Hoppa yfir valmynd
21. júní 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 291/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 21. júní 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 291/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18050052

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 25. maí 2018 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. maí 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Þýskalands.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar með vísan til 42. gr., sbr. 3. mgr. 36. gr., og 2. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 7. desember 2017. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann 13. desember 2017, kom í ljós að fingraför hans höfðu m.a. verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Þýskalandi. Þann 19. desember 2017 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Þýskalandi, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 22. desember 2017 barst svar frá þýskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 4. maí 2018 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Þýskalands. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 15. maí 2018 og kærði kærandi ákvörðunina þann 25. maí 2018 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 5. júní 2018 ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Þýskalands. Flutningur kæranda til Þýskalands fæli ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. og 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar aðstæður væru fyrir hendi þannig að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi var ekki talinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Þýskalands, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæra frestaði réttaráhrifum, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi í viðtali hjá Útlendingastofnun m.a. gert athugasemdir við að verða sendur aftur til Þýskalands. Hann hafi fengið þar synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd og því bíði hans þar aðeins endursending til heimaríkis. Kærandi kveðst standa frammi fyrir hættu í heimaríki. Þar hafi hann ranglega verið sakaður um að hafa átt upptök að slagsmálum og [...]. Í kjölfarið hafi [...] hótað að beita kæranda ofbeldi, skera líkama hans og ráða hann af dögum. Kærandi hafi ekki haft tíma til að leita aðstoðar lögreglu auk þess sem það hefði verið til lítils þar sem umræddur einstaklingur, sem kærandi óttist, sé fjársterkur og lögreglan myndi því fara að vilja hans. Því hafi kærandi séð sér þann eina kost færan að flýja land. Kærandi kveður heilsufar sitt almennt vera gott en hann eigi þó erfitt með svefn. Þá hafi hann fengið skyndilegan magaverk og mikinn kláða á líkama eftir komu hingað til lands og þurft að leita á sjúkrahús vegna þess. Í gögnum málsins komi fram að kærandi hafi leitað á bráðamóttöku Landspítala vegna kviðverkja og á meðferðarseðli komi fram að kærandi hafi verið verkjaður, hann hafi verið verkjastilltur og gefinn vökvi í æð.

Krafa kæranda um að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi er aðallega reist á því að endursending kæranda til Þýskalands feli í sér brot gegn non-refoulement¬ reglu flóttamannaréttar, sem sé jafnframt grundvallarregla í þjóðarétti og því bindandi fyrir öll ríki án tillits til alþjóðlegra skuldbindinga þeirra. Reglan sé jafnframt lögfest í 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 36. gr. sömu laga. Verði kærandi endursendur til Þýskalands bíði hans vís áframsending til heimaríkis síns en þar telji kærandi að líf hans sé í hættu vegna þeirra hótana sem hann hafi fengið. Bendir kærandi m.a. á að gríðarleg spilling ríki innan lögreglunnar í heimaríki sem og á öðrum sviðum réttarvörslukerfisins, og þekkt sé að lögreglan þiggi mútur. Krafa kæranda er jafnframt reist á því að sérstakar ástæður, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, mæli með því vegna viðkvæmrar stöðu hans, en í því tilliti þurfi að líta vandlega til einstaklingsbundinna aðstæðna hans. Kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í Þýskalandi. Hann hafi ekki haft aðgang að ókeypis lögfræðiþjónustu þar, auk þess sem hann hafi ekki haft tök á að afla sér menntunar eða vinnu þar í landi. Þá hafi kærandi átt erfitt með svefn og þurft að leita á sjúkrahús hér á landi vegna skyndilegs magaverkjar og útbrota.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda.

Fyrir liggur í máli þessu að þýsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Þýskalands er byggt á því að kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi. Eru skilyrði c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Í 32. gr. a-b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í 32. gr. a kemur m.a. fram að með sérstökum ástæðum sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan, aðrar en þær sem myndu að jafnaði rúmast innan 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá er m.a. nefnt í dæmaskyni ef umsækjandi mun eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, ef umsækjandi af sömu ástæður getur vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki og ef umsækjandi glímir við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð við er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. sáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar og í einhverjum tilvikum kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda í viðtökuríki taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Greining á sérþörfum sbr. 25. gr. og 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga

Kærandi var ekki metinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans hjá Útlendingastofnun. Kærandi er einhleypur karlmaður á [...]. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi vera við ágæta andlega og líkamlega heilsu en hann hafi þó m.a. fengið magapínu og bakverki. Í gögnum um heilsufar kæranda sem hann hefur lagt fram við meðferð málsins kemur m.a. fram að kærandi hafi verið fluttur á bráðamóttöku Landspítalans þann 8. mars s.l. vegna kviðverkja og í kjölfarið lagður inn og þegið meðferð. Ástæða veikindanna sé aftur á móti ekki ljós og kærandi verið úrskrifaður af spítalanum 9. mars 2018. Þá segir í samskiptaseðli frá Göngudeild sóttvarna, dags. 12. mars 2018, að kærandi hafi leitað til Göngudeildarinnar vegna útbrota á húð, sem líklega væru komin til vegna ofnæmis eða veirusýkingar, en að kærandi hafi fengið viðeigandi lyf við því.

Þótt kærandi hafi þegið læknismeðferð hér á landi bera gögn málsins ekki með sér að líkamleg veikindi hans séu þess eðlis að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu að því er varðar meðferð máls hans hér á landi, enda fær kærunefnd ekki séð að aðstæður hans séu þess eðlis að hann hafi sérstakar þarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls hér eða að hann geti ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum um útlendinga án aðstoðar eða sérstaks tillits, sbr. 6. tölul. 3. gr. og 25. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður og málsmeðferð í Þýskalandi

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Þýskalandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • 2017 Human Rights Report – Germany (United States Department of State, 20. apríl 2018),
  • Amnesty International Report 2017/18 – Germany (Amnesty International, 22. febrúar 2018),
  • Asylum Information Database, Country Report: Germany (European Council on Refugees and Exiles, 31. mars 2018),
  • ECRI Report on Germany (European Commission against Racism and Intolerance, 25. febrúar 2014),
  • Freedom in the World 2018 – Germany (Freedom House, 2. febrúar 2018),
  • From host country to deportation country – latest asylum reform in Germany (European Council on Refugees and Exiles (ECRE), 26. maí 2017),
  • Report by Nils Muižnieks Commissioner for Human Rights of the Council Of Europe Following his Visit to Germany on 24th April and from 4 to 8 May 2015 (Council of Europe: Commissioner for Human Rights, 1. október 2015),
  • Upplýsingar af heimasíðu þýsku útlendingastofnunarinnar (www.bamf.de) og
  • World Report 2018 – European Union (Human Rights Watch, 18. janúar 2018).

Í ofangreindum gögnum kemur fram að umsækjendur sem fengið hafa synjun á umsókn sinni hjá þýsku útlendingastofnuninni (þ. Bundesamt für Migration und Flüchtlinge) geta kært niðurstöðuna til sérstaks stjórnsýsludómstóls. Fái umsækjendur synjun á umsókn sinni hjá Útlendingastofnun eða stjórnsýsludómstól eiga þeir möguleika á því að leggja fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd hjá Útlendingastofnun. Ef nýjar upplýsingar eða gögn liggja fyrir í máli umsækjanda, aðstæður hafa breyst í máli hans eða verulegir annmarkar voru á fyrri málsmeðferð, geta skilyrði viðbótarumsóknar verið uppfyllt. Umsækjendur geta borið mál sitt undir þýska dómstóla sé viðbótarumsókn þeirra synjað. Jafnframt eiga umsækjendur þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á alþjóðlegri vernd hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem brýtur í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér verður talið að þýsk stjórnvöld uppfylli skyldur sínar varðandi lögfræðiaðstoð til handa umsækjendum um vernd skv. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 32/2013 um málsmeðferð við veitingu og afturköllun alþjóðlegrar verndar, sbr. 19. og 20. gr. hennar. Þýsk yfirvöld tryggja umsækjendum ekki lögfræðiaðstoð endurgjaldslaust við meðferð máls á fyrsta stjórnsýslustigi en frjáls félagasamtök veita almennt gjaldfrjálsa lögfræðiaðstoð á fyrsta stigi málsmeðferðar. Á kærustigi eiga umsækjendur kost á lögfræðiráðgjöf og fyrir dómstólum geta þeir sótt um aðstoð lögmanns á kostnað þýskra yfirvalda. Umsóknir eru metnar og þær samþykktar séu þær ekki álitnar bersýnilega tilhæfulausar. Umsækjendur um alþjóðlega vernd fá ekki endurgjaldslausa aðstoð lögfræðings við að leggja fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd í Þýskalandi eða við að bera synjun á viðbótarumsókn undir dómstóla. Þá benda gögnin til þess að úr málum umsækjenda um alþjóðlega vernd sé leyst á einstaklingsgrundvelli.

Þýskaland er aðildarríki Evrópusambandsins og hefur innleitt tilskipanir sambandsins vegna meðferðar og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Í þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Þýskalandi kemur fram að umsækjendum séu tryggð búsetuúrræði og mataraðstoð. Þá verður ráðið af framangreindum gögnum að umsækjendur um alþjóðlega vernd í Þýskalandi eiga rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu sem þeir þurfi á að halda, þ. á m. lyfjum. Umsækjendur um alþjóðlega vernd í Þýskalandi fá almennt aðgang að atvinnumarkaðnum þar í landi þremur mánuðum eftir að þeir leggja fram umsókn sína.

Að mati kærunefndar bera gögn málsins það með sér að í Þýskalandi sé almennt veitt fullnægjandi vernd gegn brottvísun umsækjenda um alþjóðlega vernd til ríkja þar sem einstaklingar eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum og lífi þeirra og frelsi ógnað. Er þá sérstaklega litið til þess að þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda eindregið til þess að málsmeðferð þýskra yfirvalda sé fullnægjandi og veiti umsækjendum um alþjóðlega vernd viðunandi úrræði til að tryggja að réttur þeirra sé ekki brotinn og að einstaklingsbundið mat verði lagt á aðstæður þeirra. Að mati kærunefndar bendir ekkert til þess að umsækjendum sé synjað sjálfkrafa um alþjóðlega vernd í Þýskalandi eða þeir endursendir til heimaríkis án þess að leyst sé úr málum þeirra á einstaklingsgrundvelli. Þá er Þýskaland bundið að þjóðarétti til að fylgja reglunni um að einstaklingum skuli ekki vísað brott þangað sem líf þeirra eða frelsi kann að vera í hættu (non-refoulement).

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Þýskalandi hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda þangað brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Þýskalandi bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Enn fremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Þýskalands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Áður hefur verið greint frá aðstæðum kæranda. Að mati kærunefndar bera gögn málsins ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að kærandi geti af sömu ástæðu vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki. Þá fær kærunefnd ekki séð að hann glími við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð er aðgengileg við hér á landi en ekki í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá verður ekki séð af gögnum málsins að fyrir hendi sé ástæða í máli kæranda er varðar heilsufar hans sem sé svo einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði framhjá henni litið, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Af gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Þýskalandi má ráða að umsækjendur eigi rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu sem þeir þurfi á að halda fram að brottflutningi þeirra frá landinu. Telur kærunefnd því ekki forsendur til annars, í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður í landinu, en að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi hafi aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu þar í landi. Þá eru þýsk stjórnvöld bundin af tilskipunum Evrópusambandsins um móttöku og málsmeðferð umsækjanda um alþjóðlega vernd og benda gögn málsins eindregið til þess að meðferð máls kæranda verði og hafi verið í samræmi við lög. Kærunefnd hefur yfirfarið þau gögn sem kærandi lagði fram með kæru sinni, svo og skýrslur og upplýsingar um aðstæður í Þýskalandi. Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 14. mars 2018 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 7. desember 2017. FrávísunKærandi kom hingað til lands 7. desember 2017 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.Kærandi skal fluttur til Þýskalands ekki síðar en 6 mánuðum eftir birtingu þessa úrskurðar, sbr. til hliðsjónar 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.SamantektÍ máli þessu hafa þýsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Þýskalands með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir

Árni Helgason                                                    Erna Kristín Blöndal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum