Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2000 Heilbrigðisráðuneytið

18. - 24. nóvember

Fréttapistill vikunnar
21. - 24. nóvember


Hækkun gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra
Gert er ráð fyrir að gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra hækki úr kr. 4.065 kr. í 4.578 kr. í frumvarpi Ingibjargar Pálmadóttur, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, til breytinga á lögum um málefni aldraðra nr. 125/1999. Að tillögu hennar hefur ríkisstjórnin samþykkt að leggja frumvarpið fyrir Alþingi. Samkvæmt fjárlögum þessa árs er framlag í Framkvæmdasjóð aldraðra 570 milljónir króna en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að það hækki um 76 milljónir kr. á næsta ári og verði þá samtals 646 milljónir kr. Úr Framkvæmdasjóði aldraðra eru m.a. veittir styrkir til bygginga stofnana fyrir aldraða. Vegna hækkunar á byggingakostnaði og brýnnar þarfar fyrir aukið rými er nauðsynlegt að hækka framlög til sjóðsins til að hraða uppbyggingu á þeim svæðum þar sem þörf fyrir aukið rými er mest, svo sem á höfuðborgarsvæðinu. Síðast hækkaði gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra 1. janúar 1997.

Þjóðfélagið sparar 7,5-15 milljarða króna árlega náist markmið heilbrigðisáætlunar
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur lagt fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um heilbrigðisáætlun til ársins 2010. Við gerð áætlunarinnar var megináhersla lögð á langtímaheilbrigðismarkmið sem miða að því að bæta heilsufar þjóðarinnar. Hagfræðistofnun var jafnframt fengin til að gera sérstaka kostnaðar- og ábatagreiningu á heilbrigðisáætluninni. Meginniðurstaðan er sú að verði markmiðum hennar náð ætti að vera mögulegt að draga úr þjóðfélagslegum kostnaði sem nemur á bilinu 7,5–15 milljörðum króna árlega. Til þess að ná þessum markmiðum þarf í ákveðnum tilvikum að stofna til einhvers kostnaðar en í öðrum tilvikum má áreiðanlega ná fram markmiðum með endurskipulagningu núverandi starfsemi. Í þingsályktunartillögunni er m.a. hægt að lesa um helstu markmið heilbrigðisáætlunarinnar og forgangsröðun verkefna.
Tillaga til þingsályktunar>

Heilbrigðisstofnunin á Akranesi - níu umsækjendur
Níu sóttu um starf framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunarinnar á Akranesi en umsóknarfrestur rann út 15. nóvember s.l. Eftirtaldir sóttu um starfið: Ásgeir Ásgeirsson, skrifstofustjóri. Birgir Guðjónsson, viðskiptafræðingur. Björn Baldursson, lögfræðingur. Björn S. Lárusson, rekstrarráðgjafi. Guðjón S. Brjánsson, framkvæmdastjóri. Hallur Magnússon, rekstrarfræðingur. Hjördís Stefánsdóttir, lögfræðingur. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, skólastjóri og Sigurður H. Engilbertsson, framkvæmdastjóri. Samkvæmt lögum metur sérstök nefnd hæfni umsækjenda um stöður framkvæmdastjóra sjúkrahúsa. Formaður hæfnisnefndarinnar er Halldór Jónsson, framkvæmdastjóri á Akureyri.

Alþjóðlegur dagur gegn kynferðisofbeldi, laugardaginn 25. nóvember
Um 670 einstaklingar, mest konur, hafa leitað til neyðarmóttöku vegna nauðgunar á bráðamóttökudeild Landspítala - háskólasjúkrahúss frá stofnun neyðarmóttökunnar árið 1993. Í tilefni af alþjóðlegum degi gegn kynferðisofbeldi n.k. laugardag efndu Stígamót, Kvennaathvarfið og Kvennaráðgjöfin til kynningarátaks gegn kynferðisofbeldis. Fjölmennur kynningarfundur með fjölbreyttri dagskrá sem haldin var á Hótel Borg í gær (23. nóvember) var liður í þessu átaki. Fyrir hönd Ingibjargar Pálmadóttur, heilbrigðisráðherra, flutti Margrét Björnsdóttir, deildarstjóri í heilbrigðisráðuneytinu ávarp, þar sem hún ræddi stöðu þessara mála, hvað gert hefur verið til að stemma stigu við kynferðisofbeldi og mikilvægi þess að vinna stöðugt að úrbótum.
Ávarpið >

Bólusetningar og heilkenni einhverfu - rannsóknir benda ekki til tengsla
,,Af og til berast fréttir af skaðlegum afleiðingum bólusetninga sem ekki hafa við rök að styðjast en eru til þess fallnar að draga úr tiltrú almennings á bólusetningum. Þegar þeir sjúkdómar hverfa úr samfélaginu sem bólusett er gegn er hætt við að fólk gleymi þeim afleiðingum sem sjúkdómarnir höfðu. Athyglin beinist þá að hugsanlegum aukaverkunum sem bólusetningar kunna að hafa. Allar ábendingar um hugsanlegar skaðlegar afleiðingar bólusetninga eru teknar alvarlega og þær sérstaklega kannaðar." Sóttvarnarlæknir bendir á þetta í grein sem birt er á heimasíðu landlæknisembættisins. Þar fjallar hann um rannsóknir sem gerðar hafa verið á því hvort bólusetning gegn mislingum, rauðum hundum og hettusótt geti valdið heilkenni einhverfu.
Sjá nánar>

Ráðstefna um öldrunarþjónustu - Dagskrá
Öldrunarþjónusta - samábyrgð þjóðarinnar. Þetta er yfirskrift ráðstefnu um öldrunarþjónustu sem haldin verður fimmtudaginn 30. nóvember kl. 13:00 - 16:00 á Hótel Loftleiðum. Rætt verður um stöðu öldrunarþjónustunnar, aldurssamsetningu þjóðarinnar og byggðaþróun, reifuð verður framtíðarspá um heilsufar aldraðra o.fl.
Dagskrá ráðstefnunnar>

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
24. nóvember 2000


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum