Hoppa yfir valmynd
21. júní 2012 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Opnun Suðurstrandarvegar fagnað í Grindavík og Ölfusi

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri opnuðu í dag formlega Suðurstrandarveg með því að klippa á borða og lýsa veginn opinn. Með veginum tengjast byggðarlög á Reykjanesskaga og Suðurlandi á nýjan öruggan hátt og fögnuðu bæjaryfirvöld Grindavíkur og Ölfuss þessari samgöngubót.

Suðurstrandarvegur var formlega opnaður í dag.
Suðurstrandarvegur var formlega opnaður í dag.

Innanríkisráðherra sagði í ávarpi við opnun vegarins að með honum fengist heilsársvegur og góð tenging milli Suðurnesja og Suðurlands. Vegurinn tengdi saman á nýjan hátt þau þrjú sveitarfélög sem hann liggur um, Grindavík, Hafnarfjörð og Ölfus.

Innanríkisráðherra flutti ávarp bæði í Þorlákshöfn og Grindavík.Ráðherra sagði margvísleg ný tækifæri skapast með veginum í atvinnumálum, samskiptum milli byggðarlaga, flutningum og ferðaþjónustu. Hreinn Haraldsson sagði veginn fagnaðarefni og þakkaði verktökum og öllum sem komu við sögu.

Eftir athöfn á veginum skammt austan við Krýsuvík var efnt til samsætis í Ráðhúsi Ölfuss og þar lýsti Svanur Bjarnason, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Suðurlandi, framkvæmdinni og sagði hann veginn 57 km langan og kostnaður væri tæplega þrír milljarðar króna. Hann sagði undirbúning hafa byrjað árið 1996 og framkvæmdir 2005 og verkinu væri nú lokið. Vegurinn var opinn fyrir umferð á liðnum vetri en í vor var lögð síðari klæðing á veginn og verkinu lokið. Meðalumferð samkvæmt nýjum mælingum er um 410 bílar á sólarhring en 10. júní síðastliðinn fóru 777 bílar um veginn.

Innanríkisráðherra og vegamálastjóri opnuðu Suðurstrandarveg formlega í dag.

Auk Ögmundar og Svans fluttu ávörp þingmennirnr Sigurður Ingi Jóhannsson og Árni Johnsen, Níels Árni Lund, Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Grindavík og Reynir Ingibjartsson sem afhenti fulltrúum bæjarstjórna og samgönguyfirvalda bók um gönguleiðir á Reykjanesskaga. Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri Ölfuss, stýrði samkomunni.

Eftir samsætið í Þorlákshöfn var haldið til Grindavíkur þar sem ráðherra og vegamálastjóri fluttu stutt ávörp. Kom fram í máli vegamálastjóra að nú væri verkinu lokið og nú væri það meðal annars á valdi íbúa byggðarlaganna að nýta þessa samgöngubót og sýna hvernig hún gæti gefið aukin og ný tækifæri á ýmsum sviðum. Þá flutti Ómar Smári Ármannsson erindi um jarðfræði og fornleifar við Suðurstrandarveginn.

Innanríkisráðherra og vegamálastjóri opnuðu Suðurstrandarveg formlega í dag.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira