Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2005 Félagsmálaráðuneytið

Evrópuþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í Búdapest

7. Evrópuþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO)
7. Evrópuþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO)

Dagana 14.–18. febrúar 2005 var haldið 7. Evrópuþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO). Þingið var haldið í Búdapest í Ungverjalandi. Rúmlega 600 fulltrúar sátu þingið, þar af voru 30 ráðherrar vinnumála. Af 52 ríkjum sendu 50 fulltrúa til þingsins. Samkvæmt stofnskrá ILO skulu fulltrúar ríkisstjórna, atvinnurekenda og launafólks skipa sendinefndir aðildarríkjanna á þingum stofnunarinnar. Fulltrúar Íslands á þinginu voru Gylfi Kristinsson, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu, Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, og Hrafnhildur Stefánsdóttir, lögfræðingur Samtaka atvinnulífsins. Fjórir forsætisráðherrar tóku þátt í þinginu. Þeir voru Ferenc Gyurcsány, forsætisráðherra Ungverjalands, Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Luxemborgar, en hann er um þessar mundir í forsæti ráðherranefndar Evrópuráðsins, Danial Akhmetow, forsætisráðherra Kazkhstan, og dr. Lawrence Gonzi, forsætisráðherra Möltu.

Helstu viðfangsefni þingsins voru samráð stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins, bætt stjórnsýsla og aukin efnahagssamvinna ríkja Evrópu og Mið-Asíu. Einnig var fjallað um nýlega skýrslu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um áhrif alþjóðavæðingar á framvindu félags- og vinnumála, atvinnumál ungs fólks og stöðu miðaldra og eldri starfsmanna á vinnumarkaðnum.

Í niðurstöðum þingsins er lögð áhersla á að í alþjóðavæðingu efnahagslífsins felist ögrandi viðfangsefni fyrir aðildarríki ILO, fyrirtæki og launafólk í Evrópu og Mið-Asíu. Hvatt var til þess að sjónarmið verði samræmd þannig að hægt sé að mæta þeim viðfangsefnum sem við blasa á sviði félags- og vinnumála á markvissan hátt innan þess ramma sem grundvallarsamþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar setja.

Nánari upplýsingar er að finna á heimsíðu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

Hér er hægt að nálgast ræðu sem flutt var í nafni félagsmálaráðherra á þinginu.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira