Hoppa yfir valmynd
25. maí 2023

Mál nr. 155/2023 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 155/2023

Fimmtudaginn 25. maí 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 17. mars 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. nóvember 2022, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. nóvember 2022, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar þar sem hann hefði látið hjá líða að tilkynna stofnuninni um ástundun náms. Þá var kæranda tilkynnt að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. september til 24. október 2022 sem yrðu innheimtar samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 17. mars 2023. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 29. mars 2023, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í málinu. Athugasemdir bárust frá kæranda 11. apríl 2023. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. apríl 2023, var óskað eftir gögnum frá Vinnumálastofnun vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Umbeðin gögn bárust 28. apríl 2023.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála greinir kærandi frá því að mál hans varði synjun Vinnumálastofnunar á rétti hans til náms samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta. Kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur þann 25. apríl 2022 eftir samdrátt í fyrirtækinu sem hann hafi starfað hjá. Meðfram þeirri vinnu hafi kærandi verið í fjarnámi við Háskólann á Bifröst og lokið þaðan meistaranámi að lokaritgerð undanskilinni. Ástæðan fyrir því að ritgerðin hafi orðið eftir sé sú að þegar hann hafi ætlaði að skrifa ritgerðina hafi orðið fjölgun í fjölskyldunni og kaup á stærra húsnæði hafi fylgt í kjölfarið ásamt aukinni vinnu. Því hafi kærandi geymt ritgerðina.

Fljótlega eftir að kærandi hafi farið á atvinnuleysisbætur hafi hann haft samband við Háskólann á Bifröst og óskað eftir að fá að ljúka ritgerðinni og þar með útskrifast. Það myndi styrkja möguleika kæranda á vinnumarkaði og ritgerðin skrifuð heima fyrir og kæmi því ekki í veg fyrir möguleika hans á að sækja um störf eða stunda vinnu á sama tíma. Kærandi hafi ekki verið að sækja kúrsa eða verið í staðarnámi, enda námsleiðin ekki síst hugsuð fyrir þá sem vilji sækja sér framhaldsmenntun samhliða vinnu. Upphaflega hafi stefnan verið sett á námslán til þess að fjármagna ritgerðarskrif og hafi kærandi sótt um hjá Menntasjóði námsmanna. Kærandi hafi hins vegar fengið synjun um námslán þar sem námslínan hafi ekki verið lengur á námsskrá. Kærandi hafi því hringt í Vinnumálastofnun og fengið þau svör að miðað væri við einingar og því gæti hann ekki þegið atvinnuleysisbætur samhliða ritgerðarskrifum. Fyrst hafi kærandi fengið þau svör að hann hefði engu að síður einhvern tíma til þess að leita að fjármögnun til þess að klára ritgerðina. Kærandi þyrfti að skrá sig af atvinnuleysisbótum þegar það væri komið og hann gæti sannarlega verið í náminu (skrifað ritgerðina). Þá hafi hafist kapphlaup um að verða sér úti um fjármagn til þess að geta klárað námið. Eftir að hafa fengið loforð foreldra um fjárhagsaðstoð eins og hægt væri hafi kærandi hringt í Vinnumálastofnun og talað við mann sem hafi sagt að námið væri miðað við upphaf annar og kærandi því búinn að þiggja atvinnuleysisbætur samhliða námi. Svo hafi komið að því eftir samkeyrslu Vinnumálastofnunar við skólann að kærandi hafi verið rukkaður um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta, auk 15% álags.

Kærandi hafi miðað við að önnin yrði búin um miðjan desember og að þá gæti hann sótt aftur um atvinnuleysisbætur en eftir enn eitt samtalið við Vinnumálastofnun hafi honum verið tjáð að hann gæti ekki sótt um bætur aftur fyrr en vörn ritgerðar væri lokið. Vörnin hafi farið fram um miðjan febrúar og því um að ræða þrjá mánuði í viðbót sem kærandi hafi ekki getað sótt aftur um atvinnuleysisbætur. Kærandi hafi sótti um bætur aftur eftir vörn og þá fengið þau svör að vegna þess að hann hefði þegið atvinnuleysisbætur samhliða námi fengi hann ekki heldur bætur fyrstu tvo mánuðina eftir að umsókn væri samþykkt. Því gæti hann ekki fengið atvinnuleysisbætur aftur fyrr en í maímánuði. Á sama tíma hafi kærandi átt samtal við deildarforseta Bdeildar sem hafi orðið til þess að hann hafi haldið áfram námi og sé nú að stunda C í fjarnámi frá Háskólanum á Bifröst ásamt því að sækja um störf. Kærandi geri svo ráð fyrir að ljúka því námi samhliða vinnu líkt og hann hafi gert með fyrra námið. Þegar kærandi hafi haft samband við Vinnumálastofnun varðandi þetta nám hafi honum verið bent á að gera þyrfti skriflegan námssamning og það hafi verið í fyrsta sinn sem hann hafi heyrt um það. Það veki furðu kæranda að enginn af öllum þeim sem hann hafi talað við þar hafi bent á það áður. Þá sérstaklega konan sem kærandi hafi talað við fyrst. Þegar fólk missi vinnu eftir langa veru á vinnumarkaði þekki það almennt ekki vel reglur og skyldur varðandi atvinnuleysisbætur heldur treysti á þær upplýsingar sem það fái frá starfsfólki stofnunarinnar. Kærandi telji að þær upplýsingar sem hann hafi fengið varðandi sitt tilfelli séu afar sérstakar þar sem hann hafi fengið nýjar eða aðrar upplýsingar í hvert skipti sem hann hafi talað við nýjan starfsmann.

Um daginn hafi kærandi átt gott samtal við starfsmann hjá Vinnumálastofnun sem hafi sagt að miðað væri við almenna skólaönn en ekki við lok varnar, engin fordæmi væru fyrir slíku og að kærandi hafi fengið rangar upplýsingar frá Vinnumálastofnun um það. Að þessu sinni hafi kæranda verið sagt allt annað en það sem áður hafi verið sagt og hafi hann óskað eftir breytingu varðandi það hjá Vinnumálastofnun.

Samkvæmt 4. mgr. 52. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé heimilt að stunda nám sem sé skipulagt samhliða vinnu hindri námið hvorki virka atvinnuleit viðkomandi eða möguleika á þátttöku hans á vinnumarkaði. Kærandi hafi ítrekað tekið fram að nám það sem hann hafi stundað, sem og það nám sem hann stundi nú, myndi hvorugt gera, enda sé um að ræða nám sem hver nemandi geti tekið á þeim hraða sem honum henti og námið sé ekki síst hugsað fyrir þá sem vilji sækja sér framhaldsmenntun samhliða vinnu.

Kærandi hafi í samskiptum sínum við Vinnumálastofnun fengið mismunandi svör eftir því við hvern hann hafi talað, að undanskildum tveimur síðustu starfsmönnunum sem hafi unnið þar í annars vegar 15 ár og hins vegar 11 ár. Sá fyrrnefndi hafi bent benti kæranda á að ekki væri horft á einingar þegar um væri að ræða nám sem væri skilgreint samhliða vinnu, enda ætti námið ekki að valda truflun á atvinnuleysisbótum frekar en vinnu.

Kærandi óski eftir að farið verði yfir þetta ferli sem honum finnist verulega ósanngjarnt í sinn garð með misvísandi upplýsingum frá starfsmönnum Vinnumálastofnunar og jafnvel röngum samkvæmt þeirra eigin starfsfólki.

Í athugasemdum kæranda er vísað til þess að á heimasíðu Vinnumálastofnunar komi fram að nám á framhalds- eða háskólaskóla stigi, sem skilgreint sé sem nám samhliða vinnu, sé heimilt að stunda samhliða atvinnuleysisbótum, án þess að það hafi áhrif á rétt til atvinnuleysisbóta.

Haustið 2022 hafi kærandi haft möguleika á að klára lokaritgerð sína sem hann hafi þegið. Með því myndi kærandi fá háskólagráðu sem myndi opna fyrir hann nýja og fleiri möguleika á atvinnumarkaði. Kærandi hafi áður lokið öllu námi í fjarnámi með vinnu, að ritgerðinni frátalinni, enda námið skipulagt sem nám samhliða vinnu. Ritgerðina hafi kærandi geymt vegna fjölgunar í fjölskyldu á þeim tíma. Kærandi hafi sótt um námslán hjá Menntastofnun námsmanna en hafi verið synjað þar sem það nám sem hann hafi verið að ljúka hafi ekki lengur verið sem námsbraut. Þar sem kærandi hafi lítið vitað um það hvernig atvinnuleysisbætur virki hafi hann hringt í Vinnumálastofnun og fengið þær upplýsingar að honum væri ekki heimilt að stunda þetta nám samhliða atvinnuleysisbótum, þ.e.a.s. að skrifa lokaritgerð. Auk þess hafi kæranda þá verið sagt að ekki væri miðað við námsönn heldur væri miðað við þá dagsetningu sem hann gæti sannarlega hafið nám og hefði hann því einhvern tíma til þess að finna fjármögnun til þess að geta stundað námið, sem og hann hafi gert. Eftir námsmannasamkeyrslu hafi kæranda verið tjáð með bréfi að hann hefði þegið atvinnuleysisbætur samhliða námi og verið krafinn um endurgreiðslu ásamt 15% álagi, auk þess sem honum yrðu ekki greiddar atvinnuleysisbætur í tvo mánuði eftir að hann hefði rétt á þeim aftur.

Kærandi hafi hringt í Vinnumálastofnun og spurt hvort hann gæti skráð sig aftur á atvinnuleysisbætur í lok annar sem hafi þá verið um miðjan desember. Þá hafi kæranda verið sagt að miðað væri við lok varnar sem hafi verið þann 14. febrúar 2023. Kærandi hafi farið eftir því og þá skráð sig aftur á atvinnuleysisbætur.

Nú fyrir skemmstu hafi kærandi svo átt samtal við tvo starfsmenn Vinnumálastofnunnar sem hafi unnið þar annars vegar í 15 ár og hins vegar 11 ár og sá síðarnefndi verið lögfræðingur. Sá fyrri hafi sagt kæranda að ef nám væri skilgreint sem nám samhliða vinnu væri ekki horft til námseininga, enda ætti að vera hægt að stunda námið samhliða vinnu en skrifa þyrfti undir námssamning. Þetta hafi verið í fyrsta skipti sem kærandi hafi heyrt orðið námssamningur. Einnig hafi sá síðarnefndi sagt að miðað væri við skólaönnina en ekki lok varnar líkt og honum hafi áður verið sagt af starfsmanni Vinnumálastofnunnar. Engin fordæmi væru fyrir slíku og hann hafi fengið rangar upplýsingar um það frá starfsmanni Vinnumálastofnunnar.

Samkvæmt framansögðu hafi kærandi því fengið rangar upplýsingar í byrjun þar sem það nám sem hann hafi verið að ljúka sé skilgreint sem nám með vinnu og því hefði honum átt að vera bent á að skrifa undir námssamning. Ef horft væri til einingafjölda, sem sé víst ekki gert í tilfellum sem þessum, hefði verið lítið mál að skipta skrifum lokaritgerðar á tvær annir sem hann hefði þá vitaskuld gert. Auk þess hafi kæranda verið gefnar rangar upplýsingar um lok námsannar en samkvæmt því hafi hann átt rétt á atvinnuleysisbótum í lok hefðbundinnar annar en ekki um miðjan febrúar. Í tilfelli kæranda hafi verið miðað við byrjun annar þótt hann hafi sannarlega ekki hafið nám fyrr en um mánuði síðar en miðað við lok annar tveimur mánuðum eftir lok námsannar sem sé afar sérstakt. Ef miða ætti við lok annar eftir lok varnar hefði vitaskuld átt að miða við upphaf annar þegar hann hafi hafið skrif sem hafi verið um mánuði eftir byrjun annarinnar. Kærandi hafi sent staðfestingu á því að hann hafi ekki byrjað námið fyrr en 19. september en því hafi verið hafnað.

Eitt aðalhlutverk atvinnuleysistrygginga sé að tryggja einstaklingum sem hafi verið virkir á vinnumarkaði en missi starf sitt, framfærslu þann tíma sem taki að finna nýtt starf. Það sé gríðarlega íþyngjandi aðgerð að hafna þeim sem hafi áunnið sér rétt til framfærslu vegna starfsmissis greiðslu atvinnuleysisbóta. Með því sé fótunum kippt undan viðkomandi varðandi möguleika á að framfleyta sér og fjölskyldu sinni á meðan atvinnuleit standi yfir. Í tilfelli kæranda hafi það verið gert og það vegna rangra upplýsinga frá starfsfólki Vinnumálastofnunnar.

Miðað við síðustu upplýsingar hafi kæranda verið synjað um atvinnuleysisbætur samhliða námi sem skilgreint sé sem nám samhliða vinnu. Miðað við nýjustu upplýsingar frá starfsmanni Vinnumálastofnunar sé ekki horft til fjölda eininga þegar um slíkt nám sé að ræða, enda hindri það hvorki virka atvinnuleit né möguleika á þátttöku á vinnumarkaði, sbr. 4. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ef horft væri til einingafjölda í slíku námi sé einnig möguleiki að skipta því niður á tvær annir og vera þar með undir einingaviðmiðum.

Kæranda hafi verið tjáð af starfsmanni Vinnumálastofnunnar að miðað væri við lok varnar ritgerðar sem hafi farið fram tveimur mánuðum eftir skil. Miðað við nýjustu upplýsingar frá lögfræðingi hjá Vinnumálastofnun með 11 ára starfsreynslu sé ekki fordæmi fyrir slíku og miðað sé við námsönn. Þar með hafi réttur kæranda til atvinnuleysisbóta í mars og apríl verið tekinn af honum með röngum upplýsingum frá starfsfólki Vinnumálastofnunnar. Kærandi hafi óskað eftir breytingu á umsókn miðað við nýjar upplýsingar en því hafi verið hafnað.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga beri stjórnvaldi að veita þeim sem til þess leiti nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerti starfssvið þess. Kærandi vilji meina að slíkt hafi ekki verið gert í hans tilfelli. Starfsmaður Vinnumálastofnunar hafi nýlega bent kæranda á að líklega hafi hann lent á nýjum eða nýlegum starfsmanni í fyrsta símtali sem hafi leiðbent honum ranglega um að ekki væri heimilt að stunda námið samhliða atvinnuleysisbótum. Auk þess sem starfsmaðurinn hafi sagt kæranda að hann hefði tíma til þess að leita að fjármögnun áður en hann myndi skrá sig af atvinnuleysisbótum líkt og hann hafi gert. Kærandi hafi skráð sig af atvinnuleysisbótum þegar hann hafi fengið loforð foreldra um fjárhagsaðstoð eins og hægt væri sem gæfi honum kost á að ljúka skrifum.

Í samskiptum kæranda við Vinnumálastofnun hafi hann fengið misvísandi og rangar upplýsingar í fjölda skipta og virðist sem það fari nánast eftir því við hvern sé talað í hvert skipti.  Kærandi telji því að það séu veigamiklar ástæður fyrir hendi með nýjum upplýsingum til þess að kæran verði tekin til meðferðar, þrátt fyrir að kærufrestur hafi verið liðinn. Misvísandi og rangar upplýsingar frá Vinnumálastofnun hafi haft gríðarlega íþyngjandi áhrif á kæranda og hans fjölskyldu sem hefði verið hægt að komast hjá með réttum upplýsingum í byrjun og á leiðinni.

III.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 15. nóvember 2022 um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 15. nóbember 2022, en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, móttekinni 17. mars 2023. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að kæranda var í hinni kærðu ákvörðun leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Kæranda var veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hann að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, gætu átt við í málinu. Athugasemdir bárust frá kæranda sem úrskurðarnefndin hefur yfirfarið. Að mati nefndarinnar er ekkert í þeim athugasemdum né gögnum málsins sem bendir til þess að afsakanlegt sé að kæra hafi ekki borist fyrr. Þá verður heldur ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í því sambandi er meðal annars haft í huga að gögn málsins benda ekki til þess að hin kærða ákvörðun hafi verið efnislega röng.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

_________________________________

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum