Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 204/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 24. apríl 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 204/2018

í stjórnsýslumálum nr. KNU18020053 og KNU18020052

Kæra […]

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 20. febrúar 2018 kærðu […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir K) og […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir M) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 25., 29. og 31. janúar 2018 um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir kærenda og barns þeirra, […], fd. […], ríkisborgara […] (hér eftir A), um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda þau til Frakklands.

Þess er krafist að hinar kærðu ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Til vara er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málin til meðferðar að nýju með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og bárust kærurnar fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærendur lögðu fram umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 15. október 2017. Þar sem kærendur höfðu fengið útgefna vegabréfsáritun til Frakklands, með gildistíma frá 22. september til 22. október 2017, var þann 19. október 2017 beiðni um viðtöku kærenda og umsókna þeirra um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Frakklandi, sbr. 2. eða 3. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 12. desember 2017 barst svar frá frönskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kærenda á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 25., 29. og 31. janúar 2018 að taka ekki umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að þau skyldu endursend til Frakklands. Ákvarðanirnar voru birtar fyrir kærendum þann 6. febrúar 2018 og kærðu þau ákvarðanirnar þann 20. febrúar 2018 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kærenda, ásamt fylgigögnum, barst kærunefnd 5. mars 2018.

III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvarðana Útlendingastofnunar var sú að umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd yrðu ekki teknar til efnismeðferðar hér á landi og þau skyldu endursend til Frakklands. Flutningur kærenda til Frakklands fæli ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. og 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá var það niðurstaða stofnunarinnar að kærendur hefðu ekki slík tengsl við Ísland. Útlendingastofnun mat aðstæður K slíkar að hún væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu vegna andlegra veikinda skv. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga og því hafi fjölskyldan í heild verið metin í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Það var hins vegar mat stofnunarinnar, að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kærenda, að sérstakar ástæður væru ekki til staðar í málum þeirra, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærendur skyldu yfirgefa Ísland og bæri að senda þau til Frakklands, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæra frestaði réttaráhrifum, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli A kom fram að það væri niðurstaða stofnunarinnar, með vísan til niðurstöðu í máli foreldra hans, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, útlendingalaga og barnaverndarlaga, að honum væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínum til Frakklands.

IV. Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð sem skilað var inn til kærunefndar fyrir hönd allrar fjölskyldunnar kemur fram að kærendur K og M hafi í viðtölum hjá Útlendingastofnun greint frá því að þau hafi þurft að þola ofsóknir og stöðug átök af hendi […] þar sem þau séu […] og […] auk þess sem þau hafi verið búsett á olíusvæði. Kærendur hafi því í raun verið flóttamenn í heimaríki. Aðspurð um endursendingu til Frakklands mótmæltu kærendur að vera endursend til Frakklands. Kærendur kváðust annars vegar óttast vísa endursendingu til […] m.a. vegna náins sambands franskra og […] stjórnvalda. Hins vegar væri mikill fjöldi stuðningsmanna […] í Frakklandi en kærendur hafi flúið ofsóknir […] í heimaríki sem séu stuðningsmenn […]. Hafi kærendum m.a. borist hótunarbréf frá hópnum sem sé meðal gagna málsins.

Fram kemur í greinargerð kærenda að K glími m.a. við járnskort, þreytu, þunglyndi og kvíða. Aðspurð nánar í viðtali hjá Útlendingastofnun út í andlega heilsu K kvað hún hugsanir um dauðann sæki á hana og hún velti því stundum fyrir sér að betra væri ef [...]. Þá fái hún martraðir. Framangreindu til stuðnings vísar K til lýsingar sálfræðings á ástandi hennar í framlögðum komunótum frá Göngudeild sóttvarna, dags. þann 15. nóvember 2017, 1. desember 2017, 3. og 31. janúar 2018. Þar komi m.a. fram að hún hafi verið greind með [...], að hún finni fyrir óöryggi, sektarkennd og bjargarleysi. K hafi þó greint talsmanni sínum frá því að hún treysti ekki umræddum sálfræðingi og hafi því ekki treyst sér til að tjá sig um viðkvæm mál við hann. Þá hafi K gengist undir sálfræðilegt mat þann 19. janúar 2018, sem sé meðal gagna málsins. Þar komi m.a. fram að K uppfylli [...] og alvarlegs [...]. Þá sýni hún sterk tilfinningaleg og lífeðlisfræðileg viðbrögð þegar eitthvað minni hana á erfiða atburði sem hún hafi þurft að ganga í gegnum og hafi fengið [...]. Jafnframt hafi hún þurft að notað svefnlyf og í heimaríki hafi hún notað róandi lyf. Varðandi heilsufar M kvaðst hann í viðtali hjá Útlendingastofnun ekki vera við góða heilsu. M [..] og hafi orðið vitni að ofbeldi og morðum. Andleg heilsa M sé ekki góð vegna þess sem hann hafi upplifað og hann hafi haft [...]. Þá eigi hann við svefnleysi að stríða m.a. vegna martraða. Jafnframt hafi hann notað róandi lyf áður þar sem hann hafi […]. Aðspurð um andlega heilsu A greindi K frá því að barnið sofi illa og vakni upp öskrandi á næturnar. Þá sé hann oft reiður, [...], klóri hana og sýni einnig einkenni hræðslu.

Til stuðnings kröfu kærenda um efnislega meðferð umsókna þeirra er vísað m.a. til sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá vísa kærendur til laga nr. 81/2017 um breytingu á lögum um útlendinga nr. 80/2016 og lögskýringargagna að baki breytingarlögunum, einkum greinargerðar með frumvarpi til laganna og nefndarálits meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar. Kærendur bendi á að undir rekstri málsins hafi þau lýst mikilli vanlíðan, áhyggjum og kvíða. Því sé engum vafa undirorpið að K teljist til einstaklings í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga […] Af öllu framangreindu sé því ljóst að hin unga fjölskylda sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu með tilliti til þess sem áður hafi verið rakið sem og vegna sérstaklega viðkvæmrar stöðu K. Kærendur bendi í því samhengi á að löggjafinn hafi nú áréttað að ef umsækjandi um alþjóðlega vernd teljist vera einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu þá skuli taka umsókn viðkomandi til efnislegrar meðferðar á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í greinargerð kærenda kemur fram að í hinum kærðu ákvörðunum Útlendingastofnunar sé aðeins að finna almenna umfjöllun um aðgang að heilbrigðiskerfinu í Frakklandi og ekki verði séð að fram hafi farið einstaklingsbundið mat á möguleikum K til viðeigandi sálfræðimeðferðar í Frakklandi. Kærendur vísi máli sínu til stuðnings í nýjustu skýrslu AIDA um Frakkland (Asylum Information Database, Country Report – France, febrúar 2018) þar sem fram komi m.a. að aðgengi umsækjenda um alþjóðlega vernd að heilbrigðiskerfinu þar í landi sé í reynd ófullnægjandi. Þá séu læknar tregir við að taka á móti og meðhöndla einstaklinga sem falli undir félagslegar tryggingar og skortur sé á túlkaþjónustu innan heilbrigðiskerfisins. Kærendur bendi því á að þrátt fyrir að kærendum kunni að standa til boða nauðsynleg geðheilbrigðisþjónusta í Frakklandi að orði kveðnu sé þeim ekki tryggð slík nauðsynleg aðstoð í raun.

Kærendur gera jafnframt athugasemdir við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun, einkum að rannsókn málsins hafi ekki verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda.

Fyrir liggur í máli þessu að frönsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kærendum á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Frakklands er byggt á því að kærendur hafi fengið útgefna vegabréfsáritun til Frakklands. Eru skilyrði c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Í 32. gr. a-b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í 32. gr. a kemur m.a. fram að með sérstökum ástæðum sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan, aðrar en þær sem myndu að jafnaði rúmast innan 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá er m.a. nefnt í dæmaskyni ef umsækjandi mun eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, ef umsækjandi af sömu ástæðu getur vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki og ef umsækjandi glímir við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð við er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. sáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar og í einhverjum tilvikum kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda í viðtökuríki taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Réttarstaða barna

Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og að tekið sé tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni. Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga kemur m.a. fram að sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra skal það almennt viðurkennt að hagsmunum barns sé best borgið með því að tryggja fjölskylduna sem heild og rétt hennar til að vera saman.

Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Kærunefnd hefur farið yfir gögn málsins þ. á m. viðtöl við K og M hjá Útlendingastofnun og læknisfræðileg gögn þar sem m.a. kemur fram að A eigi í góðum tengslum við báða foreldra sína og finni hjá þeim öryggi. Það er því mat nefndarinnar að allt bendir til þess að hagsmunum A sé best borgið með því að tryggja rétt fjölskyldunnar til að vera saman og að réttarstaða A verði ákveðin í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að A er í fylgd beggja foreldra sinna og haldast því mál þeirra í hendur í úrskurði þessum.

Greining á sérþörfum sbr. 25. gr. og 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga

Kærendur eru ung hjón með ungt barn. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi K frá því að hún glími við andleg veikindi og hefur hún lagt fram læknisfræðileg gögn er það varðar. Þau bera m.a. með sér að hún hafi í nokkur skipti hitt þar sálfræðing, hafi tekið svefnlyf og glími við járnskort. Þá hefur K lagt fram sálfræðiskýrslu, dags. 19. janúar 2018, þar sem fram kemur að samkvæmt sjálfsmatskvörðum uppfylli hún greiningarskilyrði fyrir [...]. Þá hafa K og M greint frá því að A fái reiðiköst, sýni einkenni hræðslu og sofi illa. Í framlögðum læknisfræðilegum gögnum í máli A kemur fram að drengurinn sé almennt hraustur en hann hafi orðið hræddur vegna atvika í heimaríki. Góð tengsl séu milli drengsins og foreldra hans og hann finni fyrir öryggi hjá þeim. Þá kveðst M ekki [...] og hann sé ekki við góða andlega heilsu og hefur M lagt fram læknisfræðileg gögn er varða heilsu hans og kemur þar m.a. fram að hann sé almennt heilsuhraustur.

Það er mat kærunefndar að aðstæður K séu slíkar að hún teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu að því er varðar meðferð máls hennar hér á landi, enda eru persónulegir eiginleikar hennar og aðstæður hennar þess eðlis að hún telst hafa sérþarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls hennar hér auk þess sem talið verður að hún geti ekki að fullu eða öllu leyti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum um útlendinga án aðstoðar eða sérstaks tillits, sbr. 6. tölul. 3. gr. og 25. gr. laga um útlendinga. Það er því mat kærunefndar að fjölskyldan í heild sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu er varðar málsmeðferð þeirra hér á landi.

Aðstæður og málsmeðferð í Frakklandi

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Frakklandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • Asylum Information Database, Country Report – France (European Council on Refugees and Exiles, febrúar 2018),
  • World Report 2018 – European Union (Human Rights Watch, 18. janúar 2018),
  • Guide for Asylum Seekers in France (Ministry of the Interior, General Directorate for Foreign Nationals in France, 1. nóvember 2015),
  • France 2016 Human Rights Report (United States Department of State, 3. mars 2017),
  • Dublin II Regulation & Asylum in France – Guide for Asylum Seekers – 2012 (Forum réfugiés, European Refugee Fund, 2012),
  • Amnesty International Report 2017/18 – France (Amnesty International, 22. febrúar 2018),
  • Freedom in the World 2017 – France (Freedom House, 15. apríl 2017),
  • First Steps for Demanding Asylum (Dom‘Asile, nóvember 2015) og
  • Report of Human Rights Commissioner of the Council of Europe following his visit to France from 22 to 26 September 2014 (Commissioner for Human Rights, Council of Europe, 17. febrúar 2015).

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Frakklandi má ráða að umsækjendur geta sótt um vernd á landamærum Frakklands eða inni í landinu. Þá eiga umsækjendur í Frakklandi rétt á viðtali áður en ákvörðun er tekin í máli þeirra hjá frönsku útlendingastofnuninni (f. Office Français sur l’Immigration et l’Intégration). Umsækjendur um alþjóðlega vernd sem fengið hafa synjun á umsókn sinni geta kært niðurstöðuna til stjórnsýsludómstóls (f. Cour nationale du droit d’asile). Þá eiga umsækjendur þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á umsókn um alþjóðlega vernd hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem brýtur í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans.

Þá er af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér ljóst að frönsk stjórnvöld uppfylla skyldur sínar varðandi lögfræðiaðstoð við umsækjendur um alþjóðlega vernd skv. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 32/2013 um málsmeðferð við veitingu og afturköllun alþjóðlegrar verndar, sbr. 19. og 20. gr. hennar.

Gögn málsins benda til þess að umsækjendur um alþjóðlega vernd í Frakklandi eigi möguleika á því að fá annað hvort húsaskjól í hefðbundnum móttökumiðstöðvum eða í tímabundnum gistiskýlum á vegum stjórnvalda á meðan þeir eru á biðlista eftir plássi í móttökumiðstöð. Þá njóta fjölskyldur og einstæðir foreldrar með börn forgangs þegar kemur að úthlutun á húsnæði og margar móttökumiðstöðvar eru sérstaklega skipulagðar til að taka á móti fjölskyldum. Að öllu jöfnu eru fjölskyldur vistaðar saman í húsnæði á meðan umsókn um alþjóðlega vernd er til meðferðar. Sé nauðsynlegt að vista fjölskyldur í neyðarskýli eru herbergi kynjanna stundum aðskilin í slíkum skýlum. Þá tryggja stjórnvöld öllum börnum á aldrinum 6-16 ára grunnmenntun sem fer oftast fram í opinberum skólum en einnig í móttökumiðstöðvum. Námsárangur barna sem ekki hafa frönsku að móðurmáli er metinn m.t.t. þess og fá þau börn einnig sérstaka þjálfun í tungumálinu.

Í fyrrgreindum skýrslum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda í Frakklandi kemur fram að umsækjendum um alþjóðlega vernd þar í landi er tryggður aðgangur að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu í frönskum lögum, sbr. m.a. skýrslu Asylum Information Database, Country Report: France (European Council on Refugees and Exiles, febrúar 2018). Þótt skilyrði fyrir veitingu opinberra sjúkratrygginga séu mismunandi eftir því hvernig umsókn um vernd er flokkuð, og stigi málsmeðferðarinnar, kemur fram í gögnum málsins að jafnvel þeir umsækjendur sem eiga ekki rétt á aðgangi að opinberum sjúkratryggingum geti leitað til opinna heilsugæslustöðva sem séu til staðar á öllum opinberum spítölum og fengið þar aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Þá eiga umsækjendur rétt á því að fá þjónustu sálfræðinga og geðlækna greidda af yfirvöldum og einnig veita frjáls félagasamtök í nokkrum borgum í Frakklandi einstaklingum í viðkvæmri stöðu meðferð. Jafnframt fer í öllum tilvikum fram mat á því hvort umsækjandi teljist vera einstaklingur í viðkvæmri stöðu, sérstaklega t.d. þegar um börn er að ræða og fjölskyldur.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Frakklandi hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kærenda þangað brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að kærendum séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Frakklandi bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Enn fremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Frakklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Einstaklingsbundnar aðstæður kærenda

Kærendur hafa, líkt og að framan greinir, verið metnir í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Kærendur eru fjölskylda með ungt barn en m.a. benda gögn málsins til bágs andlegs heilsufars K.

Að mati kærunefndar bera gögn málsins ekki með sér að kærendur muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá sé ekki um það að ræða að kærendur glími við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð við er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki, í skilningi 32. gr. a reglugerðar nr. 540/2017 um útlendinga. Þá verður ekki séð af gögnum málsins að fyrir hendi sé ástæða í málum kærenda er varðar heilsufar þeirra sem sé svo einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði framhjá henni litið, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað um heilbrigðiskerfið í Frakklandi er það mat nefndarinnar að ekki séu forsendur til annars en að leggja til grundvallar í málinu að kærendum bíði fullnægjandi og aðgengileg heilbrigðisþjónusta þar í landi. Að mati kærunefndar bera gögn málsins, þ. á m. upplýsingar í samskiptaseðlum frá Göngudeild sóttvarna, ekki með sér að heilsufar kærenda, þá sérstaklega heilsufar K, sé með þeim hætti að framkvæmd vegna synjunar á að taka umsókn þeirra til efnismeðferðar hér á landi hafi í för með sér verulegar eða óafturkræfar afleiðingar fyrir heilsufar fjölskyldunnar. Í gögnunum kemur jafnframt fram að í Frakklandi séu fjölskyldur að jafnaði vistaðar saman í viðeigandi úrræði í málsmeðferðinni.

Kærendur hafa greint frá því að í Frakklandi sé mikill fjöldi stuðningsmanna […] sem tengist öðrum hópi sem hafi ofsótt kærendur í heimaríki með hótunum en hótunarbréf frá hópnum sé meðal gagna málsins. Það er mat kærunefndar, m.t.t. þeirra upplýsinga sem fyrir liggja um aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd í Frakklandi, að þarlend yfirvöld séu í stakk búin til þess að veita umsækjendum fullnægjandi vernd gegn slíkum hótunum og að kærendur geti leitað til lögreglunnar og annarra yfirvalda vegna þeirra.

Í ljósi aðstæðna í Frakklandi og að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kærenda, er það mat kærunefndar ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál þeirra verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærendur kváðust í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 6. nóvember 2017 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að þau hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kærenda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að þau sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi, en þau lögðu fram umsókn sína þann 15. október 2017. Kærunefnd telur jafnframt ljóst að ákvæði I til bráðabirgða við lög um útlendinga, sbr. lög nr. 81/2017 um breytingu á lögum um útlendinga, eigi ekki við í máli barns kærenda, þar sem kærendur lögðu fram umsókn sína um alþjóðlega vernd hér á landi eftir gildistöku laganna.

Mál barns kærenda hefur verið skoðað í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Með vísan til þess sem áður hefur verið rakið um aðstæður barnafjölskyldna í leit að alþjóðlegri vernd í Frakklandi telur kærunefnd ljóst að flutningur kærenda til Frakklands hafi ekki í för með sér hættu á að fjölskyldan aðskiljist, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Með vísan til niðurstöðu í máli kærenda og umfjöllunar um aðstæður barna sem sækja um alþjóðlega vernd í Frakklandi er það mat kærunefndar að öryggi, velferð og félagslegum þroska barns kærenda verði ekki stefnt í hættu með flutningi þess til Frakklands, sbr. 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn barns kærenda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda barnið til Frakklands með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga enda er það niðurstaða nefndarinnar að það sé ekki andstætt réttindum barns kærenda að umsókn þess verði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi.

Reglur stjórnsýsluréttar

Í greinargerð kærenda er gerð athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar m.a. með vísan til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærendur telji að Útlendingastofnun hafi m.a. ekki rannsakað þær aðstæður sem bíði kærenda í Frakklandi.

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum kærenda K og M er fjallað um aðstæður og málsmeðferð í Frakklandi og um einstaklingsbundnar aðstæður kærenda K og M. Þá er sérstaklega tekin afstaða til þess í umræddum ákvörðunum Útlendingastofnunar að það sé mat stofnunarinnar að einstaklingsbundnar aðstæður kærenda K og M vegi ekki svo þungt að sérstakar ástæður eigi við í málum þeirra skv. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og að vegna þeirra aðstæðna muni kærendur K og M ekki eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki.

Að mati kærunefndar verður ekki talið að skort hafi á rannsókn Útlendingastofnunar er þetta atriði varðar. Svo sem fram hefur komið hefur kærunefnd yfirfarið þau gögn sem aflað var við meðferð málsins, svo og skýrslur og önnur gögn um aðstæður í Frakklandi, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Það er því mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í málum kærenda K og M er þetta varðar hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga.

Hins vegar gerir kærunefnd athugasemd við rökstuðning ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli A. Í niðurstöðu ákvörðunar A er vísað til niðurstöðu í ákvörðunum foreldra barnsins og m.a. kemur fram að í ákvörðunum foreldranna hafi einnig verið tekin afstaða til aðstæðna A og hvernig þær aðstæður hafi horft við einstökum þáttum ákvörðunarinnar. Hvergi er í forsendum fyrir niðurstöðu í málum foreldranna né í ákvörðun A að finna almenna umfjöllun um aðstæður barna í hæliskerfinu í Frakklandi eða um stöðu A við endursendingu til Frakklands. Þá er ekki að finna umfjöllun um einstaklingsbundnar aðstæður A í ákvörðunum foreldranna. Að mati kærunefndar var rökstuðningur ákvörðunar í máli A ekki í samræmi við 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í ljósi framangreindrar niðurstöðu kærunefndar og umfjöllunar um aðstæður A telur kærunefnd að bætt hafi verið úr þessum ágalla við meðferð málsins á kærustigi.

Samantekt

Í máli þessu hafa frönsk stjórnvöld fallist á að taka við kærendum og umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kærendur til Frakklands með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru því staðfestar.

Athygli kærenda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru staðfestar.

The decision‘s of the Directorate of Immigration are affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

Erna Kristín Blöndal                                            Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum