Hoppa yfir valmynd
10. október 2022 Dómsmálaráðuneytið

Ráðstefna gegn kynbundnu ofbeldi í Dublin

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, sótti ráðstefnu ráðherranefndar Evrópuráðsins í lok september í Dublin á Írlandi.  Írsk stjórnvöld héldu ráðstefnuna sem haldin var á grundvelli formennsku þeirra í Evrópuráðinu frá maí til nóvember 2022. Heiti ráðstefnunnar var „No safe haven“ og var fjallað um aðferðir við forvarnir með það að markmiði að binda enda á heimilisofbeldi, kynferðislegt ofbeldi og annað kynbundið ofbeldi.  Sérfræðingar í málaflokknum frá ýmsum aðildarríkjum Evrópuráðsins héldu erindi og var dagskránni skipt í þrennt. Í fyrsta lagi um hvernig breyta megi viðmiðum í samfélaginu um ofbeldi og í öðru lagi hvernig breyta megi hegðun gerenda til að koma í veg fyrir frekara ofbeldi.  Í þriðja lagi var fjallað um þjálfun sérfræðinga sem starfa með þolendum og gerendum, til að bera kennsl á og bregðast við ofbeldi sem og að vísa þolendum og gerendum á rétt úrræði.  Þar hélt ríkislögreglustjóri, Sigríður Björk Guðjónsdóttir erindi um hvernig þjálfun lögreglumanna á Íslandi hefur verið hagað í þessum tilgangi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum