Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 11/2021. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 15. apríl 2021
í máli nr. 11/2021:
HP gámar ehf.
gegn
Sorpu bs.

Lykilorð
Útboð. Skil tilboðs. Stöðvunarkröfu hafnað.

Útdráttur
Kröfu kæranda um stöðvun útboðs var hafnað, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 31. mars 2021 kærðu HP gámar ehf. útboð Sorpu bs. (hér eftir vísað til sem varnaraðila) nr. 15058 auðkennt „Endurvinnslustöðvar & Nytjamarkaður GH. Gámaleiga, flutningur og losun gáma frá starfsstöðvum Sorpu bs.“ Kröfugerð kæranda er svohljóðandi: „Gerð er krafa um að kærunefnd útboðsmála stöðvi og ógildi útboðið án tafar. Gerð er krafa um ógildingu á ákvörðun Innkaupaskrifstofu um að tilboð hafi ekki borist frá kæranda þar sem ljóst er að öll nauðsynleg gögn vegna tilboðsgerðarinnar voru vistuð á vef Innkaupaskrifstofunnar þega tilboðsfrestur rann út. Undirritaður telur að um tæknilegt málefni sé að ræða sem sem nauðsynlega þurfi að úrskurða um. Af hálfu kæranda er óskað úrskurðar um það hvort sú aðgerð að hlaða gögnum inn á útboðsvef Innkaupastofnunar jafngildi því að tilboð hafi verið lagt fram jafnvel þó ekki hafi verið unnt að staðfesta formlega með því að ýta á þar til gerðan hnapp? Kærandi hefur lýst yfir vilja sínum til að standa við framangreint tilboð og hefur lýst tæknilegum vandamálum við að senda framangreinda staðfestingu. Kærandi telur því að kærunefnd útboðsmála þurfi að úrskurða og kanna hvort farið hafi verið eftir lögum um opinber innkaup og hvort ákvæði stjórnsýslulaga hafi verið virt.“

Í greinargerð varnaraðila 9. apríl 2021 er þess krafist að kröfu kæranda um stöðvun útboðsins og samningsgerðar verði hafnað.

Í þessum hluta málsins verður tekin afstaða til kröfu kæranda um að kærunefnd útboðsmála stöðvi um stundarsakir innkaupaferli varnaraðila þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

I

Hinn 10. febrúar 2021 auglýsti varnaraðili hið kærða útboð á Evrópska efnahagssvæðinu. Í grein 0.1 útboðsgagna sagði að Innkaupaskrifstofa Reykjavíkurborgar fyrir hönd varnaraðila óskaði eftir tilboðum í gámaleigu, flutning og losun gáma frá starfsstöðvum varnaraðila, sem samanstæðu af endurvinnslustöðvum og nytjamarkaði Góða hirðisins samkvæmt útboðsgögnunum. Um væri að ræða almennt útboð þar sem hvaða fyrirtæki sem er gæti lagt fram tilboð. Innifalið í tilboði skyldi vera allt það sem til þyrfti til að vinna verkið eins og það væri skilgreint í útboðsgögnum. Gera skyldi tilboð í hverja endurvinnslustöð sérstaklega og nytjamarkað Góða hirðisins á meðfylgjandi tilboðsblaði og sundurliða í tilboðsskrám. Í grein 0.6 útboðsgagna sagði að tilboð skyldi sett fram í tilboðsbók og skilað ásamt umbeðnum gögnum með rafrænum hætti á útboðsvef Reykjavíkurborgar. Ekki væri hægt að skila inn tilboðum eftir að tilboðsfrestur væri runninn út. Þar sagði jafnframt að Innkaupaskrifstofa Reykjavíkurborgar mælti með því að bjóðandi kynnti sér útboðsvef Reykjavíkurborgar. Ekki væri tryggt að bjóðandi fengi aðstoð við notkun útboðsvefsins. Innkaupaskrifstofan myndi leitast við að aðstoða bjóðanda við notkun útboðsvefsins enda bærist ósk þar um með hæfilegum fyrirvara eða eigi síðar en tveimur virkum dögum fyrir viðkomandi tímafrest.

Samkvæmt grein 0.1.1 útboðsgagna rann tilboðsfrestur út 15. mars 2021 klukkan 10:00 og var jafnframt gert ráð fyrir opnun tilboða þann dag. Þessi frestur var framlengdur og var að endingu ákveðinn 31. mars 2021 klukkan 10:00 með viðauka við útboðsgögn 22. mars 2021.

Með tölvubréfi 31. mars 2021 klukkan 10:12 óskaði fyrirsvarsmaður kæranda eftir því við Innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar að hún staðfesti að tilboð hans hefði verið móttekið. Með svarbréfi starfsmanns Innkaupaskrifstofunnar sem sent var sama dag klukkan 11:18 var upplýst að ekkert tilboð hefði borist frá kæranda fyrir tilgreindan opnunartíma tilboða. Vísaði starfsmaðurinn til 3. efnisgreinar greinar 0.6 útboðsgagna varðandi gerð, framsetningu og afhendingu tilboðs.

II

Kærandi byggir einkum á því að hann hafi skilað með sannanlegum hætti tilboði ásamt fylgiskjölum í hinu kærða útboði innan tilboðsfrests 31. mars 2021. Hafi það verið gert á útboðsvef Innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar á svæði sem sérstaklega hafi verið ætlað fyrir hið kærða útboð. Er kærandi hafi ætlað að staðfesta tilboðið formlega með því að ýta á tiltekinn hnapp á tilboðsvefnum hefði kerfið ekki heimilað það og langan tíma tekið að finna út úr því hvað stæði skilum tilboðsins í vegi. Hafi þá verið óskað eftir aðstoð við að ljúka ferlinu við staðfestingu tilboðsins sem hafi ekki verið veitt. Síðar hafi komið í ljós að tæknileg villa í útboðinu hafi leitt til þessa, þ.e. að gerð hafi verið krafa um að bjóðendur létu fylgja með tilboði gögn um undirverktaka jafnvel þótt ætlunin væri ekki að nýta slíka þjónustu. Í leiðbeiningum með útboðinu hafi ekki verið fjallað um að nauðsynlegt væri að staðfesta sérstaklega undirverktaka, óháð því hvort þjónusta þeirra væri boðin, heldur einungis hvort tilboðsgjafi hygðist nýta sér undirverktaka. Vefsvæði hins kærða útboðs hefði lokast klukkan 10:00 hinn 31. mars 2021 og eftir þann tíma hefði ekki verið unnt að gera frekari breytingar á tilboðinu eða koma að frekari gögnum. Þrátt fyrir framangreint sé óumdeilt að öll gögn vegna tilboðsgerðarinnar hafi borist Innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar innan tilboðsfrests og hafi þau verið vistuð á útboðsvefnum, þ.m.t. undirrituð tilboðsskrá og aðaltilboð með afsláttum.

Varnaraðili byggir einkum á því að lýsing kæranda á málavöxtum sé röng. Kærandi hafi ekki skilað tilboði né fylgigögnum til Innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar, hvorki fyrir né eftir tilboðsfrest. Þá hafi Innkaupaskrifstofan ekki aðgang að þeim gögnum sem kærandi hafi hlaðið upp á útboðssvæðinu og geti það því ekki jafngilt því að tilboði hafi verið skilað áður en tilboðsfrestur hafi runnið út. Skýrlega hafi verið mælt fyrir um það í grein 0.6 útboðsgagna að ekki væri hægt að skila inn tilboðum eftir að tilboðsfrestur rynni út. Starfsmaður Innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar og framkvæmdastjóri kæranda hafi átt í tölvubréfs- og símasamskiptum klukkan 10:12 og 10:40 hinn 31. mars 2021, eftir að tilboðsfrestur hafði runnið út. Í tölvubréfi klukkan 10:12 hafi framkvæmdastjóri kæranda greint frá því að kærandi hefði verið að vandræðast með hið kærða útboð og væri stressaður yfir því hvort tilboð hefði borist og óskaði staðfestingar þess. Þá hafi framkvæmdastjórinn sent skjáskot með tölvubréfi klukkan 11:00 af skilaboðum sem hann hafi sent í gegnum útboðsvef, sem hann hafi talið vera staðfestingu þess að tilboði hefði verið skilað. Hafi starfsmaður Innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar svarað tölvubréfinu klukkan 11:18 sama dag á þá leið að tilboði hefði ekki verið skilað innan tilboðsfrests samkvæmt útboðsskilmálum og því kæmist það ekki að síðar, sbr. grein 0.6 útboðsgagna. Útboðsvefur Innkaupaskrifstofu Reykjavíkur, sem hafi annast hið kærða útboð, sé viðurkenndur útboðsvefur sem uppfylli kröfur 22. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Útboðssvæðið hafi verið sett upp með þeim hætti að til staðar hafi verið svonefnd hólf fyrir skil á tilboðum og umbeðnum fylgigögnum fyrir hvern hluta útboðsins. Skila hafi þurft gögnum í hvert þessara hólfa til að bjóðandi gæti skilað tilboði ásamt fylgigögnum. Uppsetning á hólfum vegna fylgigagna, þ.m.t. vegna undirverktaka, hafi verið með þeim hætti að hlaða hafi þurft gögnum/skrám í hvert og eitt hólfanna til þess að unnt væri að skila tilboði. Hafi skjölum ekki verið hlaðið í viðeigandi hólf hafi bjóðandi fengið villuskilaboð þegar ýtt var á skipun um skil tilboðs þar sem upplýst hafi verið að gögn vantaði í hólf. Innkaupaskrifstofa Reykjavíkurborgar hafi ekki aðgang að gögnum sem hlaðið sé á svæðið nema tilboði sé skilað, en það sé í samræmi við 5. mgr. 22. gr. laga nr. 120/2016. Staðfesting þar að lútandi liggi fyrir frá hugbúnaðarfyrirtæki. Það sé á ábyrgð bjóðanda að skila tilboðum og fylgigögnum með þeim hætti sem áskilinn sé, sbr. 64. gr. laga nr. 120/2016 og meginreglur opinbers útboðsréttar. Kærandi hafi ekki hafist handa við að hlaða gögnum inn á útboðssvæðið fyrr en seinni hluta 30. mars 2021. Gögn málsins beri með sér að Innkaupaskrifstofa Reykjavíkurborgar hafi leitast við að aðstoða kæranda við skil tilboðs að morgni 31. mars en hafi ekki náð sambandi við kæranda fyrr en að loknum tilboðsfresti. Kærandi hafi hinn 30. mars 2021 klukkan 16:07 sent skilaboð gegnum útboðsvef þar sem óskað hafi verið eftir leiðbeiningum vegna skila á tilboði. Starfsmaður Innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar hafi séð þau skilaboð klukkan 08:49 hinn 31. mars 2021 og reynt að hringa í framkvæmdastjóra kæranda sem hafi ekki svarað. Í kjölfarið hafi starfsmaðurinn sent skilaboð klukkan 08:56 til kæranda gegnum útboðsvefinn þess efnis að hann hefði reynt að hringja í fyrirsvarsmann kæranda og hægt væri að ná í hann símleiðis í gegnum beint símanúmer. Kærandi hafi ekki skoðað umrædd skilaboð fyrr en klukkan 10:00 sama dag. Í þessu samhengi verði að líta til greinar 0.6 útboðsgagna þar sem mælt sé fyrir um að beiðnir um aðstoð vegna útboðsins skuli koma fram eigi síðar en tveimur virkum dögum fyrir viðkomandi tímafrest.

III

Aðila greinir annars vegar á um hvort tilboð kæranda í hinu kærða útboði hafi borist varnaraðila fyrir lok tilboðsfrests og hins vegar hvort heimilt hafi verið að gera þá kröfu fyrir skilum tilboðs gegnum stafrænt útboðssvæði að hlaða skyldi upp gögnum um undirverktaka óháð því hvort þeir væru boðnir.

Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að tilboð kæranda hafi ekki borist varnaraðila fyrir lok tilboðsfrests, enda þótt gögnum vegna tilboðsins hafi verið hlaðið upp á útboðssvæði Innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar. Virðist þannig ekki hafa gengið eftir að skila tilboðinu með því að ýta á skipun þess efnis á útboðssvæðinu þar sem villa kom upp. Þessi skipun var forsenda þess að tilboð bærist og að varnaraðili hefði aðgang að tilboðinu sem og fylgigögnum. Ekki verður ráðið að svo stöddu af framlögðum gögnum að uppsetning á útboðssvæði er varnaraðili nýtti vegna hins kærða útboðs hafi hindrað skil tilboða eða að fyrirkomulagið hafi með einhverjum hætti verið andstætt 22. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Gera verður þær kröfur til bjóðenda í opinberum útboðum að þeir kynni sér á hvaða formi skila beri inn tilboðum og æski aðstoðar með nægjanlegum fyrirvara ef álitamál koma upp um framsetningu tilboðs, en vikið var að þeim möguleika í grein 0.6 í útboðsgögnum sem áður hefur verið rakin. Þá verður ekki annað séð en að Innkaupaskrifstofa Reykjavíkurborgar, sem hafði milligöngu um framkvæmd hins kærða útboðs fyrir hönd varnaraðila, hafi leitast við að veita kæranda aðstoð áður en tilboðsfrestur hins kærða útboðs rann sitt skeið.

Með vísan til þess sem að framan greinir eru að mati nefndarinnar ekki fram komnar verulegar líkur á að varnaraðilar hafi brotið gegn lögum nr. 120/2016 um opinber innkaup sem leitt geti til ógildingar ákvarðana eða annarra athafna varnaraðila. Verður því að hafna kröfu kæranda um stöðvun hins kærða útboðs þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, sbr. 1. mgr. 110. gr. nr. 120/2016.

Ákvörðunarorð:

Hafnað er kröfu kæranda, HP gáma ehf., um að stöðva um stundarsakir útboð varnaraðila, Sorpu bs., nr. 15058 auðkennt „Endurvinnslustöðvar & Nytjamarkaður GH. Gámaleiga, flutningur og losun gáma frá starfsstöðvum Sorpu bs.“


Reykjavík, 15. apríl 2021

Ásgerður Ragnarsdóttir

Eiríkur Jónsson

Auður Finnbogadóttir

 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum