Hoppa yfir valmynd
20. júní 2007 Utanríkisráðuneytið

Opinber heimsókn utanríkisráðherra til Noregs

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, og eiginmaður hennar, Hjörleifur Sveinbjörnsson, hófu í dag þriggja daga opinberra heimsókn til Noregs í boði Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs.

Heimsóknin hefst í dag með áheyrn hjá Haraldi Noregskonungi í höll konungs í Osló. Þá mun utanríkisráðherra eiga hádegisverðarfund með varnarmálaráðherra Noregs, Anne-Grete Ström-Erichsen, þar sem rædd verða öryggis- og varnarmál, m.a. tvíhliða samstarf Íslands og Noregs á sviði öryggis- og varnarmála og norrænt varnarmálasamstarf. Þá mun utanríkisráðherra einnig hitta fulltrúa í utanríkis- og EES-nefndum norska Stórþingsins.

Síðdegis í dag mun utanríkisráðherra eiga fund með norska starfsbróður sínum, Jonas Gahr Støre, þar sem ræða á samskipti landanna á breiðum grundvelli, meðal annars um málefni norðurslóða, samstarf ríkjanna á sviði varnar- og öryggismála, þróun mála innan Evrópusambandsins og stöðu EES-samningsins. Ennfremur munu ráðherrarnir ræða ástandið fyrir botni Miðjarðarhafsins og önnur þau málefni sem efst eru á baugi á alþjóðavettvangi um þessar mundir verða reifuð.

Á morgun mun utanríkisráðherra eiga fund með Torbjørn Jagland, forseta Stórþingsins. Að þeim fundi loknum mun utanríkisráðherra halda til Trömsö og heimsækja þar Heimskautastofnunina og Sjávarútvegsskólann í Tromsö. 

Heimsókninni lýkur á föstudaginn með fundi utanríkisráðherra með Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira