Hoppa yfir valmynd
26. mars 2025 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 259/2025 Úrskurður

Hinn 26. mars 2025 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 259/2025

í stjórnsýslumáli nr. KNU24110016

 

Kæra [...]

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 1. nóvember 2024 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Írak ( hér eftir kærandi) ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 29. október 2024, um frávísun frá Íslandi.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi kom til landsins með flugi frá París, Frakklandi, 29. október 2024. Með ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 29. október 2024, var kæranda vísað frá landinu með vísan til c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kærði ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum til kærunefndar útlendingamála 1. nóvember 2024. Kærandi lagði ekki fram sérstaka kröfugerð eða greinargerð vegna málsins. Með bréfi lögreglu, dags. 12. mars 2025, var kæranda tilkynnt um afturköllun hinnar kærðu ákvörðunar að frumkvæði lögreglu, sbr. 25. stjórnsýslulaga.

Kærunefnd sendi kæranda tölvubréf, dags. 17. mars 2025, þar sem hann var upplýstur um forræði á eigin stjórnsýslumáli á kærustigi og honum boðið að afturkalla kæru sína í ljósi málalykta hjá lögreglu. Kæranda var veittur frestur til og með 20. mars 2025 til þess að greina frá afstöðu sinni til málsins. Engin svör bárust frá kæranda.

III.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að lögin gilda, þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Ákvarðanir á grundvelli laga um útlendinga eru kæranlegar til kærunefndar útlendingamála á grundvelli 7. gr. laganna.

Samkvæmt því sem rakið hefur verið afturkallaði lögregla hina kærðu ákvörðun með bréfi, dags. 12. mars 2025. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga er stjórnvaldi heimilt að afturkalla ákvörðun að eigin frumkvæði, sem tilkynnt hefur verið aðila máls, þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila. Ákvörðun um frávísun er íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun og liggur það í hlutarins eðli að afturköllun slíkrar ákvörðunar er kæranda til hagsbóta. Í lögum eða lögskýringagögnum er ekki að finna sérstök fyrirmæli sem koma í veg fyrir afturköllun stjórnvaldsákvörðunar þrátt fyrir að þær hafi verið kærðar, sbr. gagnályktun frá athugasemdum við 24. gr. í frumvarpi til stjórnsýslulaga. Kærandi lagði ekki fram sérstaka kröfugerð eða greinargerð vegna málsins en af kæru má ráða að hann krefjist þess að ákvörðun lögreglu verði felld úr gildi. Að virtum atvikum málsins hefur kærandi nú fengið það uppfyllt án efnislegs úrskurðar. Þá hefur kærandi ekki sett sig upp á móti afturköllun lögreglu.

Að öllu framangreindu virtu er kæru kæranda vísað frá kærunefnd.

 

 

Úrskurðarorð:

Kæru kæranda er vísað frá.

 

The applicant‘s appeal is dismissed.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson                                                  Valgerður María Sigurðardóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta