Hoppa yfir valmynd
17. maí 2011 Utanríkisráðuneytið

Rýnifundi um efnahags- og peningamál lokið

Rýnifundi um 17. kafla samningaviðræðna við Evrópusambandið, efnahags- og peningamál, lauk í Brussel í dag. Á fundinum, sem var sá síðari af tveimur, báru sérfræðingar Íslands og ESB saman löggjöf í þessum samningskafla en hann stendur utan EES-samningsins. Fyrir íslenska hópnum fór Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sem er formaður samningahópsins.

Ríki sem ganga í ESB verða að taka mið af sameiginlegri efnahagsstefnu sambandsins sem miðar að því að tryggja sem best efnahagslegan stöðugleika m.a. með því að framfylgja ábyrgri stefnu í fjármálum hins opinbera. Þess er vænst að aðildarríkin verði hluti af evrusvæðinu, en til þess að aðildarríki sé heimilt að taka upp evru verður að uppfylla ákveðin efnahagsleg og fjárhagsleg skilyrði, svokölluð Maastricht-skilyrði, sem lúta að verðbólgu, langtímavöxtum, og fjármálum hins opinbera. Undirbúningsferlið að upptöku evru í gegnum þátttöku í gjaldmiðilssamstarfi Evrópu (ERM II) er eitt mikilvægasta viðfangsefni samninga vegna 17. kafla. Fyrir liggur að þátttaka í gjaldmiðilssamstarfi Evrópu (ERM II) í að minnsta kosti tvö ár er eitt að skilyrðum fyrir upptöku evru.

Á rýnifundinum var vakin athygli á að ræða þyrfti nánar umgjörð peninga- og gjaldeyrismála og hugsanlegan stuðning við afnám gjaldeyrishafta í samræmi við meirihlutaálit utanríkismálanefndar Alþingis. Einnig var vakin athygli á stefnu stjórnvalda um lækkun skulda hins opinbera.

Greinargerð um efnahags- og peningamál má sjá hér.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum