Hoppa yfir valmynd
22. mars 2016 Innviðaráðuneytið

Verja á 430 milljónum króna í umferðaröryggisaðgerðir á árinu

Vegagerðin, Samgöngustofa og Ríkislögreglustjóri munu verja 430 milljónum króna til margvíslegra aðgerða á sviði umferðaröryggis á árinu. Að ósk innanríkisráðherra settu þessar tvær stofnanir og Ríkislögreglustjóri fram breyttar áætlanir og tillögur að verkefnum er lúta að umferðaröryggi þar sem ekki eru markaðar fjárveitingar í verkefnið á þessu ári á samgönguáætlun áranna 2013 til 2016.

Af þessum sökum munu þessir aðilar nýta fjármuni sína í nánar skilgreind verkefni í samræmi við drög að umferðaröryggisáætlun samgönguáætlunar fyrir árin 2013-2016 með nokkrum breytingum. Aðgerðum í framkvæmdaáætlun er skipt í eftirtalda fjóra flokka: vegfarendur, vegakerfi, ökutæki og stefnumótun, rannsóknir og löggjöf. Vegagerðin ber ábyrgð á úrbótum í vegakerfinu, Samgöngustofa á verkefnum er lúta að hegðun fólks og viðmóti og Ríkislögreglustjóri ber ábyrgð á umferðareftirliti.

Samgöngustofa mun nota 18 milljónir króna í umferðaröryggisverkefni auk þess sem öðrum verkefnum, sem ekki þarfnast viðbótarfjármagns, verður haldið áfram. Vegagerðin hefur ákveðið að setja alls 385 m.kr. af viðhaldsfé stofnunarinnar í umferðaröryggismál, þar af 27 m.kr. í sjálfvirkt eftirlit og 15 m.kr. til úrvinnslu gagna sem fást með löggæslumyndavélum. Ríkislögreglustjóri mun skipuleggja sérstakt umferðareftirlit fyrir 27 m.kr. sem annars vegar er fengið með fjármögnun á umferðareftirliti lögreglustjóranna á Suðurlandi, Vesturlandi og Norðurlandi eystra og hins vegar með 12 m.kr. af sérstakri fjárveitingu innanríkisráðuneytisins til eflingar lögreglu sem varið verður í eftirlitið.

Vegfarendur

Í uppfærðri áætlun er gert ráð fyrir að verja 84,5 m.kr. í verkefni tengd umferðaröryggi vegfarenda. Fjármunirnir verða nýttir í sérstakt eftirlit lögreglu sem byggt er á svartblettaskráningu (27 m.kr), úrvinnslu gagna sem fást með löggæslumyndavélum (15 m.kr.), sjálfvirkt eftirlit (27 m.kr.), áróðursauglýsingar (5 m.kr.), fræðslu í grunnskólum (4 m.kr.) og fræðslu fyrir erlenda ökumenn (6,5 m.kr.). Auk framangreindra verkefna vinnur Samgöngustofa að margvíslegum öðrum verkefnum sem ekki þarfnast viðbótar fjármagns t.d. bókasendingar til barna, leikskólaheimsóknir og umferðarfræðslu í framhaldsskólum.

Vegakerfið

Meðal verkefna Vegagerðarinnar samkvæmt uppfærðri áætlun er að 257 milljónum króna verði ráðstafað til margvíslegra aðgerða og úrbóta á vegakerfinu um land allt með áherslu á svartbletti. Þá verður 60 milljónum varið í merkingar við einbreiðar brýr, 8 milljónum í undirgöng fyrir búfé og hvíldarsvæði og 18 milljónum í önnur verkefni. Áætlun um einstök verkefni er í smíðum og er þeim forgangsraðað út frá slysatíðni og slysatölum um landið allt.

Stefnumótun, rannsóknir og löggjöf

Líkt og í drögum að upphaflegri umferðaröryggisáætlun fyrir árið 2016 hyggst Samgöngustofa gera hina árlegu könnun á aksturshegðun almennings og er gert ráð fyrir 2,5 m.kr. í verkefnið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum