Hoppa yfir valmynd
11. mars 2005 Innviðaráðuneytið

Vel á vegi stödd í vinnunni

Umferðarstofa hefur hrint af stað verkefninu, Vel á vegi stödd í vinnunni. Verkefnið miðar annars vegar að því að auka öryggi atvinnubílstjóra í akstri og hins vegar að því að lækka rekstrarkostnað fyrirtækja sem reka bifreiðar.

SB_og_samningur_UmferdarstofuFyrr í vikunni undirritaði Umferðarstofa samninga við Ölgerð Egils Skallagrímssonar og Hafnarfjarðarbæ.

Verkefnið gengur út á að auka umferðaröryggi, fyrir bílstjórana sjálfa og aðra vegfarendur. Hagur fyrirtækjanna á að sama skapi að vænkast enda hefur það sýnt sig að breytt aksturslag atvinnubílstjóra skilar fyrirtækjum miklum rekstrarsparnaði. Eldsneytisnotkun minnkar, bílar þurfa minna viðhald, hjólbarðar nýtast lengur og síðast en ekki síst munu iðgjöld bifreiðatrygginga mögulega lækka þar sem umferðaróhöppum og slysum kemur til með að fækka. Þess er einnig vænst að atvinnubílstjórar njóti þess á einhvern hátt ef góður árangur næst.

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, sagði að gæðaframleiðsla snérist ekki bara um það hvernig vara er framleidd heldur og einnig það hvernig svarað er í síma fyrirtækja og hvernig bifreiðum þeirra er ekið.

Gunnar Svavarsson, forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, lýsti yfir ánægju sinni með þetta verkefni en Hafnarfjarðarbær hefur yfir að ráða mörgum bifreiðum þannig að hagsmunir bæjarins eru miklir.

Öllum fyrirtækjum stendur til að boða að taka þátt í þessu verkefni, en athyglinni er fyrst og fremst beint að þeim aðilum sem eru með marga bíla í rekstri. Umferðarstofa býður fyrirtækjum upp á fræðslufundi þeim að kostnaðarlausu.

Umferðarstofa vekur jafnframt athygli á tveimur leiðum til að bæta aksturslag, en þar eru um að ræða vistakstur, en ökukennarar standa fyrir námskeiðum í því sambandi og Saga búnaði, sem er búnaður sem byggir á GPS tækni og skráir ýmsa mikilvæga þætti í akstri ökumanna. Hvort tveggja hefur skilað góðum árangri í rekstri íslenskra fyrirtækja ásamt því að slysum og umferðaróhöppum hefur fækkað.





Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum