Hoppa yfir valmynd
16. maí 2012 Utanríkisráðuneytið

Umsóknir um áheyrnaraðild og styrking ráðsins rædd á aðstoðarráðherrafundi Norðurskautsráðsins

Á aðstoðarutanríkisráðherrafundi Norðurskautsráðsins, sem haldinn var í Stokkhólmi í gær, var fjallað um fyrirliggjandi umsóknir um áheyrnaraðild að ráðinu. Evrópusambandið, Ítalía, Japan, Kína, Singapúr og Suður-Kórea hafa sótt um áheyrnaraðild ásamt fjórum alþjóðasamtökum. Við mat á umsóknum verður tekið mið af viðmiðunarreglum sem samþykktar voru á ráðherrafundinum í Nuuk á síðasta ári. Stefnt er að því að taka endanlega afstöðu til umsóknanna á næsta ráðherrafundi sem haldinn verður 2013 í Kiruna Svíþjóð. Á fundinum lagði Ísland áherslu á að áhugi og þátttaka áheyrnaraðila sem uppfylltu Nuuk-viðmiðin væru til þess fallinn að treysta og styrkja starfssemi Norðurskautsráðsins.

Mikill einhugur var á fundinum um að efla stefnumótun og hagnýtar aðgerðir á vegum ráðsins og styrkja  innri starfsemi þess sem er mjög í samræmi við norðurslóðastefnu íslenskra stjórnvalda. Ákveðið var að vinna að sameiginlegri pólitískri yfirlýsingu utanríkisráðherra norðurskautsríkjanna fyrir næsta ráðherrafund. Yfirlýsingunni er ætlað að undirstrika samstöðu norðurskautsríkjanna þegar 16 ár verða liðin frá stofnun ráðsins og öll ríkin hafa sinnt formennsku. Samþykkt var að stórefla upplýsinga og kynningastarf á vegum ráðsins til að mæta vaxandi áhuga á málefnum norðurslóða. Vinnu við stofnun fastaskrifstofu ráðsins í Tromsø í Noregi miðar vel áfram og hefur starf framkvæmdastjóra skrifstofunnar verið auglýst laust til umsóknar. Einar Gunnarsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins sótti fundinn ásamt Hjálmari Hannessyni fulltrúa Íslands í embættismannanefnd ráðsins.

Sjá myndir frá fundinum á Facebook síðu utanríkisráðuneytisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum