Hoppa yfir valmynd
4. september 2006 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Óviðunandi ástand í umferðinni

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra leggur áherslu á að hraðað verði uppsetningu hraðamyndavéla við þjóðvegi, umferðareftirlit lögreglu verði aukið, viðurlög við umferðarlagabrotum hert og að hugað verði sérstaklega að umferðaröryggi á fjölförnum leiðum, svo sem á stofnbrautum út frá Reykjavík.

Þetta eru aðgerðir sem samgönguráðherra hefur forgöngu um að undirbúa í kjölfar þess að banaslys í umferðinni það sem af er árinu eru orðin jafnmörg og allt síðasta ár. Nítján manns hafa látist í 17 umferðarslysum á árinu, þar af 8 í ágúst í 6 slysum. Hefur verið fundað í ráðuneytinu síðustu daga og aðgerðir undirbúnar í samráði við Umferðarstofu, Ríkislögreglustjóra og Vegagerðina. Markviss vinna á grundvelli umferðaröryggisáætlunar hefur staðið yfir undanfarin misseri og með þessum aðgerðum er ætlunin að herða enn á því starfi.

Á grundvelli gildandi umferðaröryggisáætlunar hefur lögreglan í sumar eins og í fyrrasumar hert á umferðareftirliti á vegum landsins og fengið til þess sérstakar fjárveitingar frá samgönguráðuneytinu. Leitað verður leiða í samvinnu við lögregluna til að framlengja þetta sérstaka eftirlit og leggur samgönguráðherra áherslu á að það geti staðið út árið.

Í samantekt Ágústs Mogensen, forstöðumanns Rannsóknarnefndar umferðarslysa, um orsakir banaslysanna fram að þessu kemur meðal annars fram að í ár sé meira en áður um ofsaakstur, kappakstur og vítavert gáleysi.

Í ljósi þessara atburða hefur samgönguráðherra ákveðið að grípa til ýmissa aðgerða til að freista þess að stöðva þessa óheillaþróun og nefndar eru hér að framan. Leggur ráðherra einkum áherslu á fjögur eftirtalin atriði í þessu sambandi:

  1. Hert verði umferðareftirlit lögreglu með því að framlengja samning
  2. Hraðað verði uppsetningu hraðamyndavéla á þjóðvegum.
  3. Endurskoðuð verði viðurlög við umferðarlagabrotum
  4. Hraðað verði endurbótum á stofnbrautum.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira