Hoppa yfir valmynd
31. ágúst 2021 Forsætisráðuneytið

Áframhaldandi samstarf um heimsþing kvenleiðtoga á Íslandi

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, Silvana Koch-Mehrin, forseti WPL, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.  - mynd

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og Silvana Koch-Mehrin, forseti og stofnandi Women Political Leaders (WPL), undirrituðu samstarfsyfirlýsingu í Stjórnarráðshúsinu í dag.

Um er að ræða samstarf milli ríkisstjórnarinnar, Alþingis og alþjóðlegu þingkvennasamtakanna Women Political Leaders (WPL) um að efna til heimsþings kvenleiðtoga á Íslandi 2022.

Í febrúar 2018 gerðu sömu aðilar með sér samkomulag um að efna til slíks þings á Íslandi árlega frá 2018 til 2021. Samið var um árlegt framlag stjórnvalda til verkefnisins á samningstímanum sem skiptist jafnt á milli forsætisráðuneytis og Alþingis. Ákveðið hefur verið að framlengja samstarfið fyrir 2022 með óbreyttu fjárframlagi stjórnvalda.

Einnig var undirrituð sérstök viljayfirlýsing af hálfu forsætisráðuneytis og Alþingis um að teknar verði upp viðræður við WPL, um áframhaldandi samstarf fyrir tímabilið 2023 til 2025 með stuðningi stjórnvalda. Þær viðræður hefjist í október nk.

Heimsþingið hefur verið haldið í Reykjavík undanfarin þrjú ár með þátttöku fjölda íslenskra og alþjóðlegra samstarfsaðila auk þess sem frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, hefur verið verndari þess. Boð á heimsþingið hljóta alþjóðlegir kvenleiðtogar úr stjórnmálum, viðskiptum, menningu, vísindum og tækni.

Ísland hefur undanfarin ár mælst fremst meðal þjóða heims þegar kemur að stöðu kvenna. Vilji stjórnvalda til að gera enn betur og miðla eigin reynslu til annarra var ástæða þess að ákveðið var að efna til samstarfsins á sínum tíma og var Ísland talinn augljós staður fyrir alþjóðlegt samtal leiðtoga um jafnréttismál.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum