Hoppa yfir valmynd
23. ágúst 2001 Innviðaráðuneytið

Bréf samgönguráðherra til RNF

Samgönguráðherra hefur skrifað RNF bréf þar sem talið er æskilegt að nefndin afli sér gagna er sýna björgunaraðgerðir flugslyssins í Skerjafirði 7. ágúst 2000.

Samgönguráðherra kynnti á blaðamannafundi þann 29. júní s.l. bréf og skýrslu Alþjóðaflugmálastofnunarinnar ICAO til ráðherra í kjölfar flugslyssins í Skerjafirði þann 7. ágúst 2000. Á þeim fundi var tilkynnt að ráðuneytið muni taka tillit til framkominna athugasemda og leita allra leiða til að tryggja enn frekar öryggi flugs á Íslandi. Þá þáði ráðuneytið nýverið boð Friðriks Þórs Guðmundssonar og Jóns Ólafs Skarphéðinssonar, um að skoða myndband af björgunaraðgerðum vegna flugslyssins í Skerjafirði. Myndbandið, sem var tekið af íbúa í Skerjafirði, sýndi nánast allt björgunarferlið. Að mati ráðuneytisins varpar myndbandið ljósi á björgunaraðgerðirnar, aðstæður til björgunar og þann öryggisútbúnað sem var á staðnum.

Um svipað leyti komu fram upplýsingar um skýrslu slökkviliðsins í Reykjavík um sama mál og minnisblað Flugmálastjórnar, auk fundargerða um björgunarbátinn sem notaður var við björgunaraðgerðirnar. Rannsóknarnefnd flugslysa hefur staðfest að gögnum þessum hafi ekki verið komið til nefndarinnar meðan verið var að vinna að rannsókn flugslyssins og hún hafi ekki haft vitneskju um tilvist þeirra fyrr en nú.

Í ljósi þessa hefur samgönguráðherra ákveðið:
1. Ráðuneytið hefur sent Rannsóknarnefnd flugslysa bréf þar sem áréttað er að ráðuneytið hafi ekki heimild til að gefa nefndinni fyrirmæli. Ráðuneytinu þykir þó rétt að koma á framfæri við nefndina því áliti sínu, að það verði að teljast eðlilegt og beinlínis æskilegt að nefndin afli sér ofangreindra gagna og e.t.v. frekari upplýsinga til að leggja mat á efni þeirra og mikilvægi. Vakin er athygli á 3. mgr. 11. gr. laga nr. 59/1996 um rannsóknir flugslysa, en þar segir að nefndinni sé heimilt að kalla til starfa sérfræðinga á tilteknum sviðum telji hún það nauðsynlegt. Á grundvelli slíks faglegs mats hljóti nefndin að taka rökstudda ákvörðun um það hvort tilefni geti verið til að endurupptaka þann þátt í skýrslu nefndarinnar sem fjallar um björgunaraðgerðirnar.

2. Skipaður verður starfshópur sem fari yfir öryggismál á flugvöllum landsins og leggi fram drög að reglugerð um starfsemi flugvalla og tillögur að nauðsynlegum lagabreytingum. Jafnframt skal starfshópurinn gera tillögur að nauðsynlegum breytingum á starfsemi flugöryggissviðs Flugmálastjórnar. Formaður starfshópsins verður Gísli Baldur Garðarsson, hæstaréttarlögmaður.3. Skipaður verður starfshópur sem geri tillögur til ráðherra, m.a. í ljósi athugasemda ICAO, um breytingar á lögum og reglugerð um rannsóknir flugslysa. Formaður starfshópsins verður Andri Árnason, hæstaréttarlögmaður.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum