Hoppa yfir valmynd
15. september 2023 Matvælaráðuneytið

Breytt skilyrði fyrir blóðmerahaldi

Í kjölfar samskipta milli eftirlitssstofnunar EFTA (ESA) og matvælaráðuneytisins mun reglugerð sem gilt hefur síðan 2022 um blóðmerahald verða felld úr gildi og starfsemin felld undir undir reglugerð nr. 460/2017 um vernd dýra sem notuð eru í vísindaskyni sem innleiðir tilskipun 2010/63/EB sem felld var inn í EES samninginn árið 2014.

Í formlegu áminningarbréfi ESA frá 10. maí sl. kemur fram afstaða stofnunarinnar um að Ísland hafi brotið gegn ákvæðum framangreindrar tilskipunar og ákvæðum EES samningsins með setningu sérreglna um málefnið. Málið snýr að túlkun á gildissviði regluverksins sem um ræðir og hafa íslensk stjórnvöld fallist á að blóðtaka úr fylfullum merum fyrir framleiðslu á PMSG/eCG hormóni falli innan gildissviðs regluverksins.

Reglugerð um blóðtöku úr fylfullum hryssum nr. 900/2022 verður felld úr gildi frá 1. nóvember nk. Lögð er áhersla á að gæta meðalhófs og að hagaðilum sé gefið tækifæri til að aðlaga sig að nýrri lagaumgjörð. Eftir 1. nóvember mun reglugerð nr. 460/2017 um vernd dýra sem eru notuð í vísindaskyni gilda um starfsemina.

Að fella starfsemi blóðmerahalds undir umrædda reglugerð felur í sér að formkröfur til ákveðinna þátta starfseminnar munu breytast, til dæmis varðandi starfsleyfi sem Matvælastofnun annast samkvæmt reglugerðinni.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum