Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 2018 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 3/2018 - Úrskurður

Mál nr. 3/2018

 

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

B

 

Ráðning í starf. Hæfnismat.

B auglýsti í desember 2017 starf verkefnastjóra fyrir verkefnið [...]. Stýrihópur er tók ákvörðun um ráðninguna fjallaði um sex umsóknir og stóð val milli kæranda, sem er karlmaður, og konu er ráðin var í starfið. Kærandi taldi sig hafa verið hæfari til starfans en sú er ráðin var. Kærunefndin taldi að sjónarmið kærða um að gera yrði kröfu um hlutlægni verkefnastjórans gagnvart verkefnum og rekstri er fyrir er í byggðarlaginu hafi verið í öllu tilliti málefnalegt og eðlilegt og að því hefði ekki verið brotið gegn lögum nr. 10/2008 er tekin var ákvörðum um ráðningu konunnar.

 1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 30. ágúst 2018 er tekið fyrir mál nr. 3/2018 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
 2. Með kæru, dagsettri 19. mars 2018, kærði A ákvörðun B um að ráða konu í starf verkefnisstjóra í verkefnið [...]. Kærandi telur að með ráðningunni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
 3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 19. mars 2018. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 20. apríl 2018, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 23. apríl 2018.
 4. Kærunefndinni barst bréf kæranda, dagsett 7. maí 2018, með athugasemdum við greinargerð kærða sem kynnt var kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 8. maí 2018. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 23. maí 2018, sem kynnt var kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 24. maí 2018.
 5. Með bréfi kærunefndar til kærða, dagsettu 26. júní 2018, var óskað eftir frekari upplýsingum frá kærða, sem bárust með bréfi, dagsettu 4. júlí 2018.
 6. Kæranda voru með bréfi kærunefndar, dagsettu 5. júlí 2018, sendar upplýsingar sem bárust með bréfi kærða, dagsettu 4. júlí 2018.
 7. Með bréfi kæranda, dagsettu 13. júlí 2018, bárust frekari athugasemdir og voru þær sendar kærða til kynningar með bréfi kærunefndar, dagsettu 8. ágúst 2018.
 8. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

  MÁLAVEXTIR

 9. Kærði auglýsti starf verkefnisstjóra í verkefnið [...] þann 5. janúar 2018. Í auglýsingu kom fram að helstu verkefni væru að fylgja eftir ákvörðunum verkefnisstjórna, hafa frumkvæði að nýjum verkefnum í byggðunum, upplýsingamiðlun og skýrslugerð til íbúa og samstarfsaðila, íbúafundir og þátttaka í samfélagsverkefnum í sveitarfélaginu. Í auglýsingunni voru jafnframt tilgreindar eftirfarandi hæfniskröfur: Almenn menntun sem nýtist í verkefninu og háskólamenntun væru kostir. Viðkomandi þyrfti að hafa haldbæra starfsreynslu og reynslu af verkefnastjórnun, þekkingu á staðháttum á C, góða almenna rit- og tölvufærni. Þá var þekking, skilningur og reynsla af byggðamálum talin mikilvæg og frumkvæði, jákvæðni, samstarfsfærni og sjálfstæð vinnubrögð taldir mikilvægir eiginleikar.
 10. Alls bárust sex umsóknir, tvær frá konum og fjórar frá körlum, og var ákveðið að kalla alla umsækjendur í starfsviðtöl. Að því loknu var ákveðið að bjóða konu úr hópi umsækjenda starfið sem hún þáði.
 11. Kærandi óskaði rökstuðnings vegna ákvörðunar kærða um ráðningu konunnar og var hann veittur með bréfi kærða, dagsettu 12. mars 2018.

  SJÓNARMIÐ KÆRANDA

 12. Kærandi telur að við ráðninguna hafi ekki verið horft til þeirra hæfnisþátta sem tilgreindir hafi verið í auglýsingu um starfið og í starfsviðtölum. Mat þeirra sem að ráðningunni hafi staðið hafi verið byggt á ómálefnalegum og ófullnægjandi forsendum og hugsanlega horft til annarra þátta en fram komi í auglýsingu. Kærandi telji að hann sé hæfari til að gegna starfinu, sé litið til menntunar, þekkingar, starfsreynslu og annarra þátta og með ráðningu konunnar hafi ákvæði jafnréttislaga verið brotin. Kærandi bendir einnig á talsverðan kynjahalla á ýmsum sviðum þegar komi að rekstri og stjórnun kærða.
 13. Kærandi telur þá viðleitni góða að fjölga störfum kvenna í stofnunum og atvinnulífi. Konur og karlar eigi jafnan rétt til starfa og jafna eigi kynjamun þar sem jafnhæfir einstaklingar sæki um störf. Í því tilviki sem hér um ræði sé verið að ráða í vandasamt starf í [...] þar sem viðfangsefnið sé neyð í fámennri byggð.
 14. Kærandi uppfylli að fullu þær hæfniskröfur sem gerðar hafi verið til starfsins. Í öllum tilfellum hafi hann þá þekkingu og reynslu sem krafist sé og í mörgum tilvikum umfram þann einstakling sem hafi hlotið starfið. Hann sé með kennarapróf frá Kennaraháskóla Íslands og hafi lokið IPMA verkefnastjórnun frá Háskólanum á Akureyri. Þá hafi hann lokið ýmsum námskeiðum á sviði ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, háskólastofnunum, Ferðamálastofu og ferðaþjónustufélögum.
 15. Sú kona sem hafi verið ráðin hafi lokið BA prófi í bókmenntafræði, auk þess sem hún stundi nám til BA prófs í ferðamálafræði. Ekki komi fram í rökstuðningi hversu miklu sé lokið af því námi og/eða hvort hún hafi tök á að ljúka því þar sem væntanlega séu fyrirhugaðir flutningar [...]. Þá segi í rökstuðningi kærða fyrir ráðningunni að hún hafi auk þess sótt námskeið í leiðtogaþjálfun og markaðssetningu, auk tungumálanáms. Ekki verði séð af þessu að hún sé augljóslega hæfari til að gegna starfinu með hliðsjón af menntunarskilyrðum.
 16. Kærandi hafi lokið námi í verkefnastjórnun og stýrt fjölmörgum verkefnum. Þar megi nefna verkefnið [...] sem kærandi sé höfundur að og hafi stýrt fyrstu árin. Einnig megi nefna námskrárgerð í menntamálaráðuneytinu, hugmyndavinnu og stjórnun og uppsetningu sýningarinnar [...], sem haldin hafi verið í D, svo að eitthvað sé nefnt. Kærandi hafi einnig stýrt fjölmörgum þróunarverkefnum á sviði skólamála, íþrótta- og menningarmála, auk ferðaþjónustu. Kærandi hafi komið að uppbyggingu E, markaðssetningu á C og F og tekið þátt í samstarfsverkefnum erlendis á vegum IPA, Erasmus, NPP o.fl.
 17. Sú sem hafi verið ráðin í starfið hafi starfað við miðlun og framsetningu upplýsinga í störfum sínum og fengið sérstakt hrós fyrir lagni í mannlegum samskiptum. Ekki verði séð af rökstuðningi að hún hafi reynslu af verkefnastjórnun og aldurs síns vegna hafi hún talsvert skemmri starfsreynslu en kærandi. Ekki komi annað fram um starfsreynslu hennar en að hún hafi fengist við miðlun og framsetningu upplýsinga. Engar upplýsingar liggi því fyrir um að hún búi yfir haldbærri starfsreynslu og/eða reynslu af verkefnastjórnun. Ekki verði séð af þessu að hún sé hæfari til að gegna starfinu út frá kröfum um starfsreynslu og reynslu af verkefnastjórnun.
 18. Kærandi sé fæddur og uppalinn á F og hafi rekið ferðaþjónustu þar undanfarin ár. Auk þess hafi hann verið virkur þátttakandi í samfélagsuppbyggingu [...] og átt aðkomu að fjölmörgum atvinnuuppbyggingar- og þróunarverkefnum á C. Engar upplýsingar sé að finna í rökstuðningi um þekkingu þeirrar sem ráðin hafi verið á staðháttum á C Þar sem upplýsingar vanti um hvernig hún uppfylli þessar kröfur geti kærandi ekki gert samanburð á hæfni þeirra. Hann telji hins vegar allar líkur á að hann sé mun hæfari þegar komi að þekkingu staðhátta á C.
 19. Kærandi hafi góða rit- og tölvufærni og efist ekki um að standa að minnsta kosti jafnfætis þeirri sem ráðin hafi verið þegar komi að slíkri færni.
 20. Kærandi hafi tekið þátt í fjölmörgum atvinnuuppbyggingar- og þróunarverkefnum á C á undanförnum árum. Hann sé hvatamaður að stofnun [...] og sé nú formaður þess. Hann hafi sett fram verkefnaáætlanir og byggðaþróunarverkefni, hafi komið að atvinnurekstri, átt sæti í sveitarstjórn, búið í fimm mismunandi smásamfélögum á Íslandi og tekið virkan þátt í umræðu og verkefnum um byggðamál á C. Þau mál séu tengd ferðaþjónustu, umhverfismálum og atvinnu- og innviðauppbyggingu. Kærandi hafi gott tengslanet á mörgum sviðum, bæði í nærsamfélaginu [...] og stoðstofnunum á landsvísu. Engar upplýsingar sé að finna í rökstuðningi um þekkingu, skilning og reynslu af byggðamálum þeirrar sem ráðin var. Kærandi leyfi sér að efast um, miðað við þær upplýsingar sem liggi fyrir, að sú sem ráðin hafi verið sé hæfari en hann sjálfur á þessu sviði.
 21. Ferilskrá kæranda sýni frumkvæði hans, sjálfstæð vinnubrögð og að jákvæðni og samstarfshæfni endurspeglist einnig í þeim verkefnum og þeirri vinnu sem hann hafi þegar lagt af mörkum til uppbyggingar í atvinnumálum og þróunarverkefnum [...]. Í rökstuðningi kærða sé að finna umsögn um góð meðmæli þeirrar sem ráðin hafi verið og að hún hafi komið einkar vel út úr viðtölum í tengslum við ráðninguna. Hún hafi verið metin mjög líkleg til að setja alla sína starfsorku í verkefnið og tilgreint í rökstuðningi að umsókn og viðtöl hafi vakið hrifningu þeirra sem að ráðningunni hafi staðið. Kærandi hafi engar forsendur til að leggja mat á hrifnæmi þeirra sem að ráðningunni hafi staðið. Slíkt sé augljóslega matskennt. Hann telji sig hins vegar síst standa þeirri sem ráðin hafi verið að baki þegar komi að frumkvæði og sjálfstæðum vinnubrögðum. Hann sé bæði jákvæður og búi yfir góðri færni til samstarfs. Ekki hafi verið sýnt fram á að sú sem ráðin hafi verið búi yfir betri eða meiri eiginleikum vegna þeirra krafna sem gerðar hafi verið í auglýsingu um starfið.
 22. Í rökstuðningi kærða segi að í forgrunni við ráðninguna hafi það alltaf verið markmið að velja hæfasta umsækjandann í starfið. Með hliðsjón af því sem að ofan greini telji kærandi að ekki hafi verið sýnt fram á að sú sem ráðin hafi verið sé hæfari til að gegna starfinu þegar tekið sé mið af þeim kröfum sem gerðar hafi verið í auglýsingu. Hann sé að minnsta kosti jafnhæfur en líklega hæfari til að uppfylla þær kröfur.
 23. Í rökstuðningi kærða virðist sem bætt hafi verið við þáttum sem ekki hafi komið fram í auglýsingu um starfið. Megi þar nefna: „almenn atriði sem geta haft áhrif á starfsárangur“ og undir það flokkist „a. Mat á því hvort viðkomandi yrði samhliða í öðrum störfum eða þátttakandi í atvinnurekstri samhliða starfinu og b. hvort einhverjar aðstæður væru til staðar sem hamlað gætu árangri í starfi.“ Kærandi sé hlutaeigandi í ferðaþjónustufyrirtæki sem reki [...] á F og hafi hann verið spurður að því í starfsviðtalinu hvort hann myndi stunda aðra vinnu samhliða starfi verkefnisstjóra. Kærandi hafi sagt að hann hafi ekki ætlað að gera það, enda rekstur [...] í góðum höndum [...] og annarra sumarstarfsmanna.
 24. Hjá kærða starfi 21 starfsmaður, þar af 17 konur og fjórir karlar. Þegar af þeim sökum hafi kærða og öðrum sem að ráðningunni hafi staðið borið að fylgja 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Samkvæmt 18. gr. sömu laga beri atvinnurekendum að jafna stöðu kynja innan fyrirtækis síns eða stofnunar. Samkvæmt sömu grein beri að leggja sérstaka áherslu á að jafna hlut kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum.
 25. Kærandi telur að hann hafi með ólögmætum hætti verið sviptur möguleikum til starfsins. Samkvæmt upplýsingum sem hafi komið fram í starfsviðtalinu sé ráðningin til þriggja ára. Kærandi fari því fram á bætur sem nemi launamuni á núverandi starfsvettvangi og umræddu starfi til þriggja ára. Áætla megi út frá viðtölum að laun verkefnisstjóra séu um kr. 7.000.000 á ári. Launatekjur og starfstengdar tekjur kæranda árið 2017 hafi verið kr. 1.686.072. Launamunur sé því áætlaður um kr. 5.300.000á ári og til þriggja ára samtals kr. 15.900.000.

  SJÓNARMIÐ KÆRÐA

 26. Kærði gerir þá aðalkröfu að málinu verði vísað frá kærunefnd jafnréttismála. Til vara er þess krafist að nefndin úrskurði að ekki hafi verið brotið gegn ákvæðum 26. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með ráðningu konunnar í starfið.
 27. Eins og ráðningarsamningur beri með sér hafi verkefnisstjóri verið ráðinn í starf hjá kærða og því ekki gerð athugasemd við aðild málsins. Þegar komi að mati á því hvort ákvörðun um ráðningu hafi verið í samræmi við jafnréttislög sé brýnt að tillit sé tekið til þess hverjir hafi farið með ákvörðunarvaldið. Eins og fram komi í auglýsingu um starfið sé umrætt verkefni samstarfsverkefni Byggðastofnunar, kærða, G og viðkomandi byggðalaga, í þessu tilfelli sveitarfélaganna H og F. Þetta samstarf sjáist meðal annars í því að upplýsingar um verkefnið, þar á meðal starfslýsing, hafi verið sagðar á heimasíðu Byggðastofnunar í auglýsingunni. Verkefnisstjórinn skyldi ráðinn af kærða með stuðningi Byggðastofnunar.
 28. Í verkefnislýsingu Byggðastofnunar komi fram í kafla 5. „Skipulag og stjórnun“ að sveitarfélag sé í upphafi leiðandi og óski eftir þátttöku í verkefninu. Að slíkri beiðni fram kominni taki Byggðastofnun við leiðandi hlutverki. Þegar ákveðið hafi verið að hefja verkefnið taki samstarfsaðilar ákvörðun um formlegt skipulag og sé þar nefnt að kostirnir geti verið að vista verkefnið hjá landshlutasamtökum/atvinnuþróunarfélagi, sveitarfélaginu, stofna sjálfstætt félag eða efna til klasasamstarfs. Skipuð sé verkefnisstjórn. Áfangar verkefnis séu fjórir.Sá fyrsti felist í undirbúningi, sem geti tekið nokkra mánuði, næsti áfangi felist í stefnumótun og áætlanagerð, sem reiknað sé með að taki um sex mánuði, þriðji áfangi sé framkvæmd verkefnis, sem mest geti tekið þrjú ár, en ákvörðun um framhald sé tekin í lok hvers árs, og sá fjórði felist í lokum verkefnis, sem sé áætlað að taki sex til tólf mánuði. Byggðastofnun leiði verkefnið í áföngum 1 og 2, sveitarfélagið taki við formennsku í verkefnisstjórn (áfangi 3) og fulltrúi sveitarfélags gegni áfram formennsku í fjórða áfanga. Hlutverk sveitarfélaga, landshlutasamtaka og atvinnuþróunarfélaga sé skilgreint í kafla 5.1. ásamt hlutverkum fleiri aðila. Þar komi fram að Byggðastofnun sé ábyrgðaraðili verkefnisins á landsvísu og útfæri framkvæmd þess að höfðu samráði við ráðuneyti, stofnanir og aðra samstarfsaðila. Byggðastofnun taki ákvörðun um fjárveitingu til hvers og eins verkefnis. Í kafla 5.2. Verkefnisstjórn sé hlutverk hennar skilgreint. Þar komi fram að verkefnisstjórn sé skipuð fulltrúum samstarfsaðila um verkefnið, þ.e. fulltrúum sveitarfélags, landshlutasamtaka, atvinnuþróunarfélags, íbúa og Byggðastofnunar, að hámarki sjö manns. Gæta skuli jafnréttis í verkefnisstjórn. Verkefnisstjórn móti starfslýsingu fyrir verkefnisstjóra þar sem það eigi við og ráði í starfið.
 29. Kærði sé sjálfseignarstofnun og samkvæmt samningi Byggðastofnunar, SSA og kærða um verkefnið sé gert ráð fyrir að verkefnisstjóri sé starfsmaður kærða.
 30. H hafi tekið þátt í verkefninu [...] frá árinu 2013. Ráðinn hafi verið verkefnisstjóri frá vori 2015, hann hafi starfað út maímánuð 2016, þegar hann hafi kosið að hætta. Þegar F hafi sótt um þátttöku í verkefninu hafi verið ákveðið að ráða einn verkefnisstjóra fyrir bæði verkefnin. Því hafi verið ákveðið að aðsetur verkefnisstjóra skyldi vera á F og verkefninu yrði sinnt þaðan. Vegna hinnar sérstöku aðstöðu að ráða, að minnsta kosti fyrsta árið, einn verkefnisstjóra til að sjá um þátttöku tveggja sveitarfélaga í verkefninu,sem hvort um sig hafi verið meðverkefnisstjórn, hafi verið settur á fót sameiginlegur stýrihópur um ráðninguna þar sem framkvæmdastjóri kærða hafi tekið sæti með meðlimum verkefnastjórnanna. Það hafi verið sá stýrihópur, þ.e. verkefnisstjórnirnar tvær auk framkvæmdastjóra kærða, sem hafi farið með það hlutverk að ráða verkefnisstjóra í þessu tilviki.
 31. Starfið hafi verið auglýst í desember 2017 og umsóknarfrestur átt að renna út 21. janúar 2018. Ákveðið hafi verið að lengja umsóknarfrestinn um viku, þ.e. til 28. janúar, vegna anna í þorrablótsundirbúningi hjá nokkrum meðlimum verkefnisstjórna. Umsóknum hafi verið skilað til starfsmanns kærða. Þann 2. febrúar 2018 hafi verið haldinn fundur hjá stýrihópi þar sem ákveðið hafi verið að framkvæmdastjóri kærða og starfsmaður Byggðastofnunar myndu setja upp skema í excel þar sem leitast yrði við að meta ákveðna þætti eingöngu á grundvelli framkominna umsókna og fylgigagna. Á þeim tímapunkti hafi legið fyrir að sex umsóknir hefðu borist og rætt hafi verið á fundinum að boða í viðtal þá þrjá umsækjendur sem stýrihópnum myndi lítast best á. Næsti fundur hafi verið haldinn 5. febrúar og þar hafi framkvæmdastjóri kærða og starfsmaður Byggðastofnunar kynnt skema sitt. Umsækjendum hafi verið gefin einkunn fyrir almenna menntun, háskólanám sem nýtist beint í verkefninu, aðra menntun, starfsreynslu, reynslu af verkefnisstjórnun, þekkingu á staðháttum, sjálfstæð vinnubrögð, rit- og tölvufærni, reynslu í byggðaþróun og samskipti og árangur. Vægi hvers liðar hafi verið mismunandi.
 32. Niðurstaða þessarar frumvinnu hafi verið sú að tveir umsækjenda hafi skorið sig nokkuð úr, þrír komið þar næst, þar á meðal kærandi og sú sem hafi verið ráðin, og einn skorað töluvert minna en aðrir umsækjendur. Ekki sé hægt að segja að þetta skema hafi beinlínis útilokað neinn umsækjenda.
 33. Þegar búið hafi verið að meta alla umsækjendur hafi verið kallað til fundar með fulltrúum íbúa, sveitarfélaga og Byggðastofnunar þar sem farið hafi verið yfir hverja ætti að kalla í viðtöl. Eftir umræður og í ljósi fjölda umsækjenda hafi verið ákveðið að kalla alla umsækjendur í viðtöl þrátt fyrir að þrír hefðu verið metnir hæfastir á grundvelli hæfisyfirlits sem sett hafi verið saman á grundvelli þeirra gagna sem hafi borist með umsóknum. Kærandi hafi ekki verið einn af þessum þremur sem hafi verið metnir hæfastir á grundvelli innsendra gagna af hálfu verkefnisstjórna.
 34. Til grundvallar viðtölum við umsækjendur hafi legið viðtalsrammi. Framkvæmdastjóri kærða og sérfræðingur frá Byggðastofnun sem haldi utan um verkefnið hjá stofnuninni hafi tekið viðtölin. Í þeim hafi verið reynt að dýpka þær upplýsingar sem þegar hafi legið fyrir í umsóknum viðkomandi, ræða um mismunandi hliðar verkefnisins og umgjörðina og þannig kynnast öllum umsækjendum og þeirra styrkleikum og veikleikum. Í lok viðtalanna hafi verið óskað eftir heimild til að hafa samband við meðmælendur, sem hafi verið gert í framhaldinu og náðist í einn meðmælenda fyrir hvern af umsækjendunum nema einn.
 35. Í framhaldi af þessari vinnu hafi verið ákveðið að verkefnastjórnirnar yrðu kallaðar saman. Fulltrúi H í verkefnastjórn hafi mælst til þess að vilji verkefnastjórnar I myndi fyrst koma fram þar sem H væru á sínu síðasta ári í verkefninu. Á fundi verkefnastjórnar F 21. febrúar 2018 hafi verið farið munnlega yfir það sem hafi komið fram í viðtölum við umsækjendur ásamt lýsingu á samtölum við meðmælendur. Töluverðar umræður hafi skapast, bæði um verkefnið og hæfnisþættina ásamt þeim upplýsingum sem fram hafi komið í umsóknum, viðtölum og frá meðmælendum. Einnig hafi verið farið yfir muninn á hlutverki verkefnastjórnar og hlutverki verkefnisstjóra í samræmi við verkefnalýsingu Byggðastofnunar sem og þá starfslýsingu sem hafi legið fyrir af hálfu Byggðastofnunar. Í starfslýsingu komi ábyrgðarsvið verkefnisstjóra fram: „ Að unnið sé samkvæmt stefnu og markmiðum verkefnisins og að sá grunnur sé endurskoðaður árlega. Að stuðla að samtali við íbúa, á vettvangi þar sem allir hafa jafna möguleika á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Stjórnun/utanumhald í einstökum verkefnum eftir því sem verkefnisstjórn ákveður. Að koma á og viðhalda tengslum við hagsmunaaðila. Upplýsingagjöf um verkefnið innan samfélags og út á við. Daglegum rekstri verkefnis, þar með talið utanumhald fjármála eftir því sem við á. Gerð starfs- og fjárhagsáætlana og gerð ársskýrslu ef það á við varðandi fjármuni til frumkvæðisverkefna hafi það ekki verið falið öðrum.“ Að öðru leyti sé starfslýsingu skipt í tvo meginþætti, annars vegar stefnumótun, skilgreiningu verkefna og verkstjórn og hins vegar samstarf um miðlun upplýsinga.
 36. Í umræðu um val á verkefnisstjóra hafi verið talið mikilvægt að viðkomandi myndi helga sig verkefninu með raunverulegri búsetu á F. Jafnframt hafi verið töluvert rætt um nauðsyn þess að viðkomandi væri skipulagður í vinnubrögðum og mikilvægi þess að viðkomandi gæti átt í samskiptum og samvinnu við alla íbúa byggðalaganna sem væru í verkefninu sem og þá sem að því standi. Einnig hafi verið rætt að það væri mikilvægt að viðkomandi væri líklegur til að vinna þá grunnvinnu sem fælist í verkefninu. Töluvert hafi verið rætt um mikilvægi þess að íbúar upplifi jafnræði gagnvart mótun áherslna í verkefninu í samræmi við markmið sett fram í starfslýsingunni. Einnig hafi verið rætt um mikilvægi þess hlutverks verkefnisstjóra að miðla upplýsingum um verkefnið sem og einstaka verkþætti þess. Rætt hafi verið um að þessi þáttur væri jafnvel mun veigameiri heldur en upphaflega hafi verið metið í hæfnismatinu með tilliti til starfslýsingar.
 37. Af þeim þremur sem hafi raðast hæst í hæfnismatinu í upphafi hafi verið ljóst að tveir umsækjenda hefðu ekki hug á að búa á staðnum. Áður hafi reynt á slíkt í þessu verkefni og ekki gefist nægilega vel. Meiri líkur séu á að verkefnisstjóri fari fyrr í annað verkefni/starf þegar þannig fyrirkomulag sé og verkefnastjórn hafi talið að von þyrfti að vera til þess að verkefnisstjóri myndi fylgja verkefninu til enda. Umsækjandi A hefði áður starfað í tilteknu verkefni en ákveðið að hverfa til annarra starfa nær fjölskyldunni. Ljóst hafi verið að fjölskylda A myndi ekki flytja með á F. Umsækjandi B hafi nýlega verið fluttur til C með fjölskyldu sína og ljóst að hún myndi ekki flytja með honum til F.
 38. Að teknu tilliti til þeirra upplýsinga sem fram hafi komið í ferlinu hafi það verið mat verkefnisstjórnar að sú sem ráðin hafi verið hafi uppfyllt best þá fjölbreyttu eiginleika sem leitað hafi verið eftir til að leiða verkefnið. Nákvæmni og vönduð vinnubrögð sem hafi meðal annars mátt sjá í umsókninni og umsóknarbréfi, þægilegt viðmót og færni í samskiptum sem hafi komið fram í viðtali og gríðarlega góð meðmæli umsagnaraðila hafi gert það að verkum að henni hafi verið boðið starfið.
 39. Varðandi kæranda sé ljóst að hann hafi verið mjög umsvifamikill í atvinnulífi í öðru þeirra samfélaga sem um ræði. Viðkomandi hafi einnig verið mjög virkur í stýringu þess samfélags og setið í sveitarstjórn I þar til hann hafi nýlega flutt til D. Ljóst hafi þótt að erfitt væri að byggja upp væntingar hjá íbúum í báðum samfélögum um þá athygli sem verkefni þeirra þyrftu í samræmi við áætlanir verkefnastjóranna vegna sterkra tengsla viðkomandi við annað byggðalagið. Einnig hafi verkefnastjórn þótt ljóst að erfiðara yrði að ná markmiði um að stuðla að samtali við íbúa, á vettvangi þar sem allir hefðu jafna möguleika á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, þar sem kærandi sé stór atvinnurekandi á svæðinu og jafnframt með nokkur frumkvöðlaverkefni í gangi.
 40. Á fundi stýrihópsins 21. febrúar 2018 hafi verið ákveðið samhljóða að bjóða konunni starfið þar sem hún hafi, að teknu tilliti til umsóknar, menntunar, reynslu, viðkynningar og meðmæla, verið hæfust umsækjenda í starfið. Þá hafi hún verið talin líklegust til að leiða verkefnið út samningstímann á sem árangursríkastan hátt.
 41. Aðalkrafa kærða er á því byggð að kærandi eigi í raun ekki lögvarða hagsmuni í málinu. Verði litið svo á að um mismunun á grundvelli kyns hafi verið að ræða leiði af framlögðum gögnum að tveir karlar hafi staðið kæranda framar og því hafi hann ekki átt raunhæfa möguleika á að hljóta starfið.
 42. Almennt verði að ætla fyrirtækjum og stofnunum ráðrúm til að ákvarða með málefnalegum hætti þær hæfniskröfur sem starfsmenn þurfi að uppfylla. Allir þeir sem að ákvörðuninni hafi komið af hálfu verkefnisstjórnanna standi að þeirri ákvörðun sem tekin hafi verið og hafi hver um sig lagt mat á hæfni umsækjenda. Kærði telji því hafið yfir vafa að ákvörðun um ráðningu konunnar hafi ekkert haft með það að gera að hún hafi verið kona. Með vísan til framanritaðs sé á því byggt að mat atvinnurekanda á hæfni hafi verið málefnalegt og ekki á nokkurn hátt rakið til kynferðis umsækjenda.

  ATHUGASEMDIR KÆRANDA

 43. Meðal athugasemda kæranda við greinargerð kærða var að horft hafi verið fram hjá mikilvægum upplýsingum um kæranda sem þó liggi skýrt fyrir í umsókn hans og ferilskrá og lagt til grundvallar að þau, þ.e. hann og sú sem ráðin hafi verið, hafi komið svipað út úr hæfnismatinu. Við stigagjöf varðandi háskólanám sem nýtist beint í verkefninu hafi kærandi fengið 0. Í ferilskránni komi fram að hann hafi sótt háskólanám í verkefnastjórnun sem hafi lokið með grunnvottun IPMA D stigi. Það nám sé grunnfræði í þeirri verkefnastjórnun sem Byggðastofnun hafi lagt áherslu á í verkefnalýsingu. Þar að auki komi kennaramenntun tvímælalaust að gagni í samskiptum og þegar verið sé að miðla og skipuleggja verkefni, námskeið og fundi.
 44. Haldbær reynsla af byggðaþróun hafi verið metin 1 stig. Fjölbreytt verkefnareynsla kæranda og búseta í dreifbýli og seta í þrjú og hálft ár í sveitarstjórn sé tvímælalaust haldbær reynsla á það hvaða málefni fámennar byggðir séu að fást við varðandi byggðaþróun. Í því tilliti megi nefna skólamál, atvinnumál, fjarskipti, samgöngumál, byggðakvóta, uppbyggingu innviða, félagsþjónustu, málefni eldri borgara, húsnæðismál og fleira.
 45. Kærandi hafi fengið 0 stig fyrir samskipti og árangur þar sem tekið sé fram að gögn styðji ekki þennan hæfnisþátt. Í ferilskrá sé fjallað um fjölda verkefna sem hann hafi stýrt og náð árangri í. Skýrt sé fjallað um samstarfshæfni og jákvæðan framgang og þróun verkefna undir hans stjórn.
 46. Kærandi hafi ekki fengið kross fyrir persónulega hæfni. Það sé ef til vill huglægt mat en það komi skýrt fram í umsókn að kærandi hafi lokið námi í verkefnastjórnun og skipulagt fjölda viðburða og verkefna með góðum árangri.
 47. Athugasemdir í greinargerð kærða um að kærandi hafi verið „mjög umsvifamikill í atvinnulífi“ með rekstri [...] og verið „mjög virkur í stjórnun I“ með setu í sveitarstjórn séu vægast sagt skrítnar og orðið „mjög“ greinilega sett fram til að reyna ýkja eðlilega stöðu kæranda. Þá sé setningin um að kærandi hafi nýlega flutt til D á eftir fjölskyldu hreinlega niðrandi. Það rétta sé að hann ásamt fjölskyldu sinni hafi í haust flutt lögheimili frá J til K. Það sé því óvart skýrt í bréfinu að kærandi hafi slitið á öll tengsl við stjórnun samfélagsins á F og ekki gegnt kjörnum eða skipuðum embættum á vegum I frá nóvember 2017. Þá hafi verið þekkt að kærandi hafi byggt upp ferðaþjónustu frá árinu 2008, [...]. Skýrt hafi komið fram í viðtölum að búið væri að ráða [...] og [...] væri vel mannað. Þá hafi komið fram að kærandi hefði fullan hug á að sinna starfinu 100% og gæti þegar hafið störf. Auk þess hafi öllum verið ljóst sem að málinu hafi komið að kærandi hafi komið að fleiri frumkvöðlaverkefnum í J á C og landsvísu í gegnum tíðina.
 48. Ekkert í auglýsingu um starfið hafi bent til þess að eignarhlutar í fyrirtækjum, fyrri störf eða fyrri virkni kæranda í sveitarstjórn gæti gert hann vanhæfan til að sinna því starfi sem hér sé til umfjöllunar. Eðlilegt sé þó að ætla að á einhverjum tímapunkti gætu komið upp hagsmunaárekstrar hjá einstaklingum í verkefnisstjórn eða hjá verkefnisstjóra. Um slíka hagsmunaárekstra gildi ákvæði 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
 49. Ástæða þess að kærandi hafi sótt um starfið hafi einmitt verið sú að hann hafi haldið að reynsla hans væri gott veganesti til að vinna með íbúum og stoðstofnunum og skila góðri vinnu í þágu uppbyggingar og endurreisnar þeirra samfélaga sem hér eigi í hlut.
 50. Eðlilegt skor kæranda hefði átt að vera á pari við þá tvo umsækjendur sem hafi skorið sig úr og verið efstir samkvæmt matinu eða jafnvel hærra og þá töluvert hærra en einkunn þeirrar sem ráðin hafi verið. Þrátt fyrir vanmat á hæfni kæranda séu hann og sú sem ráðin var sögð hafa skilað svipaðri niðurstöðu, eða 22 og 23 hæfnisstigum. Þá hafi kærandi skorað hærra í fimm þáttum af tíu, þar með talið í þáttunum reynsla af verkefnisstjórnun, þekking á staðháttum á C, auk haldbærrar og víðtækrar starfsreynslu. Komið hafi fram í hæfnisyfirlitinu að sú sem hafi verið ráðin gæti ekki uppfyllt skilyrði um tengslanet og gæti ekki hafið störf sem fyrst eins og lögð hafi verið áhersla á í auglýsingu um starfið og í starfsviðtali kæranda.

  FREKARI UPPLÝSINGAR FRÁ KÆRÐA

 51. Vegna beiðni kærunefndar um upplýsingar um hver hafi ritað minnispunkta úr viðtölum við meðmælendur og í tilfelli kæranda upplýsingar um hvernig umsagnaraðili vegna hans hafi verið fundinn greindi kærði frá því að framkvæmdastjóri kærða hafi ritað minnispunktana á meðan á viðtölunum hafi staðið og að kærandi hafi sjálfur bent á umsagnaraðilana.
 52. Í greinargerð kærða er fjallað um tengsl kæranda við I og í því tilliti nefnt að hann hafi verið umsvifamikill þar í atvinnulífi. Af þessu tilefni óskaði kærunefnd jafnréttismála eftir nánari skýringum varðandi vægi þeirra tengsla við mat á hæfni umsækjenda. Kærði greindi af þessu tilefni frá því að hann telji að þessi þáttur hafi töluvert vægi þar sem markmiðið með umræddu verkefni sé að vinna jafnt með öllum íbúum samfélagsins á þeirra forsendum. Taka megi sem dæmi að á íbúaþingi helgina áður en viðtöl við umsækjendur hafi farið fram hafi samfélagið ákveðið að rekstur [...] á F væri forgangsmál. Í atvinnurekstri sínum hafi kærandi staðið fyrir rekstri [...] frá haustinu 2014 fram á haustið 2017 þegar henni hafi verið lokað. Umræða um staðsetningu [...] hafi til að mynda snúið að beinum hagsmunum kæranda. Talið hafi verið að það væri mikilvægt að sá verkefnastjóri sem kæmi að málinu gæti virkjað samfélagið í að hugsa nýjar lausnir á forsendum samfélagsins. Niðurstaðan hafi orðið sú að [...]húsnæðið hafi verið keypt af „fjarbúa“ I sem hafi svo leigt það til hlutafélags sem íbúar hafi stofnað um [...]. Greint var frá því að íbúar hafi í kjölfarið unnið að endurbótum húsnæðisins fyrri hluta sumars og [...] síðan verið opnuð 2. júlí 2018.
 53. Jafnframt sé hægt að nefna sem dæmi að ferðaþjónusta sé einn af vaxtarbroddum F og kærandi sé eigandi að [...] þar. Þá hafi kærandi um langt skeið verið frumkvöðull í uppbyggingu afþreyingar í tengslum við ferðaþjónustu í J, svo sem [...], og verið virkur hagsmunaaðili og þátttakandi í ferðaþjónustunni með áherslu á F. Mikilvægt sé talið að verkefnastjóri stuðli að samvinnu allra og erfitt yrði fyrir verkefnastjóra, sem jafnframt væri eigandi stærsta ferðaþjónustufyrirtækisins, að leiða þessa vinnu. Mikilvægt hafi verið talið að allur atvinnurekstur á svæðinu sæti við sama borð á jafningjagrunni þar sem markmiðið væri að virkja samtakamátt samfélagsins til að vinna í þeim úrbótum sem það sé búið að greina sem áherslur í starfinu framundan.
 54. Kærunefnd óskaði eftir nánari upplýsingum um stigagjöf stýrihóps, þ.e. á grundvelli hvaða gagna lagt hafi verið mat á þættina góð almenn rit- og tölvufærni (skýrslugerð) og samskipti og árangur og um niðurstöður stigagjafar með tilliti til þess vægis matsþátta sem tilgreindir voru í töflu. Kærði greindi frá því að lagt hafi verið mat á þessa þætti út frá innsendum gögnum umsækjenda, en atriði sem þessi séu eðli málsins samkvæmt alltaf háð mati. Mikilvægt hafi verið talið að viðkomandi hefði mjög góða samskiptahæfileika, enda markmiðið að leiða samstarf heils samfélags sem sé samsett af ólíkum einstaklingum. Jafnframt hafi verið talið mikilvægt að viðkomandi hefði góða reynslu og bakgrunn í miðlun upplýsinga. Það sé mat verkefnisstjórnanna að sú sem hafi hlotið starfið hafi verið rétta manneskjan úr þessum hópi umsækjenda. Hún hafi nú þegar tekið til starfa og standi algjörlega undir væntingum verkefnisstjórnanna hvað varði hæfni til þess að sinna umræddu hlutverki.

  FREKARI UPPLÝSINGAR FRÁ KÆRANDA

 55. Kærandi upplýsir að hann hafi staðið fyrir [...]rekstri á F frá október 2014 til 1. september 2017. Verkefnið hafi fyrst og fremst verið samfélagsverkefni til að reyna að halda úti [...] eftir að fyrir hafi legið að [...] yrði lokað haustið 2014. Helmingur íbúa hafi verslað í [...] eða um 40 manns yfir vetrartímann. Tap hafi verið verulegt á rekstrinum og eftir erfitt sumar 2017 hafi ekki verið forsendur til að halda rekstri áfram. Þegar [...] hafi verið lokað hafi verið upplýst um að rekstur og eignir væru til sölu á sanngjörnu verði, en án árangurs. [...]húsnæðið hafi verið í eigu fyrirtækis sem kærandi sé hlutaeigandi að og eignin hafi verið seld 1. maí 2018. Það sé því ekki rétt að [...]húsnæðið hafi verið keypt af kæranda.
 56. Kærandi telur að eignarhlutur hans í ferðaþjónustufyrirtæki hefði getað gert hann vanhæfan væri um viðskipti eða hreina markaðssetningu að ræða en slíkt sé ekki á starfsvettvangi verkefnisstjóra. Reynsla af rekstri og eignarhlutur í ferðaþjónustu geri hann ekki vanhæfan til þeirra verkefna sem hafi komið fram á íbúaþingi er varði ferðaþjónustu.

  NIÐURSTAÐA

 57. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
 58. Verkefnið [...] er samstarfsverkefni Byggðastofnunar, kærða, Samtaka sveitarfélaga á C, H og F. H hafði tekið þátt í verkefninu frá árinu 2013 og starfaði verkefnastjóri við það frá vori 2015 og út maímánuð 2016. F sótti síðar um þátttöku í verkefninu og var þá ákveðið að ráða einn verkefnastjóra fyrir verkefni beggja byggðarlaganna en verkefni H var þá langt komið. Skyldi verkefnastjórinn vera starfsmaður kærða.
 59. Í samræmi við ofangreint auglýsti kærði starf verkefnastjóra í desember 2017. Helstu verkefni hans skyldu vera að fylgja eftir ákvörðunum verkefnastjórna, hafa frumkvæði að nýjum verkefnum í byggðunum, upplýsingamiðlun og skýrslugerð til íbúa og samstarfsaðila, auk íbúafunda og þátttöku í samfélagsverkefnum. Hæfniskröfur voru almenn menntun sem nýtist í verkefninu, háskólamenntun var talinn kostur, haldbær starfsreynsla og reynsla af verkefnastjórnun, þekking á staðháttum á C, góð almenn rit- og tölvufærni, þekking, skilningur og reynsla af byggðamálum voru talin mikilvæg svo og frumkvæði, jákvæðni, samstarfsfærni og sjálfstæð vinnubrögð. Í auglýsingu var búseta á svæðinu ekki sett fram sem skilyrði en fram kemur af hálfu kærða að allar umsóknir voru metnar með tilliti til þessa þar sem mikilvægt hafi verið talið að viðkomandi myndi helga sig verkefninu með raunverulegri búsetu á F, enda hafi áður komið í ljós í verkefninu sem unnið hafði verið að í H að ekki gæfist nægilega vel að viðkomandi væri búsettur annars staðar.
 60. Kærandi byggir á því að hann telur sig hæfari en kona er ráðin var til starfans og að ákvæði laga nr. 10/2008 hafi verið brotin. Samanburður eða samjöfnuður við aðra umsækjendur sem metnir hafi verið hæfari en þau bæði en ekki komu til álita þar sem þeir uppfylltu ekki áskilnað um að búa á F, er úrlausnarefni málsins óviðkomandi og leiðir ekki til frávísunar frá kærunefnd jafnréttismála. Þá hefur kærandilögvarða hagsmuni af því að bera fram kæruna og er kröfu kærða um frávísun málsins frá kærunefndinni hafnað.
 61. Eins og að framan greinir takmarkast valdsvið kærunefndar jafnréttismála við að kveða upp úrskurð um hvort ákvæði laga nr. 10/2008 hafi verið brotin. Verður því þegar af þeirri ástæðu að vísa frá nefndinni kröfu kæranda um skaðabætur.
 62. Er hin umdeilda ráðning var afráðin mun kærandi hafa lokið kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands og námi í IPMA verkefnastjórn frá Háskólanum á Akureyri. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum mun hann hafa starfað sem grunnskólakennari um nokkurra ára skeið, sem verkefnastjóri hjá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands og sem framkvæmdastjóri Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands. Þá hafði kærandi á síðustu 11 árum áður en hann sótti um starf verkefnastjóra starfað við stofnun, uppbyggingu og rekstur ferðaþjónustufyrirtækis á F. Kærandi tilgreinir fjölmörg verkefni er hann hafi tekið þátt í, svo sem námsskrárgerð, atvinnuvegasýningu, þróunarverkefni á sviði skólamála, íþróttamála, menningarmála og ferðaþjónustu, þátttöku í viðskiptasendinefndum og kaupstefnum auk frumkvöðla- og stjórnunarnámskeiða, málþinga og funda, m.a. tengt ferðaþjónustu.
 63. Sú sem ráðin var mun hafa lokið BA prófi í bókmennta- og stjórnmálafræði og BA prófi í ferðamálafræði. Hún mun hafa starfað á fjölmiðli, sem aðstoðarhótelstjóri, sem gestamóttökustjóri á hóteli og haft umsjón með markaðs- og sölumálum á hóteli.
 64. Í samanburði á umsækjendum með tilliti til starfsreynslu voru metnir eftirfarandi þættir: Haldbær víðtæk starfsreynsla, reynsla af verkefnastjórnun, þekking á staðháttum á C, sjálfstæði í vinnubrögðum, góð almenn rit- og tölvufærni, haldbær reynsla í byggðaþróun og loks samskipti og árangur. Var síðastgreinda þættinum veitt mest vægi. Í samanburði á kæranda og þeirri er ráðin var voru henni reiknuð 2,7 stig en kæranda 2,6 stig. Þegar horft er til þeirra þátta sem lúta að starfsreynslu, reynslu af verkefnastjórnun og þekkingu á staðháttum á C sem og reynslu af byggðaþróun leikur vart vafi á að reynsla kæranda er umtalsvert meiri heldur en þeirrar sem starfið hlaut. Eftir standa á hinn bóginn þau atriði er kærði felldi undir síðasta þáttinn.
 65. Kærunefndin sendi kærða fyrirspurn til nánari skýringa á því er fram hafði komið í greinargerð um að kærandi væri mjög umsvifamikill í atvinnulífi í öðru af þeim samfélögum er verkefnið [...] tekur til. Í svari sínu tiltók kærði að nú nýlega hefði verið opnuð eftir nokkurt hlé [...] á F en slíkt væri áhersluverkefni í sveitarfélaginu. Kærandi hefði áður rekið [...] í sama húsnæði, hann væri eigandi að [...] á staðnum og hefði um langt skeið verið frumkvöðull í uppbyggingu á afþreyingartengdri ferðaþjónustu þar. Þá liggja fyrir upplýsingar um að kærandi hafi setið í sveitarstjórn í byggðalaginu.
 66. Við athugun kærunefndar á mati kærða á umsóknum kæranda og þeirrar er ráðin var verður að ætla kærða nokkurt ráðrúm til ákvörðunar þeirra matsþátta er notaðir eru við úrvinnslu umsókna. Í máli þessu hefur kærði fært fram þær skýringar að framangreind tengsl kæranda hafi haft töluvert vægi í samanburði verkefnastjórnar á umsóknum kæranda og þeirrar er ráðin var þar sem verkefnastjórinn þurfi að vinna jafnt með öllum sem í samfélaginu búa á forsendum þeirra. Sjónarmið þessi sýnast grundvölluð á málefnanlegum rökum, ekki síst þegar fyrir liggur að samfélagið sem í hlut á er mjög fámennt og liggur nokkuð afskekkt og er einangrað, sérstaklega að vetrarlagi.
 67. Þegar horft er til fyrirliggjandi upplýsinga um umfang þeirra verkefna sem kærandi hefur átt aðild að og þess rekstrar sem hann stendur fyrir og hefur staðið fyrir á liðnum árum á F sýnist málefnanlegt af hálfu kærða að horfa til þess að við störf kæranda sem verkefnastjóra væri hætta á hagsmunamunárekstrum, samanber reglur stjórnsýsluréttar um almennt neikvætt hæfi. Verður að telja að slíkt sjónarmið um hlutlægni verkefnastjórans gagnvart verkefnum og rekstri er fyrir er í byggðarlaginu sé í öllu tilliti málefnalegt og eðlilegt.
 68. Á grundvelli þessa og úrvinnslu umsagna aðila er umsækjendurnir tveir höfðu sjálfir bent á komst kærði að þeirri niðurstöðu að sú er ráðin var væri hæfari en kærandi til að gegna starfi verkefnastjóra. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið telur kærunefnd að ekki hafi verið brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu kærða í starf verkefnastjóra í febrúarmánuði 2018.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kröfu kærða um frávísun er hafnað.

Kröfu kæranda um skaðabætur er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

Kærði braut ekki gegn lögum nr. 10/2008 við ráðningu verkefnastjóra í febrúarmánuði 2018.

 

Erla S. Árnadóttir

 

Björn L. Bergsson

 

Þórey S. Þórðardóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira