Hoppa yfir valmynd
29. júní 2010 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Ráðstefna um Eyjafjallajökul og áhrif á flugið

Flugakademía Keilis heldur í haust ráðstefnu í samvinnu við ýmsa innlenda og erlenda aðila, meðal annars samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, þar sem fjalla á um eldgosið í Eyjafjallajökli og áhrif öskufalls á flugrekstur. Til ráðstefnunnar hefur verið boðið vísindamönnum, forráðamönnum í flugrekstri og fulltrúum opinberra aðila.

Ráðstefna um Eyjafjallajökul og flug
Ráðstefna um Eyjafjallajökul og flug

Ráðstefnan verður haldin dagana 15. og 16. september á gamla varnarsvæðinu við Keflavíkurflugvöll sem nú heitir Ásbrú.

Á ráðstefnunni verður leitast við að svara spurningum eins og hvað gerðist í Eyjafjallajökli, af hverju lokaðist lofthelgi Evrópu, hvaða reglum var fylgt og hvaða lærdóm má draga af þessum vanda. Einnig verður fjallað um hvort og hvernig má draga úr umfangi áhrifa öskudreifingar á flugumferð og hverjir eigi að taka ákvarðanir um hvernig minnka má áhættu vegna hennar.

Fyrirlesarar eru flestir úr röðum ofangreindra stofnana og samtaka og er um þessar mundir verið að ganga frá endanlegri dagskrá. Vitað er að Eric Moody, fyrrverandi flugstjóri hjá British Airways, tekur þátt í ráðstefnunni sem var við stjórnvölinn þegar breiðþota hans lenti í öskufalli við Jövu 24. júní 1982 en þá drapst á öllum fjórum hreyflum þotunnar. Flugmönnum tókst að koma þeim í gang á ný og lenti vélin heilu og höldnu og mun flugstjórinn skýra frá reynslu sinni í þessu flugi. Þá hafa nokkrir af fremstu vísindamönnum heims á sviði eldfjallafræða og öskudreifingar staðfest þáttöku sína.

Helstu innlendu samstarfsaðilar Keilis um skipulag ráðstefnunnar eru samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, iðnaðarráðuneytið, utanríkisráðuneytið, Flugmálastjórn Íslands, flugfélögin Atlanta, Icelandair og Flugfélag Íslands, Veðurstofa Íslands, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Félag íslenskra atvinnuflugmanna svo og Verkfræðingafélag Íslands og Tæknifræðingafélag Íslands. Þá hefur verið leitað samstarfs við ýmsa erlenda aðila svo sem samtök flugfélaga, flugmannafélaga, evrópskra og alþjóðlegra stofnana á sviði flugsins og vísindastofnana.

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar  Grímsson, er verndari ráðstefnunar.

Nánari upplýsingar um ráðstefnunna er að fá að vefsíðu Keilis, http://www.keilir.net/

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira