Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 492/2019 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 492/2019

Miðvikudaginn 19. febrúar 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 26. nóvember 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. nóvember 2019 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en henni metinn örorkustyrkur tímabundið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn 14. ágúst 2019. Með örorkumati, dags. 5. nóvember 2019, var umsókn kæranda synjað en hún var talin uppfylla skilyrði örorkustyrks frá 1. október 2019 til 31. október 2021. Með tölvubréfi 6. nóvember 2019 fór kærandi fram á rökstuðning fyrir ákvörðuninni og var hann veittur með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. nóvember 2019.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. nóvember 2019. Með bréfi, dags. 27. nóvember 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 16. desember 2019, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. desember 2019. Athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru segir að við örorkumat hafi ekki verið tekið tillit til andlegs ástands kæranda. Í rökstuðningi Tryggingastofnunar hafi komið fram að kærandi þurfi að uppfylla sex til tíu stig en hún hafi fengið tvö stig. Kærandi sé greind með þunglyndi, kvíða og áfallastreitu og sé á lyfjum. Hún hafi ekki verið spurð um lyf og þá hafi skoðunarlæknirinn skautað gróflega yfir andlega kaflann. Þetta séu hlutir sem hái kæranda daglega, hún hafi greint frá því og það hafi einnig komið fram í læknisvottorði.

Samkvæmt VIRK hafi 50% vinna ekki gengið og 25% vinna sé meira en nóg fyrir kæranda. Þrátt fyrir að kærandi vinni einungis hálfan dag aðra hvora viku missi hún mikið úr vinnu. Kærandi hafi verið mjög heppin að hafa fengið þá vinnu sem hún sé með í gegnum VIRK og Sinnum, en þar sé tekið mikið tillit til hennar og hennar veikinda. Erfðagreiningardeild hafi augljóslega ekki verið búin að senda inn vottorð um að kærandi sé einnig með X heilkenni sem hafi ekki komið fram á fyrirliggjandi vottorði. Kærandi liggi stundum heima í sjö til tíu daga með mígreni og verkjaköst. Hún sé búin að fara á Reykjalund, tvisvar í VIRK og Þraut og geri það sem hún geti til að hjálpa sjálfri sér til að koma sér aftur af stað. Eftir vinnuprófun hafi hún endað í 25% vinnu sem sé það mesta sem hún geti gert. Það gefi augaleið að kærandi þurfi peninga til að sjá fyrir fjölskyldu sinni og borga fyrir sjúkraþjálfun, læknatíma, lyf og fleira. Kæranda finnist þetta hreinlega vera vanvirðing og mjög streituvaldandi að þurfa að hafa áhyggjur af þessu ofan á veikindin. Ef kærandi gæti unnið meira þá væri hún að vinna meira en hún geti það ekki vegna veikinda sinna. Kærandi geri sitt besta til að halda sig eins og hún geti á vinnumarkaði og halda sér virkri í samfélaginu.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kært sé örorkumat þar sem kæranda hafi verið synjað um örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar en hafi verið ákvarðaður réttur til 50% örorkustyrks samkvæmt 19. gr. sömu laga. Í kæru sé farið fram á að mat stofnunarinnar verði endurskoðað, einkum með vísan til þess að niðurstaðan í andlega þætti örorkumatsins hafi verið röng.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar.

Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Um framkvæmd þess sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat en við það mat sé meðal annars stuðst við sérstakan staðal sem birtur sé í viðauka með reglugerðinni. Í fyrri hluta staðalsins séu spurningar er snúi að líkamlegri færni og þurfi umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lúti að andlegri færni. Þar leggist öll stig saman og þurfi tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins, geti hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki, nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins.

Mál þetta varði örorkumat Tryggingastofnunar, dags. 5. nóvember 2019, með gildistíma frá 1. október 2019 til 31. október 2021. Á grundvelli örorkumatsins hafi kæranda verið synjað um örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar en hún hafi verið talin uppfylla skilyrði örorkustyrks (50% örorka) samkvæmt 19. gr. laganna.

Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi fyrir örorkumatinu þann 6. nóvember 2019 og hafi hann verið veittur með bréfi, dags. 19. nóvember 2019. Þar sé vísað til þess að kærandi hafi samkvæmt áðurnefndu örorkumati fengið fjórtán stig fyrir líkamlega hlutann og tvö stig fyrir andlega hlutann sem nægi ekki til að uppfylla skilyrði staðals um hæsta örorkustig, sbr. reglugerð um örorkumat. Kærandi hafi hins vegar verið úrskurðuð með rétt til örorkustyrks.

Við örorkumat lífeyristrygginga hafi legið fyrir læknisvottorð C, dags. 14. ágúst 2019, svör við spurningalista vegna færniskerðingar, dags. 14. ágúst 2019, starfsgetumat, dags. 3. október 2019, umsókn, dags. 14. ágúst 2019, og skoðunarskýrsla læknis Tryggingastofnunar, dags. 30. október 2019.

Með kæru hafi engin ný gögn fylgt af hálfu kæranda en Tryggingastofnun hafi engu að síður farið yfir öll fyrirliggjandi gögn.

Samkvæmt læknisvottorði, dags. 14. ágúst 2019, vegna umsóknar um örorkubætur lífeyristrygginga sé um að ræða X ára konu sem sé greind með vefjagigt, mígreni, tognanir á hrygg eftir bílslys, þunglyndi, kvíða og iðraólgu. Kærandi hafi lent í bílslysi árið X þar sem hún hafi fengið mjög slæma tognun á allan hrygginn og sé enn með einkenni víða um líkamann af þeim sökum. Hún hafi talsverða áfallasögu og hafi verið að glíma við áfallastreitu, þunglyndi og kvíða. Þá finni hún fyrir orkuleysi og þreytu, einbeitingarskorti og minnistruflunum.

Í skýrslu skoðunarlæknis vegna viðtals við kæranda þann 30. október 2019 séu nánari upplýsingar um framangreinda sjúkdóms- og áfallasögu kæranda. Fram komi að kærandi hafi verið hjá Þraut og greinst með vefjagigt en hún hafi einnig verið í endurhæfingu hjá VIRK og á Reykjalundi X 2018. Kærandi hafi reynt við hálft starf en það hafi ekki gengið og sé hún núna í 25% vinnu sem gangi þokkalega. Verkir séu daglega, ekki síst út frá hálshrygg og megi lítið út af bregða, til dæmis við sjúkraþjálfun, til að verkir versni. Þá muni kærandi nýlega hafa greinst með X. 

Í læknisvottorði, dags. 14. ágúst 2019, sem og í framangreindri skoðunarskýrslu komi fram upplýsingar um lyf sem kærandi taki. Í skoðunarskýrslunni séu einnig upplýsingar um daglegt líf kæranda, svefnvenjur, vinnutilhögun og sjúkraþjálfun.

Í kæru sé farið fram á að mat Tryggingastofnunar á örorku verði endurskoðað. Sé þar einkum vísað til þess að ekki hafi verið tekið nægjanlegt tillit til andlegs ástands kæranda. Hún hafi í viðtali hjá skoðunarlækni tekið fram að hún væri greind með kvíða og þunglyndi og bent á upplýsingar í læknisvottorði því til staðfestingar.

Tryggingastofnun hafi í kjölfar kæru farið ítarlega yfir öll gögn málsins. Stofnunin líti svo á að niðurstaða örorkumatsins sé vel rökstudd að teknu tilliti til umsagnar skoðunarlæknis og annarra gagna varðandi líkamlegt og andlegt heilsufar kæranda. Sé skerðing á starfsgetu kæranda fyrst og fremst rakin til líkamlegra þátta.

Tryggingastofnun vilji bæta því við varðandi spurningu um sjón í líkamlega þætti örorkumatsins að þau atriði sem kærandi bendi á í svari sínu í spurningalista verði ekki heimfærð undir eitt af þeim atriðum sem tiltekin séu í staðli fyrir örorkumat. Þá sé vakin athygli á að upplýsingar um að kærandi hafi verið greind með X hafi legið fyrir þegar örorkumatið hafi verið framkvæmt.

Með vísan til framanritaðs sé niðurstaða Tryggingastofnunar sú að ákvörðun um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri en að úrskurða hana þess í stað með örorkustyrk frá 1. október 2019 til 31. október 2021, hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu. Ákvörðunin hafi byggst á faglegum sjónarmiðum og gildandi lögum og reglugerðum.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. nóvember 2019, þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en henni veittur tímabundinn örorkustyrkur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin að minnsta kosti 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð C, dags. 14. ágúst 2019. Í vottorðinu kemur fram að kærandi sé óvinnufær og að ekki megi búast við að færni hennar aukist. Samkvæmt vottorðinu eru sjúkdómsgreiningar kæranda eftirfarandi:

„[Lumbago Chronica

Kvíði

Þunglyndi

Migraine

Irritable bowel syndrome

Impingement syndrome of shoulder

Tognun / ofreynsla á hálshrygg

Tognun og ofreynsla á brjósthrygg

Fibromyalgia]“

Þá segir í læknisvottorðinu um heilsuvanda og færniskerðingu:

„Um er að ræða X ára gamla konu, sem er greind með vefjagigt, mígreni, tognanir á hrygg eftir bílsslys, þunglyndi, kvíða og iðraólgu.

[Kærandi] greindist með mígreni sem barn og fær mjög tíð mígreniköst, sem hafa svarað illa fyrirbyggjandi meðferð. Hún hefur endurtekið lent inn á bráðamóttöku í mjög slæmu mígrenikasti. Hún lenti í bílsslysi árið X, fékk mjög slæma tognun á allan hrygginn, er enn með einkenni frá hálshrygg og niður í herðar og einnig slæm af mjóbaksverkjum með leiðni niður í mjaðmasvæði og læri. Hún hefur talsverða áfallasögu og hefur verið að glíma við áfallastreitu, þunglyndi og kvíða. Hún er með útbreidda stoðkerfisverki, sérstaklega slæm í hálsi, herðum, mjóbaki, mjaðmagrind og niður í læri og auk þess að fá mígreniköst er hún með stöðugan spennuhöfuðverk. Hún finnur fyrir orkuleysi og þreytu. Finnur fyrir einbeitingarskorti og minnistruflunum. Hún fór í greiningarmat hjá Þraut og er greind með vefjagigt. Verið hjá VIRK og fór á endurhæfingarmeðferð á Reykjalundi haustið 2018. Hún fór í vinnuprófun á vegum VIRK, hefur verið í 25% vinnuhlutfalli, ræður ekki við meira.“

Í lýsingu læknisskoðunar segir:

„Um er að ræða X árs grannvaxna konu, er með veruleg mjúkvefjaeymsli víða um líkamann, er með fullt hús triggerpunkta, er með verulegan ofhreyfileika í hrygg og útlimum. Laus í liðum. […].“

Einnig liggur fyrir læknisvottorð C, dags. 2. apríl 2019, vegna umsóknar kæranda um endurhæfingarlífeyri, sem er að mestu samhljóða yngra vottorði hennar.

Við örorkumatið lá fyrir þjónustulokaskýrsla VIRK, dags. 23. apríl 2019. Þar segir að kærandi sé komin í 25% vinnu. Nánar um ástæðu þjónustuloka segir:

„Einstaklingur kominn í 25% starfshlutfall. Það hentar eins og staðan er hjá [kæranda] í dag. 50% starfshlutfall reyndist henni of mikið.“

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína. Kærandi lýsir heilsuvanda sínum þannig að hún sé með mígreni, vefjagigt, EDS, kvíða, þunglyndi og króníska bak- og hálsáverka eftir bílslys. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að sitja á stól þannig að hún geti ekki setið lengi vegna mjaðmaverkja og verkja niður hægri fót. Einnig eigi hún erfitt með að hafa ekki stuðning fyrir höfuðið vegna verkja í hálsi. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi erfitt með að standa þannig að það sé oftast í lagi í styttri tíma en ekki lengri, það fari einnig mikið eftir dögum. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að ganga þannig að mikil ganga sé henni erfið, styttri vegalengdir séu í lagi á góðum dögum. Fætur eigi það til að gefa eftir vegna verkja í spjaldi og hún hafi dottið. Kærandi svarar spurningu um það hvort erfitt sé að ganga upp og niður stiga þannig að það sé dagamunur á því, mjaðmir og hné séu misslæm. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að nota hendurnar þannig að handleggirnir séu sjálfir oftast til friðs en fingur, háls og brjóstbak stoppi þarna. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að lyfta og bera þannig að hún fái stundum klemmu út í fingur og hún fái dofa og máttarminnkun. Kærandi svarar spurningu um það hvort sjónin bagi hana þannig að hún sé með mígreni, sjóntruflanir og ljósfælni. Oft sé hún með sjóntruflanir dagsdaglega, verst sé að vera utandyra og í sterku ljósi, hún noti sólgleraugu mjög mikið, bæði inni og úti. Þá svarar kærandi spurningu um það hvort hún eigi við geðræn vandamál að stríða játandi, hún eigi við þunglyndi og kvíða að stríða.

Skýrsla D skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hún átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins þann 30. október 2019. Samkvæmt skýrslunni mat skoðunarlæknir líkamlega færniskerðingu kæranda þannig að hún geti ekki setið án óþæginda nema í 30 mínútur og að kærandi geti ekki staðið nema í tíu mínútur án þess að ganga um. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við líkamlega færniskerðingu. Hvað varðar andlega færniskerðingu telur skoðunarlæknir að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda og að hún geti ekki einbeitt sér að því að lesa tímaritsgrein eða hlusta á útvarpsþátt. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu.

Dæmigerðum degi er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Vaknar á [morgnana] snemma þegar hún er með börn sín […], er með góðan yfirmann sem gefur henni svigrúm. [Kærandi] vinnur 8.30 til 12.30 þegar hún er ekki með börnin en annars vinnur hún ekki. Fer vikulega til sjúkraþjálfara og fer líka í Bowen x 1-2 í mánuði. Hefur haft gagn af jóga og langar að fara í það aftur. Félagsstörf hafa dottið niður og hún hefur einangrað sig mikið. Sér sjálf um heimili sitt og allt sem þarf að gera. Á kvöldin gerir hún yfirleitt mjög lítið.“

Geðheilsu kæranda er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Gott viðmót, áttuð á stað og stundu. Lýsir því að hún eigi til kvíða og fullkomnunaráráttu, og að hún reyni að stjórna öllu í kringum sig þegar líðanin er sem verst.“

Líkamsskoðun er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„[…] Afar liðug og laus í liðunum. […]. Vefjagigtargreining var gerð hjá Þraut og aumum triggerpunktum lýst í meðfylgjandi læknisvottorði.“

Heilsufars- og sjúkrasögu er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Um tíu ára aldur greindist [kærandi] með mígreni. Hún fær migreniköstin einkum í 3-4 daga kringum tíðablæðingar. Hún lenti svo í slysi X þar sem hún fékk áverka á háls og bak með verkjum í hálsi og mjöðmum. Hún hefur verið hjá Þraut og greinst með vefjagigt en einnig verið í endurhæfingu hjá VIRK og á Reykjalundi haustið 2018. Hún reyndi að vinna hálft starf en það gekk ekki, hún er í 25% vinnu núna og gengur þokkalega. Verkir eru daglega, ekki síst út frá hálshrygg. Lítið má út af bregða, t.d. við sjúkraþjálfun, að verkir versni og hún getur verið allt að 12 dögum að jafna sig. Þessa verki leggur fram í enni, kinn og höku h.m.svarandi til trigeminus taugar. [Kærandi] hefur alltaf verið það sem kallast laus í liðunum og mun nýlega hafa greinst með X syndrome. [...]“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, hefur yfirfarið mat á örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, sú að kærandi getur ekki setið án óþæginda nema í 30 mínútur. Slíkt gefur sjö stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti ekki staðið nema í 10 mínútur án þess að ganga um. Slíkt gefur sjö stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því líkamleg færniskerðing kæranda metin til fjórtán stiga samtals. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda metur skoðunarlæknir það svo að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti ekki einbeitt sér að því að lesa tímaritsgrein eða hlusta á útvarpsþátt. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því andleg færniskerðing kæranda metin til tveggja stiga.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. almannatryggingalaga mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefndin telur ekki tilefni til að gera athugasemdir við skoðunarskýrslu og leggur hana til grundvallar við mat á örorku kæranda samkvæmt örorkustaðli. Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að þar sem kærandi fékk fjórtán stig úr þeim hluta staðals sem varðar líkamlega færni og tvö stig úr andlega hlutanum, þá uppfylli hún ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat. Þá er það niðurstaða úrskurðarnefndar að kærandi uppfylli ekki undanþáguákvæði 4. gr. reglugerðarinnar sem gerir ráð fyrir að örorka sé metin utan örorkustaðals. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum