Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2016 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 102/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 5. apríl 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 102/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU16010043

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 26. janúar 2016 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. janúar 2016, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um hæli á Íslandi og endursenda hann til Þýskalands.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um hæli til efnislegrar meðferðar, sbr. 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga nr. 96/2002 sbr. 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um hæli á Íslandi þann 12. nóvember 2015. Við leit að fingraförum kæranda í svokölluðum Eurodac gagnagrunni, þann 18. nóvember sl., kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Þýskalandi og Noregi. Þann 8. desember 2015 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um hæli beint til yfirvalda í Þýskalandi, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 15. desember sl. barst svar frá þýskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 20. janúar 2016 að taka ekki umsókn kæranda um hæli hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Þýskalands. Kærandi kærði ákvörðunina við birtingu þann 26. janúar sl. til kærunefndar útlendingamála auk þess að óska eftir frestun réttaráhrifa á hinni kærðu ákvörðun á meðan mál hans væri til meðferðar. Fallist var á frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til kærumeðferðar með bréfi kærunefndar, dags. 27. janúar 2016. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 18. febrúar sl. Kærandi kom í viðtal hjá kærunefnd þann 24. febrúar 2016 og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b laga um útlendinga. Viðstaddir voru talsmaður kæranda og túlkur.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að hælisumsókn kæranda yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Þýskalands. Lagt var til grundvallar að Þýskaland virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Þýskalands ekki í sér brot gegn 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu.

Þá segir í ákvörðuninni að telji kærandi að mistök hafi verið gerð í tengslum við málsmeðferð hans í Þýskalandi sé ekkert sem bendi til annars en að honum standi til boða viðeigandi réttarúrræði þar í landi.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi ekki gert sér grein fyrir því að hann hafi sótt um hæli í Þýskalandi þegar fingraför hans hafi verið tekin. Kærandi haldi því fram að honum hafi verið tjáð að einungis væri verið að kanna mögulegan sakaferil hans. Kærandi geri ekki athugasemdir við almennan aðbúnað hælisleitenda þar í landi. Þó hafi hann áhyggjur af málsmeðferð einstaklinga frá […] þar í landi og telji, í ljósi yfirlýsinga þýskra stjórnvalda um hertar reglur í flóttamanna- og hælismálum, að það sé útilokað að hann muni fá hæli í Þýskalandi vegna þess að hann sé frá […].

Í greinargerð kæranda kemur fram að álag sé á hæliskerfi Þýskalands í ljósi aukningar hælisumsókna þar í landi. Þýskaland sé meðal þeirra Evrópulanda sem taki við hvað flestum hælisleitendum. Móttökumiðstöðvar séu mjög fjölmennar og jafnvel yfirfullar. Ekki fáist fjármunir til þess að veita hælisleitendum viðeigandi og mannúðlega þjónustu auk þess sem engar samræmdar reglur séu um aðbúnað fólks í slíkum miðstöðvum. Oft sé aðbúnaður ekki eins og best verði á kosið, t.d. varðandi hreinlæti. Þá hafi andúð á hælisleitendum komið upp í landinu og árásir á hælisleitendur í móttökumiðstöðvum átt sér stað. Hælisleitendur í Þýskalandi njóti takmarkaðrar lögfræðiaðstoðar við hælismál sitt. Þeir hafi ekki sjálfkrafa aðgang að lögfræðiaðstoð heldur sinni góðgerðarfélög og frjáls félagasamtök slíkri þjónustu, en það sé bundið við ákveðin svæði í Þýskalandi og standi ekki alltaf til boða. Ekkert kerfi sé til staðar sem tryggi hælisleitendum aðgang að lögfræðiaðstoð áður en hælisviðtal fari fram. Hælisleitendur verði að greiða sjálfir fyrir lögfræðiþjónustu á fyrsta stjórnsýslustigi. Fari þeir með málið fyrir dómstóla geti þeir sótt um gjafsókn og hvort fallist verði á slíka beiðni velti á því hversu líklegt dómstólnum þyki að fallist verði á hælisumsóknina, en sami dómstóll taki ákvörðun um gjafsókn og dæmi í hælismálinu. Eins og þetta fyrirkomulag um réttaraðstoð sé þá virðist möguleiki hælisleitenda á að gæta réttinda sinna takmarkaður.

Þá er af hálfu kæranda vísað til tillagna Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir til að takast á við komu flóttamanna til Evrópu yfir Miðjarðarhafið. Þar sé biðlað til Evrópuríkja að beita fullveldisreglu Dyflinnarreglugerðar, m.a. með það að markmiði að létta á því álagi sem sé á fáeinum ríkjum, þar á meðal Þýskalandi.

Í greinargerð kæranda er vísað til Dyflinnarreglugerðarinnar, d-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Kærandi byggi kæru sína á því að sérstakar ástæður mæli með því að umsókn hans um hæli

verði tekin til efnismeðferðar enda séu nú uppi sérstakar aðstæður í Evrópu vegna mikils fjölda hælisleitenda og flóttamanna, m.a. í Þýskalandi. Í greinargerð kæranda er á því byggt að undanfarna mánuði hafi verið mikil umræða um nauðsyn þess að gera breytingar á Dyflinnarreglugerðinni þar sem hún virki ekki sem skyldi við þær aðstæður sem nú séu uppi í Evrópu. Kanslari Þýskalands hafi gengið svo langt að lýsa því yfir opinberlega að hún vilji afnema reglugerðina og allt bendi til þess að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins muni gera breytingar á reglugerðinni innan fárra mánaða. Þá sé því haldið fram að það sé órökrétt að senda kæranda til Þýskalands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar þegar fyrir liggi að hann muni þurfa að bíða á annað ár eftir fyrstu niðurstöðu máls síns og allt bendi til þess að þau ákvæði reglugerðarinnar sem komi til skoðunar í máli hans verði líklega breytt þegar niðurstaða fáist í mál kæranda. Í fyrrnefndum tillögum Flóttamannastofnunar um aðgerðir til að takast á við komu flóttamanna til Evrópu komi m.a. fram að Flóttamannastofnun leggi til að aðildarríki reglugerðarinnar beiti reglugerðinni til fulls, m.a. 17. gr. hennar þar sem m.a. sé kveðið á um að ríkjum sé heimilt að taka hælisumsókn til meðferðar þó þau beri ekki ábyrgð á henni skv. öðrum ákvæðum reglugerðarinnar. Upphaflegur tilgangur Dyflinnarsamstarfsins hafi verið að aðildarríkin deili ábyrgðinni af auknu innstreymi flóttamanna til Evrópu. Þessi skilningur endurspeglist í 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga sem kveði á um heimild til þess að taka umsókn ekki til efnismeðferðar, en ekki skyldu. Kærandi telji, í ljósi álags á hæliskerfi Þýskalands og sér í lagi fjölda […] hælisleitenda sem hafi beðið á annað ár eftir niðurstöðu í hælismálum sínum, að íslenskum stjórnvöldum beri að beita heimildarákvæði 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga í máli hans og taka umsókn hans til efnismeðferðar. Með þeim hætti myndu íslensk stjórnvöld gerast virkir þátttakendur í Dyflinnarsamstarfinu og viðurkenna ábyrgð sína innan þess.

Þá séu gerðar athugasemdir við þá framkvæmd þýskra stjórnvalda að taka af kæranda fingraför og þar með líta svo á að hann hafi óskað eftir hæli. Af hálfu kæranda sé vísað til dóms fransks dómstóls frá 28. desember 2015, þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að óheimilt hafi verið að senda hælisleitanda frá Frakklandi til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Ástæðan hafi verið sú, ásamt öðrum formgöllum, að hælisleitandanum hafi ekki verið veittar réttar upplýsingar við fingrafaratöku á Ítalíu og því hafi framkvæmdin ekki staðist þær lágmarkskröfur sem gerðar séu í Evrópulöggjöf.

Þar að auki sé á því byggt af hálfu kæranda að með endursendingu til Þýskalands beri íslensk stjórnvöld ábyrgð á því að kæranda verði vísað aftur til […], sbr. 45. gr. laga um útlendinga. Í greinargerð kæranda er vísað til ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli [...], þar sem fjallað sé um ástandið í […]. Ekkert bendi til þess að ástandið þar í landi hafi batnað sem neinu nemi frá því að sú ákvörðun hafi verið birt. Ákvörðun um endursendingu væri ólögmæt skv. 45. gr. laga um útlendinga, 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamningsins. Því er haldið fram að af öllu ofangreindu megi ráða að kæranda yrði synjað um hæli í Þýskalandi á grundvelli búsetu sinnar í […]. Í þessu sambandi sé vísað til skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um […].

Kærandi byggi einnig kröfur sínar á því að með ákvörðun Útlendingastofnunar hafi stofnunin brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli ófullnægjandi upplýsinga. Líkt og færð hafi verið rök fyrir bíði kæranda það eitt í Þýskalandi að bíða á annað ár eftir niðurstöðu hælismáls hans sem fullyrða megi að verði neikvæð vegna hertra reglna sem beinist að miklu leyti gegn hælisleitendum frá […]. Kærandi heldur því fram að

Útlendingastofnun hafi ekki rannsakað stöðu hans í Þýskalandi né möguleika hans á að fá viðunandi meðferð þar í landi og því beri að ógilda hina kærðu ákvörðun.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Fyrir liggur í máli þessu að þýsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Úrlausnarefni kærumáls þessa er að skera úr um hvort Útlendingastofnun hafi tekið rétta ákvörðun þegar ákveðið var að taka ekki umsókn kæranda um hæli til efnismeðferðar og vísa honum til Þýskalands. Úrlausnarefni málsins er afmarkað við það hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd og skuli taka hana til efnislegrar meðferðar.

Í máli þessu gilda aðallega ákvæði laga um útlendinga nr. 96/2002, með síðari breytingum, ákvæði reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga, með áorðnum breytingum og ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Auk þess ber að taka mið af ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar en Ísland skuldbatt sig til að fylgja henni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla hennar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á hælisumsókn. Jafnframt ber að líta til annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Í d-lið 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga kemur fram að stjórnvöld geti, með fyrirvara um ákvæði 45. gr. laganna, synjað að taka til efnismeðferðar hælisumsókn ef krefja megi annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda (Dyflinnarmál). Þó kemur fram í 2. mgr. 46. gr. a sömu laga að ekki skuli endursenda flóttamann til annars ríkis hafi hann slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða sérstakar ástæður mæli annars með því. Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga má einnig ekki senda útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir sem gætu leitt til þess að hann skuli teljast flóttamaður eða ef ekki er tryggt að hann verði ekki sendur til slíks svæðis. Samsvarandi verndar skal útlendingur njóta sem vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Við mat á því hvort beita skuli þessum ákvæðum í Dyflinnarmálum þarf einkum að kanna hvort aðstæður hælisleitenda í því ríki, sem endursenda á hælisleitanda til samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni, kunni að brjóta gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sé svo er óheimilt að senda hælisleitandann þangað og skal þá taka hælisumsókn viðkomandi til efnismeðferðar hér, sbr. einnig undanþágureglu 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Eftir atvikum þarf enn fremur að skoða hvort slíkur ágalli sé á málsmeðferð þess ríkis, sem endursenda á til, að það brjóti í bága við 13. gr. mannréttindasáttmálans.

Samkvæmt framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu í málum er varða Grikkland og Ítalíu getur sú staða komið upp að óheimilt sé að endursenda hælisleitendur til einstakra ríkja vegna ástands í viðkomandi móttökuríki. Aðildarríki mannréttindasáttmálans verða að vera meðvituð um alvarlega galla við meðferð hælisumsókna eða í móttöku hælisleitenda í því aðildarríki sem endursenda skal til á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Verður því að skoða aðstæður hælisleitenda og málsmeðferð í Þýskalandi.

Kærunefnd útlendingamála hefur farið yfir skýrslur um aðstæður og málsmeðferð í Þýskalandi, sbr. m.a. […]

Athugun kærunefndar á aðstæðum hælisleitenda í Þýskalandi hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði hælisleitenda í Þýskalandi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda til Þýskalands brjóti í bága við 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, verði hann sendur þangað. Þá benda öll gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Þýskalandi bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ennfremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu hælisleitenda til Þýskalands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Kærandi ber fyrir sig að ekki hafi verið rétt staðið að töku fingrafara í Þýskalandi. Hann kveðst ekki hafa gert sér grein fyrir því að hann hafi sótt um hæli í Þýskalandi þegar fingraför hans hafi verið tekin en kærandi heldur því fram að honum hafi verið tjáð af túlki að einungis væri um athugun á sakaferli hans að ræða. Kærandi hefur engin gögn lagt fram sem leiða líkur að þessum staðhæfingum. Það er mat kærunefndar að ekki skipti máli, í þessu sambandi, hvernig staðið var að töku fingrafara og skráningu kæranda í viðtökuríkinu þar sem það er ekki til þess fallið að hafa áhrif á efnislega niðurstöðu þessa kærumáls. Fyrir liggur að þýsk stjórnvöld hafa fallist á að taka við kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar sem mælir fyrir um skyldu ríkis til að taka aftur við hælisleitenda sem sótt hefur um hæli í því ríki, en óumdeilt er að kærandi var þannig skráður þar í landi. Þá benda gögn um málsmeðferð þýskra stjórnvalda til þess að honum ætti að standa viðeigandi réttarúrræði til boða varðandi mál sitt þar í landi og að honum séu tryggð úrræði til að leita réttar síns.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 14. janúar 2016 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Þá benda gögn ekki til þess að aðstæður hans séu að öðru leyti svo sérstakar að ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga eigi við. Verður því ekki talið að ástæða sé til að taka mál kæranda til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra tengsla við Ísland eða annarra sérstakra ástæðna, sbr. framangreint ákvæði.

Þá byggir kærandi kröfur sínar á því að við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga þar sem ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli ófullnægjandi upplýsinga. Útlendingastofnun hafi ekki rannsakað stöðu hans í Þýskalandi né möguleika hans á að fá viðunandi meðferð þar í landi og því beri að ógilda hina kærðu ákvörðun.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal Útlendingastofnun sjá til þess, að málið sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í málinu. Um frekari afmörkun á hversu ítarlega beri að rannsaka mál, ber m.a. að líta til þess hversu mikilvægt það er. Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verður að gera til rannsóknar á þeim atvikum sem leiða til niðurstöðunnar. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Í þeim tilvikum þegar ákvörðun stjórnvalds byggist á mati verður að afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru svo hægt sé að beita þeim sjónarmiðum sem ætlun er að byggja stjórnvaldsákvörðun á. Að auki ef deilt er um málsatvik sem hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins ber stjórnvöldum að leggja áherslu á að rannsaka þann þátt þess.

Kærunefnd útlendingamála hefur farið yfir öll gögn varðandi mál kæranda og telur ekki að slíkur ágalli sé á rannsókn og málsmeðferð Útlendingastofnunar við úrlausn málsins þannig að ógilda beri ákvörðun Útlendingastofnunar af ofangreindum ástæðum. Í niðurstöðu ákvörðunarinnar eru raktar þær ástæður umsóknar kæranda sem komu fram í viðtali hjá Útlendingastofnun, fjallað um aðstæður og málsmeðferð í Þýskalandi, og málsástæðum hans varðandi afritun fingrafara hans er svarað sérstaklega. Kærunefndin telur þó að það væru vandaðri stjórnsýsluhættir ef Útlendingastofnun gerði grein fyrir því á hvaða upplýsingum og gögnum er byggt á í niðurstöðu um aðstæður hælisleitenda í Þýskalandi. Engu að síður er það mat kærunefndar að slíkur skortur á tilvísun til gagna leiði ekki til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Með vísan til ofangreindrar niðurstöðu kærunefndar um aðstæður í Þýskalandi er ljóst að sá ágalli á ákvörðun Útlendingastofnunar hafi ekki leitt til rangrar efnislegrar niðurstöðu og sé því ekki slíkur að ógilda beri ákvörðunina af þeirri ástæðu.

Í máli þessu hafa þýsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um hæli á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er fallist á að Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja um efnismeðferð á umsókn kæranda um hæli hér á landi og ákveða að senda kæranda til Þýskalands með vísan til d-liðar 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála að staðfesta beri ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 33. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Anna Valbjörg Ólafsdóttir Pétur Dam Leifsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum