Hoppa yfir valmynd
6. ágúst 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

312/2020

 

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 312/2020

Miðvikudaginn 26. ágúst 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 19. júní 2020, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. mars 2020 þar sem kæranda var synjað um breytingu á gildandi örorkumati. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 10. mars 2020. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. mars 2020, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki skilyrði staðals um örorkumat.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 19. júní 2020. Með bréfi, dags. 23. júní 2020, var kæranda tilkynnt um að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hún að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, gætu átt við í málinu. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er farið fram á Tryggingstofnun ríkisins endurskoði afstöðu sína til synjunar á örorku.

Í kæru er greint frá því að Tryggingastofnun hafi synjað umsókn kæranda um örorku á þeim grundvelli að skilyrði staðals væru ekki uppfyllt. Til að varpa ljósi á erfiðar aðstæður kæranda vísi hún til fyrirliggjandi læknisvottorða Tryggingastofnunar og samantektar frá B þann 20. nóvember 2019.

Í kjölfar synjunar Tryggingastofnunar hafi verið kannað með möguleika á áframhaldandi starfsendurhæfingu. Starfsendurhæfing hjá VIRK sé metin fullreynd og þrátt fyrir synjun Tryggingastofnunar breyti það engu með afstöðu VIRK.

Kærandi hafi sótt um endurhæfingarlífeyri að nýju með aðstoð C heimilislæknis sem haldi utan um þá endurhæfingu sem eigi sér stað núna. Hún hafi sótt áfram viðtöl hjá D og hjá félagsráðgjafa og sótt sundleikfimi. Kærandi þurfi sjálf að greiða allan kostnað vegna endurhæfingarinnar sem einnig takmarki hvað hún geti sótt. Í kæru greinir kærandi frá því að C læknir hafi sótt um fyrir hana hjá Verkjateymi Landspítalans og Reykjalundi.

Niðurstaða VIRK og Birtu lífeyrissjóðs sé sú að óraunhæft sé að kærandi snúi til vinnu á ný með fulla starfsgetu. Tryggingastofnun telji þó að hún uppfylli ekki skilyrði staðals um örorkumat og virðist hvorki taka mark á niðurstöðu VIRK, örorkumati Birtu lífeyrissjóðs né læknisvottorði.

Kærandi sé fjárhagslega háð Tryggingastofnun og helstu áhyggjur hennar séu hvort hún fái áframhaldandi endurhæfingarlífeyri og hvort hún geti áfram greitt fyrir og sótt þá endurhæfingu sem hún stundi sem sé þó í raun ekki að breyta heilsufari hennar. Kæranda finnist einnig óréttlátt að fá engan fjárhagslegan styrk til þess að greiða fyrir þau endurhæfingarúrræði sem hún sæki. Síðasta greiðsla endurhæfingarlífeyris sé 1. júlí. Kærandi muni sækja um örorkumat að nýju þar sem heilsa hennar sé óbreytt frá því að hún hafi lokið endurhæfingu hjá VIRK en um leið hræðist hún það þar sem henni skiljist að hún geti ekki verið með endurhæfingarlífeyri á meðan hennar mál sé metið að nýju hjá Tryggingastofnun, enda muni greiðslur falla niður um leið og hún óski á ný eftir örorkumati sem sé þó það sem henni sé ráðlagt að gera vegna heilsu sinnar og starfsgetu.

III.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. mars 2020 þar sem kæranda var synjað um breytingu á gildandi örorkumati.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.

Samkvæmt gögnum málsins liðu þrír mánuðir og sjö dagar frá því að kæranda var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. mars 2020, þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 19. júní 2020. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því liðinn þegar kæran barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort atvik séu með þeim hætti að afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 12. mars 2020 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Með bréfum úrskurðarnefndar, dags. 23. júní og 27. júlí 2020, var kæranda veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hún að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, gætu átt við í málinu. Hvorki bárust athugasemdir né gögn frá kæranda. Í ljósi þess er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekkert í gögnum málsins bendi til þess að afsakanlegt sé að kæra hafi ekki borist fyrr. Þá verður ekki heldur séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, enda virðist ekkert vera því til fyrirstöðu að kærandi geti sótt um örorkumat á ný.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum