Hoppa yfir valmynd
22. mars 2005 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Í átt að auknu umferðaröryggi

Ný löggjöf varðandi Rannsóknarnefnd umferðarslysa

Nýverið samþykkti Alþingi ný lög um rannsóknarnefnd umferðarslysa sem taka eiga gildi 1. september 2005. Er þetta fyrsta heildastæða löggjöfin um rannsóknarnefnd umferðarslysa. 1. Janúar 2004 fluttust umferðar- og umferðaröryggismál til samgönguráðuneytis frá dóms-og kirkjumálaráðuneytinu. Í kjölfar þess var hrundið af stað vinnu innan samgönguráðuneytis við endurskipulagningu þessa málaflokks.

Annars vegar hófst vinna við gerð þingsályktunar um umferðaröryggismál fyrir árin 2005 - 2008 sem nú er fullbúin sem hluti samgönguáætlunar fyrir umrætt tímabil. Sérstakur stýrihópur var skipaður og honum falið að móta nýja heildarstefnu í umferðaröryggismálum, endurmeta markmið og útbúa framkvæmdaáætlun um aðgerðir í þágu umferðaröryggis.

Hins vegar var hafist handa við undirbúning löggjafar um rannsóknarnefnd umferðarslysa. Löggjöf sú sem Alþingi samþykkti nýlega er afrakstur þeirrar vinnu. Hinni nýju löggjöf er ætlað að renna styrkari stoðum undir starfsemi rannsóknarnefndar umferðarslysa og skapa nefndinni þannig réttarstöðu til samræmis við aðrar rannsóknarnefndir, eins og rannsóknarnefndir flugslysa og sjóslysa.

Meginatriði löggjafarinnar lúta einkum að eftirfarandi atriðum; hlutverki og markmiðum rannsóknarnefndarinnar, skipulagi og nefndarskipan, framkvæmd rannsókna af hálfu nefndarinnar, samningu skýrslna í tengslum við störf nefndarinnar og að aðgangi að gögnum hjá nefndinni.

Samkvæmt hinum nýju lögum er markmiðið með störfum rannsóknarnefndar umferðarslysa að leiða í ljós orsakir umferðarslysa svo koma megi í veg fyrir að sams konar umferðarslys hendi aftur og stuðla með því að auknu öryggi í umferðinni hér á landi. Rannsóknir nefndarinnar skulu bæði ná til rannsókna einstakra umferðarslysa svo og til flokka umferðarslysa eða umferðarslysa sem teljast af sama tagi. Með flokki umferðarslysa er átt við afmarkaðar tegundir umferðarslysa, svo sem banaslys. En með slysum af sama tagi er til dæmis átt við öll slys sem verða á einhverjum tilteknum gatnamótum. Rétt er að taka fram að lögunum er ekki ætlað að hagga því fyrirkomulagi sem nú er á rannsókn lögreglu á umferðarslysum.

Rannsóknarnefnd umferðarslysa skal í samræmi við lögin gefa út heildarskýrslu um störf sín ár hvert sem meðal annars skal vera yfirlit yfir helstu störf nefndarinnar á yfirstandandi starfsári, tölfræðilegar samantektir auk tillagna um öryggisúrbætur á sviði umferðarmála. Nefndin getur líka, telji hún tilefni til, samið sérstaka skýrslu um niðurstöður rannsóknar einstaks slyss. Í slíkri skýrslu skal gerð grein fyrir orsök eða sennilegri orsök slyssins auk þess sem þar skulu gerðar tillögur um þær varúðarráðstafanir sem gera má til þess að afstýra frekari slysum af sömu eða líkum orsökum eða draga úr afleiðingum þeirra. Skýrslur nefndarinnar skulu gerðar opinberar.

Í lögunum er gert ráð fyrir að nefndin geti beint tilmælum til viðeigandi aðila um úrbætur í umferðaröryggismálum eftir því sem rannsóknir hennar gefa tilefni til og skulu þeir, sem tillögum er beint til, taka tilhlýðilegt tillit til tilmælanna ef kostur er og hrinda þeim í framkvæmd ef við á. Þetta er mikilvægt nýmæli.

Hér að framan hefur verið greint frá helstu nýmælum og efnisþáttum nýrra laga um rannsóknarnefnd umferðarslysa. Samgönguráðuneytið vinnur með rannsóknarnefnd umferðarslysa, Umferðarstofu og Vegagerð að því að bæta umferðaröryggi fyrir landsmenn. Samgönguráðuneytið og stofnanir þess vinna að því að ná eftirtöldum mælikvörðum á sviði umferðarmála.

  • Fjöldi látinna í umferð á hverja 100.000 íbúa verði sambærilegur við það sem lægst gerist í heiminum árið 2016, mælt sem meðaltal 5 ára.
  • Fjöldi látinna og alvarlegra slasaðra lækki að jafnaði um 5% á ári til ársins 2016.

Tilgangur nýrrar löggjafar um rannsóknarnefnd umferðarslysa er ætlað að stuðla að því að mælikvörðum ráðuneytisins verði náð til hagsbóta fyrir landsmenn alla.

Heimasíða Rannsóknanefndar umferðarslysa, www.rnu.isEfnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira