2. mgr. kveðið á um að heimild einstaklings takmarkist við samanlagt að hámarki 500 þús. kr. á almanaksári og í 2. máls. greinir að heimild hjóna og einstaklinga, sem uppfylla skilyrði til samsköttunar skv. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, takmarkist við samanlagt að hámarki 750 þúsund kr. á almanaksári. Í þessu felst að hjónum og einstaklingum sem uppfylla skilyrði til samsköttunar er heimilt að ráðstafa hærri fjárhæð viðbótariðgjalda inn á fasteignveðlán en einstaklingum, sem ekki uppfylla skilyrði til samsköttunar. Heimildin gildir óháð því hvort einstaklingurinn er skráður eigandi fasteignarinnar líkt og gildir um rétt til útgreiðslu vaxtabóta af fasteignaveðlánum.

Með vísan til þess að skilyrði til samsköttunar var uppfyllt á því tímabili sem um ræðir var kæranda heimilt samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XVI í lögum nr. 129/1997, sbr. a-lið 1. gr. laga nr. 40/2014, að ráðstafa viðbótariðgjöldum til greiðslu inn á höfuðstól lána sem tekin voru vegna öflunar íbúðarhúsnæðis sem þáverandi sambýlismaður hennar var skráður eigandi að enda var íbúðarhúsnæðið til eigin nota þeirra beggja á tímabilinu. Af lögbundinni sameiginlegri heimild kæranda og þáverandi sambýlismanns hennar til að ráðstafa viðbótariðgjöldum inn á fasteignaveðlán vegna öflunar íbúðarhúsnæðis, á því tímabili sem um ræðir, leiðir að kærandi getur ekki síðar tekið út uppsöfnuð viðbótariðgjöld skv. ákvæði til bráðabirgða XVII laga nr. 129/1997, sbr. b-lið 1. gr. laga nr. 40/2014, fyrir sama tímabil vegna eigin fasteignakaupa. Þá telur ráðuneytið að einnig megi líta til þess að þar sem skilyrði til samsköttunar voru uppfyllt átti kærandi rétt á vaxtabótum fyrir það tímabil sem hér um ræðir sem og að heimild þáverandi sambúðarmanns kæranda til ráðstöfunar á viðbótariðgjöldum var hærri en hjá einstaklingum sem ekki uppfylltu skilyrði til samsköttunar. Það er því mat ráðuneytisins að staðfesta beri ákvörðun ríkisskattstjóra.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á afgreiðslu kærunnar.

Úrskurðarorð
Ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 12. desember sl., um að synja að hluta umsókn [A] um útgreiðslu séreignarsparnaðar vegna kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota, er staðfest.

Fyrir hönd ráðherra




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum