Hoppa yfir valmynd
23. mars 2005 Innviðaráðuneytið

Framkvæmdir við Héðinsfjarðargöng hefjast í júlí 2006

Fjölmennt var á opnum fundi um samgöngumál sem samgönguráðherra boðaði til á Siglufirði á laugardag.

Fjölmenni var samankomið í Síldarminjasafninu
gestir_a_bryggju

Með samþykkt vegaáætlunar vorið 2000 voru Héðinsfjarðargöng ákveðin, en í júlí 2003 ákvað ríkisstjórnin að fresta framkvæmdum við göngin vegna hættu á þenslu í efnahagslífinu. Á fundinn á laugardag mættu nærri þrjúhundruð heimamenn og gestir, enda búist við því að ráðherrann kæmi með yfirlýsingu varðandi Héðinsfjarðargöng. Svo fór sem búist hafði verið við og tilkynnti samgönguráðherra að Héðinsfjarðargögn væru á ný á dagskrá. Útboð færi fram í haust og fyrirhugað væri að framkvæmdir gætu hafist í júlí 2006. Heimamenn ættu svo að geta ekið fullbúin göngin í lok árs 2009.

Það var við hæfi að ráðherran tilkynnti þessa einstöku framkvæmd í hinu stórglæsilega Síldaminjasafni. Safnið býður upp á óvenjulega funda- og tónleikaaðstöðu og er einstakt líkt og fyrirhuguð Héðinsfjarðargöng. Göngin, sem verða milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, verða í tvennu lagi og saman verða þau lengstu veggöng landsins.
Ákvörðunin um að bjóða göngin út, nú í haust, er að sama skapi ákvörðun um að halda áfram að efla byggðir á norðursvæðinu og Eyjafjarðarsvæðinu. Möguleikar á samstarfi sveitarfélaga á svæðinu stóraukast og atvinnusvæðið stækkar til muna. Mikil ánægja var með yfirlýsinguna hjá Siglfirðingum og eins hjá bæjarstjórum Ólafsfjarðar, Dalvíkur og Akureyrar, enda mat manna að aðgerðin muni styrkja svæðið sem heild.

Nú er fyrirhugað nýtt útboð, enda var öllum tilboðum sem bárust á sínum tíma hafnað. Lægsta tilboð sem barst í fyrra útboði var rúmlega 100% af kostnaðaráætlun. Kostnaður við göngin er áætlaður tæpir 7 milljarðar króna.

Með ráðherra í för voru Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri, Bergþór Ólason aðstoðarmaður ráðherra, Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri og Hreinn Haraldsson framkvæmdastjóri hjá Vegagerðinni. Fyrir fundinn ræddi samgönguráðherra og föruneyti hans hin ýmsu samgöngumál á fundi með bæjarráði Siglufjarðar.

Fjölmenni var samankomið í Síldarminjasafninu
gestir_a_bryggju

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum