Hoppa yfir valmynd
1. október 2018 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Nýr forstjóri Norræna hússins í Reykjavík

Sabina Westerholm tekur við sem forstjóri Norræna hússins í Reykjavík í janúar 2019 en tilkynnt var um ráðningu hennar í dag. Sabina Westerholm er frá Finnlandi og var áður framkvæmdastjóri í Stiftelsen Pro Artibus, listamiðstöðvar sem hefur að markmiði að styðja við myndlistarlíf á sænskumælandi svæðum í Finnlandi. Westerholm hefur staðið fyrir ýmsum norrænum listverkefnum og gegnt trúnaðarstörfum fyrir Hanaholmen og Frame Contemporary Art Finland.

„Norræna húsið á að halda áfram að vera sjálfsagður samstarfsaðili norrænna verkefna á Íslandi, bæði hvað snertir innlenda aðila og norræna,“ er haft eftir Westerholm í tilkynningu Norðurlandaráðs. „Ég vil að Norræna húsið sé vettvangur umræðna um málefni sem eru efst á baugi í norrænu tilliti. Mitt markmið er að koma á fót þematengdum verkefnum þvert á listgreinar og stuðla að hágæða dagskrá fyrir börn og ungmenni.“

Sabina Westerholm tekur við af Dananum Mikkel Harder Munck-Hansen sem stýrt hefur Norræna húsinu frá árinu 2015. Norræna húsinu í Reykjavík er ætlað að efla norrænt samstarf og norræna samkennd og nýtur til þess stuðnings frá Norrænu ráðherranefndinni. Haldið var upp á 50 ára afmæli hússins og starfsemi þess fyrr á þessu ári.

„Norræna húsið skipar sérstakan sess í hugum okkar og fjölbreytt starfsemi þess er bæði mikilvæg fyrir norræna samvinnu og íslenskt menningarlíf. Það er fengur af því frábæra fólki sem þangað kemur til starfa og ég fagna sérstaklega þeirri áherslu sem nýi forstjórinn hyggst leggja á dagskrá fyrir börn og ungmenni,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum